Útskrift frá FAS

Í dag fór fram útskrift frá FAS. Að þessu sinni útskrifast 11 stúdentar, einn nemandi af Vélstjórn A og einn nemandi af framhaldsskólabraut.

Nýstúdentar eru: Carmen Diljá Eyrúnardóttir, Erlendur Rafnkell Svansson, Eydís Arna Sigurðardóttir, Júlíana Rós Sigurðardóttir, Kjartan Jóhann R. Einarsson, Kolbrún Ósk Guðmundsdóttir, Ragnheiður Inga Björnsdóttir, Selma Ýr Ívarsdóttir, Sigjón Atli Ragnheiðarson, Sævar Rafn Gunnlaugsson og Tómas Nói Hauksson.

Af A stigi vélstjórnar útskrifast: Þorsteinn Kristinsson og Embla Hafsteinsdóttir útskrifast af framhaldsskólabraut.

Bestum árangri á stúdentprófi að þessu sinn nær Selma Ýr Ívarsdóttir.

Starfsfólk FAS óskar útskriftarnemendum öllum til hamingju með áfangann og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.

Útskrift frá FAS 20. maí

Laugardaginn 20. maí verður útskrift frá FAS. Að þessu sinni útskrifast ellefu stúdentar, einn nemandi af framhaldsskólabraut og einn nemandi úr Vélstjórn A. Athöfnin fer fram í Nýheimum og hefst klukkan 14.

Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Það væri gaman ef þeir sem eiga útskriftarafmæli mæta.

Vinnufundur PEAK í FAS

Í vikunni lauk tveggja daga vinnufundi samstarfsaðila FAS í Erasmus+ nýsköpunarverkefninu PEAK sem áður hefur verið greint frá hér á síðu skólans. Til að rifja stuttlega upp tilgang verkefnisins þá er hann að vinna námsefni fyrir bæði leiðbeinendur og kennara ungra frumkvöðla í fjallahéruðum og dreifðum byggðum, sem og fyrir frumkvöðlana sjálfa. Verkefnavinna sem þessi er liður í starfi FAS við að efla og hlúa að almennri menntun í nærsamfélagi sínu.

Það líður senn að lokum PEAK verkefnisins sem hefur staðið yfir í rúmlega þrjú ár, en því lýkur formlega 31. júlí n.k. Þessi fundur var sá síðasti þar sem samstarfsaðilarnir hittast í raunheimum en þeir sem mættu til Hafnar komu frá Skotlandi, Ítalíu og Grikklandi. Auk ferðalanganna tóku samstarfsaðilar frá Grikklandi, Írlandi og Norður-Írlandi þátt í vinnufundinum í gegnum netið.

Gestirnir dreifðu sér á milli nokkurra af okkar góðu gististöðum á meðan á dvöl þeirra stóð. Þeir unnu sína vinnu í FAS, nærðu sig m.a. hjá Lindu í mötuneyti skólans og kynntu sér starfsemi Nýheima og Vöruhússins þar sem Fab Lab-ið vakti mikla lukku. Þeir fengu auk þess stutta söguferð um bæinn og litu inn á bæði Pakkhúsið og Ottó. Gestunum fannst við búa mjög vel að öllu leyti og sérstaklega fannst þeim magnað að við hefðum svona glæsilega Fab Lab starfsstöð í okkar litla samfélagi.

Afurðir PEAK eru teknar að birtast á heimasíðu þess; https://www.peakentrepreneurs.eu/ og eru allir hvattir til að líta þangað inn og kynna sér áhugavert stuðningsefni fyrir frjóa einstaklinga sem áhuga hafa á nýsköpun og frumkvöðlavinnu. Síðan er enn í vinnslu en meira efni mun bætast inn á hana á komandi vikum. Auk heimasíðunnar er PEAK verkefnið einnig á samfélagsmiðlum en þeir eru einnig í  vinnslu á þessari stundu:

YouTube: https://www.youtube.com/@peakentrepreneurs2892/videos

TikTok: https://www.tiktok.com/@peakentrepreneurs

Instagram: https://www.instagram.com/peak.entrepreneurs/

Facebook: https://www.facebook.com/PeakEntrepreneurs

Í verkefninu segja ungir frumkvöðlar allra samstarfslandanna m.a. frá sinni reynslu af því að fá hugmyndir að atvinnumöguleikum og að hrinda þeim í framkvæmd. Saga þeirra birtist í stuttum myndböndum á heimasíðunni. Lesendur þessarar fréttar gæru verið sérstaklega áhugasamir að kynna sér hvað íslensku frumkvöðlarnir höfðu að segja, en myndböndin þeirra er að finna hér (https://www.peakentrepreneurs.eu/youth-entrepreneurs-video-showcase/#iceland)

Kynningarráðstefna verður haldin í Nýheimum í lok júní þar sem verkefnið verður kynnt formlega og sumt af efni þess prufukeyrt. Er það von undirritaðrar að sem flestir mæti á þá ráðstefnu og taki þátt. Nánari tímasetning verður auglýst síðar.

Verkefnastjóri PEAK á Íslandi, Hulda L. Hauksdóttir

 

Klettaklifur í annarlok

Svínfellingarnir Dan og Íris ásamt Ólafi Þór kenndu áfangann Klifurval í maí. Nemendurnir voru spenntir að komast út að klifra á ný eftir veturinn.

Að þessu sinni hófst áfanginn á Höfn og svo var haldið út í klifurparadísina á Vestrahorni þar sem við fórum yfir ferli fjölspannaklifurs í leiðinni Námsbraut. Þann dag rigndi mikið og því var virkilega gott að komast í vöfflur og kaffi á kaffhúsinu í Vestrahorni.

Næsti dagur var í Svínafelli í Skjólgili en þar eru dótaklifurleiðir í stuðlabergi. Hér klifruðum við í sprungum og settum inn dótatryggingar. Í Káraskjóli í Freysnesi er klifurveggur sem Klifurfélag Öræfa á en hann nýtist okkur vel í fjallamennskunáminu. Þar er hægt að æfa klifurhreyfingar og línuvinnu sem er einstaklega gagnlegt á rigningardögum. Síðasta daginn var loksins þurrt á Hnappavöllum, stærsta klifursvæði landsins. Þar leiddu hér um bil allir nemendurnir klifurleiðir og komust vel af stað inn í klifursumarið.  

Takk kærlega fyrir samveruna kæru nemendur.  

 

Valdaskipti hjá nemendaráði

Það er orðin hefð í FAS að nýtt nemendaráð sé kosið á aðalfundi nemendafélagsins að vori. Sá fundur var haldinn 4. maí. Mæting á fundinn var ágæt og allt fór vel fram. Frambjóðendur til embætta voru; Anna Lára sem bauð sig fram sem forseta, Siggerður Egla bauð sig fram sem varaforseta og Helga Kristey bauð sig fram sem hagsmunafulltrúa skólans en sá fulltrúi er jafnframt tengiliður við SÍF (Samband íslenskra framhaldsskólanema). Ekkert mótframboð barst og því voru frambjóðendur sjálfkjörnir.

Í dag var komið að valdaskiptum nemendaráða. Það voru þau Dagmar, Júlíana og Filip sem afhentu völdin til nýs nemendaráðs og var það gert á táknrænan hátt með lyklaskiptum að herbergi nemendaráðs í skólanum.
Við þökkum fráfarandi ráði fyrir vinnuna í vetur og bjóðum nýtt nemendaráð velkomið. Jafnframt hlökkum við til að sjá starfið á komandi skólaári.

Lokaverkefni og vorhátíð

Það var sannarlega mikið um að vera í FAS í dag og má segja að það hafi verið nokkurs konar uppskeruhátíð. Eftir hádegi kynntu væntanleg útskriftarefni lokaverkefni sín. Þær kynningar voru fjölbreyttar og gengu ljómandi vel. Okkur í FAS finnst mikilvægt að nemendur læri að standa fyrir framan hóp segja frá vinnu sinni og verkum.

Síðdegis hófst svo „Vorhátíð“ þar sem allir sem vildu gátu komið og kynnt sér fjölbreytta vinnu nemenda. Sýningar list- og verkgreina skipuðu stærstan sess en það voru líka dæmi um vinnu nemenda úr öðrum áföngum. Þegar boðið er til hátíðar er auðvitað boðið upp á hressingu. Það var gaman að sjá gestina rölta um efri hæðina og virða fyrir sér og jafnvel hlusta á verk nemenda. Takk öll fyrir komuna.

Á morgun, 10. maí er síðasti kennsludagur og lokamatsviðtöl hefjast svo á fimmtudag.

Á meðfylgjandi myndum má sjá nokkur af þeim verkefnum sem voru á sýningunni.