Hájöklaferð í fjallanáminu

28.apr.2024

Þann 21. apríl lagði grunnnámshópur fjallanámsins af stað í leiðangur upp á Hrútsfjallstinda. Nemendur voru fimmtán talsins auk þriggja kennara  og var veðurspá með besta móti og stóð til að gista upp frá í þrjár nætur. Það þýddi að bakpokar voru þungir en samt sem áður voru allir léttir í lund.

Fyrsti dagurinn var langur og náði hópurinn undir Vesturtind, skellti þar upp tjöldum og skriðu allir í svefnpoka til að hvíla lúin bein. Annan daginn gengum við upp á Vesturtind og æfðum sprungubjörgun fyrir hádegi, hádegismatur var svo snæddur í tjaldbúðum. Eftir hádegi skipti hópurinn sér upp í fjögur teymi sem klifu Hrútsfjallstindana þrjá sem eftir voru (á eftir Vesturtindi), Hátind, Miðtind og Suðurtind í veðurblíðunni.

Þriðja daginn pakkaði hópurinn saman tjöldum og hélt í átt að Hvannadalshnjúk. Þar skelltum við upp tjaldbúðum undir vesturhlíð hnjúksins áður en við gengum skotspöl að næstu sprungu til þess að æfa sprungubjörgun þar sem fleiri en eitt teymi aðstoðaði við björgunina. Veðrið var einstaklega gott þetta kvöld svo hópurinn útbjó hringlaga útieldhús þar sem mannskapurinn naut matar, söng og dansaði.

Síðasta daginn gekk hópurinn niður Virkisjökulsleiðina í mikilli sól og hita. Við vorum ánægð að komast til byggða eftir fjóra langa en góða daga á jöklinum. Heilt yfir var ferðin ógleymanleg og heilmikið ævintýri sem bæði reyndi á líkamlegt og andlegt þol. Hópurinn stóð sig með stakri prýði og styrktist enn meira og þéttist við þessa áskorun.  

 Kennarar í ferðinni voru Íris Ragnarsdóttir, Svanhvít Helga Jóhannsdóttir og Ólafur Þór Kristinsson. 

Aðrar fréttir

Námsefni í Forestwell prufukeyrt

Námsefni í Forestwell prufukeyrt

Nemendur og kennarar í FAS prufukeyrðu námsefni Forestwell verkefnisins í vikunni. Þátttakendur voru tólf og fengu þeir stutta kynningu á verkefninu, tilgangi þess og afurðum. Þátttakendur kynntu sér heimasíðuna og námsumhverfið þar, m.a. AR umhverfið (Augmented...

Fréttir frá Vaala

Fréttir frá Vaala

Það hefur verið mikið um að vera hjá hópnum sem lagði af stað til Finnlands síðasta föstudag. Við komum á áfangastað á laugardagskvöldi og nemendur fóru þá til gestafjölskyldna sinna. Norðmennirnir í verkefninu komu svo til Vaala á sunnudagskvöldið. Þegar allir eru...

Á leið til Finnlands

Á leið til Finnlands

Um hádegisbil í dag lagði af stað hópur nemenda ásamt tveimur kennurum áleiðis til Vaala í Finnlandi. Þessi heimsókn er hluti af Nordplus Junior verkefni sem fjallar um náttúrulegar auðlindir og nýtingu þeirra. Auk Finnlands og Íslands taka nemendur frá Noregi þátt í...