Anna Lára vinnur ferð til Þýskalands

Félag þýzkukennara hefur um árabil með stuðningi frá Goethe Institut og Þýska sendiráðinu staðið fyrir samkeppni sem kallast Þýskuþraut. Þar gefst nemendum sem eru komnir áleiðis í námi kostur á að taka þátt í þýskuprófi til að sjá hver staða þeirra er miðað við jafnaldra í öðrum skólum. Nemendur í FAS hafa oft tekið þátt í gegnum árin og mörgum hefur gengið ágætlega. Félagið stendur líka fyrir stuttmyndasamkeppni og eru bæði þrautin og stuttmyndasamkeppnin liður í að kynna þýsku fyrir nemendum.

Síðustu árin hefur þrautinni verið skipt í tvö stig og fer skiptingin eftir því hversu langt nemendur eru komnir á náminu. Stig eitt gerir ráð fyrir að nemendur taki þrjá áfanga í þýsku til stúdentsprófs en á stigi tvö hafa nemendur lokið 4 – 6 áföngum. Hér í FAS þurfa nemendur að taka fjóra áfanga í þriðja máli til stúdentsprófs.

Að þessu sinni völdu þrír nemendur í FAS að taka þátt í prófinu og tóku þau þrautina á stigi tvö. Prófin eru svo send til Félags þýzkukennara sem fer yfir úrlausnirnar. Það er til nokkurs að vinna því fyrir efstu sætin á hvoru stigi er í boði hálfsmánaðar ferð í sumarbúðir í Þýskalandi. Að auki var ákveðið að draga einn úr hópi 20 efstu sem gæti einnig farið í sumarbúðirnar. Þegar úrslit í þrautinni voru kunngerð var ljóst að allir þrír nemendur FAS höfðu staðið sig ljómandi vel. Anna Lára Grétarsdóttir gerði sér lítið fyrir og varð efst keppenda á stigi tvö og er því á leið til Þýskalands seinni partinn í júlí.

Laugardaginn 16. mars stóð Félag þýzkukennara fyrir verðlaunahátíð fyrir bæði Þýskuþrautina og stuttmyndasamkeppnina. Þar mætti Anna Lára og tók á móti viðurkenningu fyrir frammistöðuna og hitti aðra verðlaunahafa. Við óskum Önnu Láru hjartanlega til hamingju og hlökkum til að heyra af ferðalaginu í sumar.

Opnum dögum lýkur – nýr framhaldsskólameistari í Hornafjarðarmanna

Í dag er þriðji og síðasti dagur opinna daga og mikið búið að vera um að vera. Morguninn byrjaði líkt og fyrri dagar á morgunleikfimi. Að því loknu fengum við góða gesti. Það voru læknanemar frá Ástráði með fræðslu um kynlíf, kynheilbrigði og samskipti. Í löngu pásunni höfðu nemendur val um það hvort hafragrauturinn yrði snæddur úti eða inni og völdu einhverjir að setjast að snæðingi fyrir utan Nýheima.

Þá var komið að því að spila Hornafjarðarmanna en það hefur verið reglulega gert frá árinu 2004. Það var sjálfur útbreiðslustjórinn Albert Eymundsson sem kom og stýrði spilinu. Í upphafi var spilað á 10 borðum en þegar kom að úrslitaspilinu að þá voru það Agnes Heiða, Gunnar Óli og Ingólfur sem áttust við. Á endanum var það Gunnar Óli sem stóð uppi sem nýkrýndur framhaldsskólameistari og fékk hann að launum miða á árshátíðina sem verður annað kvöld.

Í hádeginu voru grillaðir hamborgarar og að venju voru þeim gerð góð skil. Eftir hádegið var verið að kynna nám í hússtjórnarskólum og lýðháskólum og var sú kynning í höndum Kristjáns og Línu. Þá var hægt að stunda ýmis konar hreyfingu, t.d. að spila fótbolta eða fara í líkamsrækt. Opnum dögum lauk svo með því að nemendur hittust í nokkrum smærri hópum þar sem var verið að meta starfið síðustu daga. Það er skemmst frá því að segja að nemendur eru mjög sáttir við fyrirkomulagið og hafa átt góðar stundir.

Annað kvöld verður svo árshátíð skólans. Borðhaldið verður á Heppunni og ball á eftir á Hafinu.

Áfram halda opnir dagar í FAS

Í dag var áfram haldið með dagskrá opinna daga. Líkt og í gær var margt og mikið á boðstólum. Dagurinn hófst á morgunleikfimi á Nýtorgi og að því loknu var snyrtivörunámskeið þar sem þátttakendur voru m.a. að búa til andlitsmaska. Á sama tíma var haldið borðtennismót í Þrykkjunni. Eftir morgungrautinn var komið að spurningakeppni á milli kennara og nemenda og það voru kennarar sem báru sigur úr býtum.

Margt annað var á dagskrá í dag. Stelpurnar í Fókus voru með kynningu og þá kynnti Andrea Sól skiptinám en hún er nýlega komin eftir rúmlega 10 mánaða dvöl í Japan. Þá var möguleiki að eiga kaffispjall með Barða á kennarastofunni, boðið var upp á yndislestur á bókasafninu og einnig var hægt að taka þar í spil. Einhverjir völdu að spila badminton í íþróttahúsinu, aðrir fóru á crossfit-æfingu og nokkrir fengu prófa nýja golfherminn í golfskálanum.

Í lok dags var svo efnt til vöfflusamsætis á Nýtorgi. Þar runnu nýbakaðar vöfflur ljúflega niður og allir héldu saddir og sælir heim eftir daginn.

Fyrsti dagur opinna daga í FAS

Í dag hófust opnir dagar í FAS en þá er hefðbundið nám sett til hliðar í þrjá daga og nemendur fást við allt annað. Skipulagið að þessu sinni er frábrugðið því sem við höfum átt að venjast síðustu ár. Núna eru opnir dagar settir saman úr mörgum smærri viðburðum. Nemendur þurfa að taka þátt í um 20 mismunandi viðburðum til að fá einingu í námsferilinn.

Það hefur heldur betur verið komið víða við í dag. Nemendur byrjuðu daginn á morgunleikfimi á Nýtorgi og í kjölfarið hafa verið kynningar, alls kyns örnámskeið, útivist, kynningar á ýmsum íþróttum utan FAS og svo spilamennska.

Dagurinn hefur gengið ljómandi vel og ekki annað að sjá en allir séu sáttir.

Fræðsla um mannréttindi

Fyrr í þessari viku fengu nemendur og kennarar FAS fræðslu um mannréttindi. Það var ELSA á Íslandi sem eru samtök evrópska laganema og lögfræðinga sem stóðu fyrir fræðslunni en þau hafa verið að heimsækja framhaldsskóla og halda gagnvirk erindi um mannréttindi. Það var komið víða við og m.a. fjallað um lýðræði, lög og alls kyns réttindi sem einstaklingar hafa.

Sú sem sá um kynninguna var Arndís Ósk Magnúsdóttir sem er fyrrum nemandi hér í FAS en hún mun í vor ljúka master í lögfræði með áherslu á mannréttindi. Það var einkar ánægjulegt að sjá hana hér eystra og við þökkum henni kærlega fyrir komuna og innleggið.

 

Grunnur í fjallaskíðamennsku

Einungis tæpum tveimur vikum eftir snjóflóðanámskeiðið voru nemendur aftur mættir norður á Dalvík á fjögurra daga grunnnámskeið í fjallaskíðamennsku. 19 nemendur sóttu námskeiðið og voru kennarar þrír.

Nú var áherslan lögð á ferðamennsku á skíðum í fjalllendi og bjuggu nemendur yfir góðum snjóflóða- og skíðagrunni fyrir það síðan í byrjun febrúar. Nemendur fengu góða kynningu á svæðinu og á fjórum dögum var skíðað vítt og breitt um Tröllaskagann. Hópurinn stóð saman í blíðaskaparveðri á toppi Karlsárfjalls, skíðaði mjúka lausamjöll í innanverðum Svarfaðardal og upplifði almennilegan skafrenning í fjallahæð og harðfenni á Presthnjúki og Vatnsendahnjúki. Námskeiðinu lauk síðan á hóp-snjóflóðabjörgun í Upsadal ofan Dalvíkur. 

Að morgni hvers dags var farið yfir veðurspá og snjóalög ásamt áætlun dagsins og fengu nemendur að spreyta sig á því verkefni í hópum til skiptis. Það er mikilvægt að undirbúa sig vel fyrir fjallaskíðaferðir, hafa góða mynd af snjóalögum og veðurspá dagsins en einnig að þekkja landslagið vel, skoða vandlega kort og leiðir og hlaða þeim niður í tækið sitt. Í feltinu er síðan hægt að nýta þá vitneskju til ákvarðanatöku en einnig bætast við mikilvægar upplýsingar á ferðinni um snjó og leiðarval og það er nauðsynlegt að temja sér umhverfisvitund og læra vel inn á landslagslestur m.t.t. snjóflóða. 

Nemendur sýndu mikla framför á námskeiðinu, einnig þrautseigju og áhuga á námsefninu. Fjallaskíðin veita manni mikið frelsi á fjöllum og ef skíðakunnáttan samhliða snjóflóðaþekkingu, góðum undirbúningi og umhverfisvitund er til staðar þá gerist útivistin varla betri. 

Næst á dagskrá er fjallaskíðanámskeið fyrir framhaldsnema og við kennararnir hlökkum til að taka fjallaskíðaævintýrið á næsta stig!  

Kennarar námskeiðsins voru Erla Guðný Helgadóttir, Svanhvít Helga Jóhannsdóttir og Smári Stefánsson. Erla skrifar greinina.