Minnum á foreldrafundinn

Við viljum minna á foreldrafundinn í dag. Hann verður haldinn á Nýtorgi á milli 17 og 18 og verður boðið upp á súpu. Á fundinum verður farið yfir það markverðasta er varðar skólastarfið framundan. Þá munu fulltrúar frá nemendafélagi skólans mæta og kynna félagslíf skólans.

Við hvetjum alla foreldra til að mæta á fundinn til að fræðast um skólastarfið og eiga samtal um málefni síns fólks.

Námsferð til Ítalíu

Í síðustu viku voru fimm nemendur úr FAS ásamt kennurum í námsferð á Ítalíu. Verkefnið heitir „Rare routes“ en við höfum sagt frá því áður á heimasíðu okkar.

Ferðalagið til og frá Ítalíu var bæði langt og strangt. Það voru líka mikil ferðalög innanlands alla ferðina. Ferðin hófst í Milanó, þaðan var farið til Sestri Levante. Þar var aðalbækistöð hópsins í þrjá daga og var gist í nunnuklaustri. Hópurinn fór í styttri ferðir, m.a. til Vernazza, Riomaggoirre og Monterasso. Í skoðunarferðum fékk hópurinn ágætis yfirsýn yfir menningararf svæðisins. Veðrið var alls konar; það voru heit tímabil, það kom úrhelli með þrumuveðri og svo var stundum dálítið hvasst.

Seinni hluta ferðarinnar var dvalið í Flórens þar sem einnig var gist í nunnuklaustri. Einnig þar voru menningarminjar skoðaðar og síðasta daginn var farið til Siena og borgin skoðuð.

Hópurinn kom svo sannarlega heim reynslunni ríkari og náði að safna hressilega í minningarbankann.

Trjágróðurinn á Skeiðarársandi

Í dag var komið að árlegri ferð á Skeiðarársandinn en þangað hafa nemendur frá FAS farið frá árinu 2009. Skólinn er þar með fimm gróðurreiti og er farið til að skoða breytingar sem eiga sér stað á milli ára. Það voru tæpir tveir tugir sem fóru í ferðina í dag og gekk allt ljómandi vel.

Það er margt sem er verið að skoða hverju sinni. Það er t.d. reynt að áætla gróðurþekju í hverjum reit, nemendur læra að þekkja mismunandi plöntutegundir. Allar trjáplöntur innan hvers reit eru taldar og flokkaðar. Ef trjáplöntur eru hærri en 10 cm þarf að mæla hæð þeirra og mestan ársvöxt hverrar plöntu. Þá er horft eftir ummerkjum um beit eða afrán skordýra. Allar upplýsingar eru skráðar skilmerkilega á til þess gerð eyðublöð. Við tókum eftir allmörgum trjám þar sem hluti plöntunnar virtist líflítill eða jafnvel dauður. Við vitum að það hefur verið óvenju þurrt síðustu vikur og mánuði og það gæti verið möguleg skýring.

Næstu daga munu nemendur svo skoða gögnin nánar og vinna úr upplýsingum. Á endanum skila nemendur svo skýrslu um ferðina.

Svona ferðir á vettvangi eru alltaf mjög lærdómsríkar og skila oft mun meiru en seta inni í kennslustofu. Það var heldur ekki að sjá annað en allir væru sáttir með ferðina í dag.

Foreldrafundur í FAS frestast

Samkvæmt dagatali skólans hefði átt að vera foreldrafundur á morgun, 31. ágúst. Þar sem skólameistari er þessa vikuna með nemendur á Ítalíu að þá frestast fundurinn um eina viku. Hann verður haldinn 7. september. Dagskrá fyrir fundinn verður send síðar í tölvupósti.

Vel heppnaður nýnemadagur

Í dag var haldinn nýnemadagur í FAS til þess að bjóða nýja nemendur velkomna í skólann. Það var nemendaráð sem hafði veg og vanda að því að skipuleggja dagskrána. Nemendum var skipt í hópa og átti hver hópur að safna stigum með því að leysa ýmsar skemmtilegar þrautir, t.d. hoppa í sjóinn, betla mat, skríða inni í Nettó, taka myndir með einkennisklæddum, lita á sér hárið og fleira. Fyrir hverja þraut fengust ákveðið mörg stig. Markmiðið var að safna sem flestum stigum. Það var þó ekki upplýst í dag hverjir náðu að safna flestum stigum. Það verður gert á nýnemaballi sem verður haldið síðar í þessum mánuði.

Eftir stigaleikinn voru grillaðir hamborgarar og skólasöngur FAS var spilaður á Nýtorgi. Leikurinn fékk nemendur sem þekkjast lítið til að vinna saman og allir tóku þátt í sprellinu og var ekki annað að sjá en að allir skemmtu sér hið besta. Við þökkum nemendaráði kærlega fyrir þeirra aðkomu að þessum skemmtilega degi.

Nýnemadagurinn í FAS

Á morgun, miðvikudaginn 30. ágúst verður dagurinn helgaður nýnemum. Það er ekki hefðbundin kennsla en allir eiga að mæta í skólann klukkan 8:30. Það er nemendafélag skólans sem hefur skipulagt dagskrá fyrir daginn. Í hádeginu býður skólinn til hamborgaraveislu fyrir nemendur og starfsfólk.

Eftir hádegi verður félagslíf skólans kynnt og þá verður hægt að skrá sig í klúbba. Það er mikilvægt að allir taki þátt í félagslífi skólans svo það verði blómlegt.

Mætum öll kát og hress í skólann á morgun og höfum gaman saman.