Lokaferð grunnnema í Fjallamennskunámi FAS

23.maí.2024

Síðasti áfangi í grunnnámi Fjalla-FAS, Lokaferð, kláraðist í vikunni. Í þeim áfanga skipuleggja nemendur í sameiningu sína eigin ferð og leiða hana og kennarar eru þeim innan handar. Nemendur fá tækifæri til að sýna fram á þá færni sem þau hafa öðlast í náminu í vetur, en krafa áfangans er að þau skipuleggi ferð þar sem er gengið á hájökli, í fjalllendi, í krefjandi landslagi rötunarlega séð og þar sem gist er í tjaldi. Áfanginn er sjö dagar og í ár ákváðu nemendur að byrja á að leggja af stað í þriggja daga ferð í Skaftafellsfjöll þar sem hópurinn gisti í tvær nætur í Kjós og gekk á Ragnarstind og Miðfellstind í jaðri Vatnajökuls. Frá tindunum fengum við útsýni yfir Vatnajökul, Öræfajökul og Skaftafellsfjöll. Við komum svo niður úr fjöllunum áður en það fór að rigna og hvessa og á rigningardegi tókum við einskonar hvíldardag og fórum á kayak á Heinabergslóni með Iceguide.

Næst skipulögðu nemendur annars vegar dagsferð á Vestari-Hnapp í Öræfajökli og hins vegar á Fláajökul frá Bólstaðafossi. Dagurinn á Hnappi gekk mjög vel og hópurinn náði toppnum. Auk þess náðu þau að hífa kennara upp úr sprungu sem ‘óvart’ datt þar ofan í. Hópurinn á Fláajökli skoðaði landslag jökulsins og setti upp ísklifur. Á síðasta degi áfangans var farið yfir hvernig á að setja upp kerfi til að tryggja sjúkling niður í börum í fjallabjörgun.

Við kennararnir í fjallamennskunáminu erum stolt að horfa á eftir þessum flotta hópi útskrifast og hlökkum til að sjá mörg þeirra aftur í haust þegar þau koma í framhaldsnámið.

Aðrar fréttir

Félagslíf er mikilvægt í skólastarfi

Félagslíf er mikilvægt í skólastarfi

Nú er skólastarfið komið á gott skrið. Hluti af skólastarfi í FAS er að hlúa að félagslífinu og það er gert með klúbbastarfi. Forsvarsmenn nemendafélagsins; þær Helga Kristey, Nína Ingibjörg og Isabella Tigist hafa undanfarið verið að undirbúa félagslíf annarinnar....

Skólastarf vorannar komið á skrið

Skólastarf vorannar komið á skrið

Nú er skólastarf vorannarinnar óðum að taka á sig mynd. Það hófst á mánudag en þá var farið yfir áfanga vorannarinnar samkvæmt hraðtöflu. Kennsla hófst svo samkvæmt stundaskrá í gær, þriðjudag. Ef það eru einhverjir enn að velta fyrir sér að skrá sig í fjarnám að þá...

Jólafrí og upphaf vorannar

Jólafrí og upphaf vorannar

Í dag lýkur starfi haustannar formlega og allar einkunnir eiga að vera komnar í INNU. Þá er líka komið jólafrí í skólanum sem er örugglega kærkomið hjá flestum. Skólastarf vorannar hefst mánudaginn 6. janúar klukkan 8:30 en þá eiga nemendur að mæta hjá...