Síðasti áfangi í grunnnámi Fjalla-FAS, Lokaferð, kláraðist í vikunni. Í þeim áfanga skipuleggja nemendur í sameiningu sína eigin ferð og leiða hana og kennarar eru þeim innan handar. Nemendur fá tækifæri til að sýna fram á þá færni sem þau hafa öðlast í náminu í vetur, en krafa áfangans er að þau skipuleggi ferð þar sem er gengið á hájökli, í fjalllendi, í krefjandi landslagi rötunarlega séð og þar sem gist er í tjaldi. Áfanginn er sjö dagar og í ár ákváðu nemendur að byrja á að leggja af stað í þriggja daga ferð í Skaftafellsfjöll þar sem hópurinn gisti í tvær nætur í Kjós og gekk á Ragnarstind og Miðfellstind í jaðri Vatnajökuls. Frá tindunum fengum við útsýni yfir Vatnajökul, Öræfajökul og Skaftafellsfjöll. Við komum svo niður úr fjöllunum áður en það fór að rigna og hvessa og á rigningardegi tókum við einskonar hvíldardag og fórum á kayak á Heinabergslóni með Iceguide.
Næst skipulögðu nemendur annars vegar dagsferð á Vestari-Hnapp í Öræfajökli og hins vegar á Fláajökul frá Bólstaðafossi. Dagurinn á Hnappi gekk mjög vel og hópurinn náði toppnum. Auk þess náðu þau að hífa kennara upp úr sprungu sem ‘óvart’ datt þar ofan í. Hópurinn á Fláajökli skoðaði landslag jökulsins og setti upp ísklifur. Á síðasta degi áfangans var farið yfir hvernig á að setja upp kerfi til að tryggja sjúkling niður í börum í fjallabjörgun.
Við kennararnir í fjallamennskunáminu erum stolt að horfa á eftir þessum flotta hópi útskrifast og hlökkum til að sjá mörg þeirra aftur í haust þegar þau koma í framhaldsnámið.