Líkt og undanfarin ár hefur FAS tekið þátt í erlendu samstarfi. Að þessu sinni tengist viðfangsefnið heilsueflandi framhaldsskóla og almennri líðan. Áhersla er einnig lögð á jafningjafræðslu og að miðla stuttum skilaboðum til ungs fólks. Ein leið til þess er að búa til stutt myndbönd.
Stuttmyndin „Fáðu hjálp“ fjallar um það hvernig er að vera hafnað og hvernig það getur leitt til þunglyndis. En það er líka hægt að fá hjálp.
Í FAS er hægt að velja leiklist og nýtist sá áfangi í nám nemenda. Áfanginn er í samstarfi við Leikfélag Hornafjarðar. Þar býðst nemendum að taka þátt í að setja upp leiksýningu frá upphafi til enda. Fenginn er leikstjóri sem vinnur með nemendum í sex til sjö vikur og geta nemendur lært margt á þessum tíma. Í ár kom Jón Stefán Kristjánsson sem er reyndur leikari og leikstjóri og hefur unnið mikið með áhugaleikfélögum og framhaldsskólum um allt land.
Að þessu sinni var ákveðið að setja upp tvö stutt verk. Það eru verkin: Perfect eftir Hlín Agnarsdóttur og Tjaldið eftir Hallgrím Helgason en bæði þessi leikverk voru samin fyrir Þjóðleik árið 2012. Verkin eru ólík og sýna leikarar frábæra hæfileika með því að takast á við mjög ólík hlutverk.
Frumsýningin var síðast liðinn föstudag og stóðu krakkarnir sig með prýði. Síðasta sýning verður í kvöld og hvetjum við alla Hornfirðinga til að skella sér í leikhús. Sýningin er í Mánagarði og hefst klukkan 19:00.
Í gær voru menningarverðlaun Hornafjarðar veitt í Nýheimum. FAS átti þar sinn fulltrúa en leikhópur FAS var tilnefndur yrir sýninguna „Love ME DO“. Sú leiksýningin var sett upp í samstarfi við Leikfélag Hornafjarðar og skrifuð af leikstjóranum Stefáni Sturlu Sigurjónssyni. Hann hefur sett upp tvær sýningar með leikhópi FAS. Það er mikill heiður að skólinn hafi verið tilnefndur til þessara verðlauna. Þess má geta að „Love ME DO“ var heimsfrumsýnt á Hornafirði og þótti í alla staði takast mjög vel. Ekki síst vegna þess að tónlist og söngur var lifandi á hverri sýningu.
Átta aðrir einstaklingar og samtök voru tilnefnd til menningarverðlaunanna í gær. Það voru þau Soffía Auður Birgisdóttir og Bjarni F. Einarsson sem hlutu menningarverðlaunin að þessu sinni. Við óskum þeim innilega til hamingju.
Síðastliðna helgi voru átta nemendur í áfanganum Rannsóknaraðferðir félagsvísinda að vinna verkefni með kennara sínum. Þau lögðu fyrir símakönnun og hringdu á föstudag frá kl 17.00 – 22.00 og á laugardag frá kl 11.00 – 19.00 í fólk á úrtakslista.
Verkefnið er samstarfsverkefni á milli FAS og Háskólasetursins þar sem heimamenn voru spurðir um viðhorf þeirra til ferðaþjónustu og ferðamanna. Í úrtakinu voru 250 manns sem tekið var úr Sindraskránni og var svörunin 70%.
Þessi rannsókn er framkvæmd á hverju ári í áfanganum og er stefnt á að nota niðurstöður til að bera saman viðhorf á milli ára.
Næstu skref hópsins er að setja gögn inn í töflureikni (exel) og vinna úr niðurstöðunum. Stefnt er að því að gera niðurstöður og hrágögn aðgengileg á netinu.
Það er frábært fyrir skólann að fá tækifæri til að starfa með stofnunum í samfélaginu.
Nú er rétt tæplega mánuður liðinn af vorönninni og nemendur komnir vel af stað í náminu. Góð aðstaða er á lesstofu og skólinn ætlast til að nemendur nýti hana. Þar eiga þeir að nota tímann á milli kennslustunda til að læra og þannig geta þeir unnið mikið af heimavinnu í skólanum. Nemendur hafa góðan aðgang að tölvum og öðrum búnaði á lesstofunni og einnig eiga þeir auðvelt með að leita til kennara ef eitthvað bjátar á en það hefur lengi verið lögð áhersla á það í FAS að veita nemendum góða þjónustu.
Flestir nemendur eru duglegir að nýta sér lesstofuna og gaman að sjá þegar mætingin er góð.
Þessi vefur notar vafrakökur (cookies) til að tryggja sem besta upplifun þegar hann er skoðaður. Þessi borði hverfur þegar þú samþykkir notkun. Þú getur breytt stillingum á kökum hvenær sem er.