Nú er farið að hægjast um hjá nemendum því skriflegum prófum er lokið í FAS. Það sama er þó ekki hægt að segja um kennara því þeir eru í óða önn að fara yfir próf og reikna út lokaeinkunnir. Um leið og einkunnir eru tilbúnar eru þær settar í Innu.
Fimmtudaginn 17. desember verður prófsýning á milli tíu og tólf. Nemendur eru hvattir til að koma og líta á prófin. Það getur oft verið ágætt að skoða prófið með kennurunum og fá útskýringar á einkunnagjöf.
Í dönskutíma.
Áfram flýgur tíminn og nú er komin síðasta kennsluvika annarinnar. Það er því í mörg horn að líta bæði hjá nemendum og kennurum.
Þessa vikuna standa yfir munnleg próf í erlendum tungumálum og stærðfræði. Tímasetningar þeirra prófa eru í samráði við kennara. Þá eru nokkrir áfangar þar sem nemendur taka ekki próf en þurfa að skila stærri verkefnum.
Á morgun miðvikudag eru nokkrar slíkar kynningar. Þá munu nemendur í verkefnaáfanga og stjórnmálafræði vera með opinber skil í fyrirlestrasal Nýheima. Kynningarnar hefjast klukkan 9:05 og eru allir velkomnir til að koma og kynna sér áhugaverð verkefni. Klukkan hálf tíu verður hlé á kynningunum og þá munu nemendur í ERLE2ER05 vera með stutta kynningu á FAS sem heilsuskóla.
Í næstu viku hefjast svo skrifleg próf samkvæmt próftöflu.
Eyjólfur og Hjördís með kortið góða frá ÍSOR.
Í dag barst skólanum góð gjöf en það er nýútkomið berggrunnskort af Íslandi. Það er fyrirtækið ÍSOR, Íslenskar orkurannsóknir sem gefur kortið. ÍSOR er sjálfstæð ríkisstofnun sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið og sinnir rannsóknum, ráðgjöf, þjónustu og kennslu á sviði jarðvarma, grunnvatns og kolefna í jörðu.
ÍSOR gefur nú framhaldsskólum og háskólum sem sinna náttúrufræðikennslu kortið í tilefni þess að nú eru 70 ár síðan skipulagðar jarðhitarannsóknir hófust hér á landi. Kortið er unnið í samræmi við nýjar alþjóðlegar skilgreiningar á skiptingu jarðsöguskeiða sem gengu í gildi 2012.
FAS þakkar ÍSOR góða og gagnlega gjöf sem mun verða nýtt í náttúrufræðikennslu í skólanum.
Fulltrúar sjö skóla Fjarmenntaskólans voru dagana 9.-13. nóvember á ráðstefnu í Zagreb um menntun og upplýsingamiðlun. Ráðstefnan var tíunda ársráðstefna ecoMedia sem eru samtök 5000 skóla víðsvegar um Evrópu. Fjarmenntaskólanum var boðið að taka sæti í stjórn samtakanna og óskir komu fram um að halda ráðstefnu ecoMedia á Íslandi árið 2018.
Globe hópurinn í Unverjalandi haustið 2013
Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu hefur hlotið evrópskt gæðamerki fyrir framúrskarandi árangur í samstarfsverkefni með ungverskum framhaldsskóla. Verkefnið nefnist Living in a Changing Globe og snerist um loftslagsbreytingar. Það hófst haustið 2013 og lauk formlega nú í haust. Þetta er mesta viðurkenning sem hægt er að fá fyrir rafræn verkefni af þessu tagi og því mikið gleðiefni fyrir skólann. Skólinn hefur nú leyfi til að hafa evrópska gæðamerkið á heimasíðu sinni og fær að auki umfjöllun á heimasíðu eTwinning.
FAS hefur tekið þátt í fjölmörgum erlendum samstarfsverkefnum undanfarin ár. Flest eru svokölluð eTwinning verkefni en eTwinning er evrópskt tengslanet þar sem skólafólk á öllum skólastigum getur fundið sér samstarfsaðila á ýmsum sviðum. Verkefnin eru bæði rafræn en geta einnig falist í nemendaskiptum milli landa. Það er Rannís sem hefur umsjón með eTwinning hér á landi.
Health hópurinn á turni Wrocławski háskólans í Wrocław.
Heldur var nú „Health“ hópurinn orðinn lúinn þegar hann kom til Wroclaw undir morgun síðasta mánudag. Lagt var af stað til Keflavíkur fyrir hádegi á sunnudag og tók það ríflega 18 klukkustundir að ná áfangastað. Á flugvellinum í Berlín var ein ferðataskan tekin í misgripum og var það heilmikið vesen að endurheimta töskuna. Hún var þó komin til eigandans hér í Wroclaw um sólarhring síðar. Sá sem tók töskuna í misgripum mátti keyra um 1000 kílómetra til að koma töskunni til skila og nálgast sinn farangur. Það er nú eins gott að skoða vel hvort að farangurinn sé réttur.
Hér er nóg að gera. Strax á mánudag héldu íslensku krakkarnir kynningarnar sínar og tókst það ljómandi vel. Eftir kynningarnar var farið í Sky tower sem er hæsta bygging í Póllandi og svo síðar í heimsókn í ráðhús borgarinnar. Í gær, þriðjudag lærðu nemendur pólskan þjóðdans, fóru í heimsókn í háskóla (Uniwersytet Wrocławski) og röltu um miðbæinn með leiðsögn þar sem við fræddumst heilmikið svo eitthvað sé nefnt.
Í dag miðvikudag var svo vinnudagur í skólanum þar sem var m.a. skyndihjálparnámskeið, verkefnavinna og körfuboltaleikur. Á morgun er svo dagsferð í Góry Stołowe þjóðgarðinn.
Nánar má lesa um ferðir hópsins á http://health.fas.is/ en við reynum að uppfæra síðuna reglulega.