Vísindadögum lýkur í dag

flugaFrá því á miðvikudagsmorgun hafa nemendur í FAS heldur betur breytt til. En þá hófust vísindadagar sem að þessu sinni eru í samstarfi við sambýlinga skólans í Nýheimum. Þó verkefnin séu ólík er sama hugsun að baki þeirra allra, þ.e. að nemendur kynnist vinnubrögðum og aðferðum í vísindavinnu.
Núna í morgunsárið á föstudegi eru nemendur að leggja lokahönd á verkefnavinnuna. Klukkan 11:55 munu verkefnin verða kynnt stuttlega á Nýtorgi og í kjölfarið verður afrakstur vinnunnar sýndur á efri hæðinni.
Gestir og gangandi eru hvattir til að líta við og skoða vinnu hópanna. Sem dæmi um verkefni eru: fornleifarannsóknir, útreikningar við endurgerð á húsi, sjónarhorn listamanns, skóli framtíðar, ritgerðasmíð og vefvinna, rannsóknir á fiðrildum og skoðannakönnun meðal ferðamanna. Sýningin í FAS verður opin til 14:00. Einnig er hægt að sjá vinnu nemenda á http://visindavika.fas.is

Vísindadagar í næstu viku

IMG_2809

Mynd frá vísindadögum 2014.

Líkt og undanfarin ár verður skólastarfið á önninni aðeins brotið upp með vísindadögum. Þeir hefjast miðvikudaginn 28. október og standa út vikuna.
Í vinnu á vísindadögum er ætíð sama upplegg. Fyrsta daginn afla nemendur gagna, annan daginn er unnið úr gögnunum og þriðja og síðasta daginn eru svo kynningar undirbúnar og afrakstur vinnunnar sýndur.
Að þessu sinni munu FAS og aðrar stofnanir í Nýheimum vinna saman. Markmiðið er tvíþætt. Annars vegar að kynna fyrir nemendum þá blómlegu starfsemi sem er í húsinu og hins vegar að nýta þann mannauð sem er í Nýheimum.
Á morgun föstudag klukkan 11:55 verður kynnt hvaða verkefni eru í boði. Kynningin fer fram í fyrirlestrasal Nýheima. Að kynningu lokinni geta nemendur skráð sig í hópa. Gert er ráð fyrir að allt að tíu nemendur geti verið í hverjum hópi.

Miðannarviðtöl og námið framundan

Birkir og Halldór í íslenskutíma hjá Agnesi. Í síðustu viku fóru fram miðannarviðtöl í FAS en þá hitta nemendur kennara sína og þeir fara saman yfir stöðu mála. Í flestum áföngum er gefið miðannarmat. Þar er hægt að fá þrjár einkunnir; G sem bendir til að nemandi sé í góðum málum, V sem segir að allt sé í lagi en samt hægt að bæta sig. Þriðja einkunnin er O sem stendur fyrir óviðunandi. Þá vísbendingu ber að taka alvarlega og ef ekki verður breyting til batnaðar gæti svo farið að nemandi standist ekki áfangann í lokamati. Þessa vikuna hafa nemendur sem eru yngri en 18 ára og forráðamenn þeirra fengið sent heim bréf með miðannarmatinu. Fái einhver nemandi tvö O eða fleiri er jafnan boðað til viðtals og reynt að finna út hvernig bæta megi árangurinn.

Þegar önnin er hálfnuð er orðið tímabært að fara að huga að vali fyrir næstu önn og skipuleggja nám sitt í skólanum. Í morgun var námsval við skólann kynnt og hvaða möguleika hver og einn hefur til að stunda það nám sem hann hefur valið sér eða hefur áhuga á. Næstu daga og vikur koma nemendur og hitta umsjónarkennara sína til að skipuleggja námið. Því fyrr sem skipulagið liggur fyrir því betra.

Á leið á slóðir Kristjáns fjórða

danmerkurfararFimmtudaginn 8. október leggja nemendur í áfanganum DANS2SS05 af stað áleiðis til Kaupmannahafnar ásamt Guðmundi Inga kennara.
Það sem af er vetri hafa nemendur í áfanganum unnið að verkefnum sem tengjast ævi og störfum Kristjáns fjórða Danakonungs og þeim byggingum sem hann lét reisa. En hann er sá konungur sem lét sér hvað mest málefni Íslands varða. Í vinnunni í vetur hafa nemendur jafnframt kynnt sér venjur og siði dansks samfélags á valdatíma konungs.
Hópurinn flýgur utan á föstudagsmorgun og hans bíður þéttskipuð dagskrá þar sem skoðaðar verða margar af helstu byggingum og söfnum sem tengjast sögu Kristjáns fjórða. Auk þess að feta slóðir konungs ætlar hópurinn að rölta eftir Strikinu og á laugardagskvöldið er ætlunin að bregða sér í Tívolíið og athuga hvernig tækin virka þar.
Hópurinn er væntanlegur til landsins á mánudagskvöld og nemendur mæta reynslunni ríkari í skólann á þriðjudag.

Staldraðu við og vertu….

mindfulnessÞessa vikuna hefur Bryndís Jóna Jónsdóttir kennari í núvitund verið hjá okkur í FAS. Hún hefur verið með námskeið fyrir krakkana sem taka þátt í nýja samstarfsverkefninu „Your health is your wealth“ sem er styrkt af Erasmus plus.
Bryndís hefur farið með krökkunum í gegnum námsefni sem kallast .b en það stendur fyrir stop, breath and be. Það er breskt námsefni þar sem nemendur fá tækifæri til að staldra við og gefa gaum að líðandi stundu, eigin líðan og hvernig megi takast á við áskoranir daglegs lífs.
Þetta námskeið er eitt af mörgum verkefnum sem krakkarnir takast á við. Um þessar mundir eru þau að eignast pennavini sem þau munu búa hjá þegar farið verður í heimsókn í skólann sem er í borginni Wroclaw í Póllandi. Íslensku krakkarnir fara utan í byrjun nóvember og dvelja í eina viku ytra og munu taka þátt í fjölbreyttri verkefnavinnu.
Meðfylgjandi mynd var tekin á námskeiðinu í dag. Þar áttu nemendur að ganga og veita því fulla athygli. Einfalt atriði eins og að ganga getur krafist ótrúlega mikillar einbeitingar.

Margt er okkur hulið

smasjaEinn þeirra áfanga sem er kenndur á haustönninni er Inngangur að náttúruvísindum. Þar er mikil áhersla lögð á að skoða umhverfið, hvað býr í því og tengja við námið.
Síðustu daga hafa nemendur verið að rifja upp líffræði og skoða smæstu einingar lífsins og rifja upp um leið hugtök eins og einfrumungar og fjölfrumungar.
Á mánudag fór hópurinn út til að ná í sýni. Annars vegar var farið í Óslandstjörnina þar sem svokallaður svifháfur var notaður til veiða. Hins vegar var tekið jarðvegssýni og sett upp nokkurs konar gildra til að veiða þau dýr sem þar leynast.
Í gær og í dag hafa nemendur athugað aflann og reynt að greina einstakar tegundir með hjálp greiningarlykla. Það má með sanni segja að mörgum hafi komið á óvart hversu mikið af litlum lífverum er í umhverfi okkar. Fleiri myndir má sjá á fésbókarsíðu FAS.