Amnesty International í FAS

Það er nú ýmislegt fleira en námið sem margir nemendur okkar í FAS eru að fást við. Og oft á tíðum eru það mikilvæg málefni sem varða okkur öll.

Í síðasta fréttabréfi Amnesty International er m.a. sagt frá öflugu starfi ungliðahreyfingar Amnesty á Íslandi. Og á myndum sem fylgja má sjá kunnugleg andlit úr skólanum en síðustu ár hafa nokkrir af nemendum okkar verið virkir í starfsemi Amnesty og tekið þátt í starfsemi samtakanna. Landinu er skipt upp í nokkra hluta en Höfn fylgir Austurlandi og á því svæði er mjög öflug starfsemi. Á síðasta skólaári stóðu ungliðar úr FAS ásamt öðrum félagsmönnum á svæðinu fyrir fræðslufundi um störf Amnesty. Amnesty var sýnilegt á Humarhátíðinni síðasta sumar og voru með bás á hátíðasvæðinu. Þá tóku nokkrir félagar héðan þátt í Reykjavík Pride en þar er verið að vekja athygli á minnihlutahópum í þjóðfélaginu.

Amnesty stendur m.a. fyrir bréfamaraþoni sem er löngu orðinn árlegur viðburður þar sem er verið að vekja athygli á erfiðum aðstæðum þeirra sem láta sig mannréttindi varða og berjast fyrir réttlæti í heiminum. Um þessar mundir er bréfamaraþonið að fara af stað. Veitt eru verðlaun fyrir flestar undirskriftir annars vegar og flestar undirskriftir á höfðatölu hins vegar. Síðustu þrjú árin hefur FAS skorað hátt í maraþoninu. Í næstu viku er ætlunin að hvetja alla í FAS til að taka þátt, einnig verður hægt að taka þátt á aðventuhátíð í Nýheimum næstkomandi laugardag og á þriðjudag í næstu viku verður bréfamaraþon á opnu húsi í Heppuskóla. Það er alltaf hægt að skrifa undir rafrænt og við hvetjum alla til að taka þátt en munið eftir að merkja við FAS.

Það fer vel saman að starfa í skemmtilegum félagsskap og um leið að láta gott af sér leiða. Að sjálfsögðu er þetta allt sjálfboðavinna sem er svo mikilvægur þáttur í hverju samfélagi.

 

[modula id=“9739″]

 

Ljósmyndasýning og frumsýning stuttmyndar

Síðasta föstudag opnuðu nemendur í ljósmyndun sýningu á Nýtorgi.  Nemendur hafa á önninni lært undirstöðuatriði í ljósmyndun en einnig einbeitt sér að hugmyndavinnu og er sýningin afrakstur hennar. Síðustu vikur annarinnar munu nemendur spreyta sig á stúdíóljósmyndun. Á vorönn heldur námið áfram og þá verður haldið eins langt frá stafrænni tækni og komist verður og nemendur smíða sér svokallaða Pinhole myndavél og taka myndir á hana. Síðan tekur við ljósmyndun á filmu, svarthvít framköllun og stækkun og að endingu vinna nemendur að lokaverkefnum sem sýnd verða í vor. Ljósmyndun í FAS er námslína sem spannar tvær annir en auk þess er hægt að bæta við þriðju önninni í formi verkefnaáfanga.

Á föstudaginn frumsýndi Ísar Svan Gautason stuttmyndina Kaffi sem hann gerði í verkefnaáfanga í kvikmyndagerð. Myndina má sjá hér: [embedyt] https://www.youtube.com/watch?v=crwQZA4989s[/embedyt]

Wiktoria bikarmeistari í Fitness

Um síðustu helgi fór fram mót í Fitness. Mótið var haldið í Háskólabíói og voru alls um 90 keppendur. Einn þeirra flokka sem var keppt í heitir Bodyfitness kvenna og þar keppti Wiktoria Darnowska sem er nemandi í FAS. Hún náði þeim frábæra árangri að vera efst í unglingaflokki, í sjötta sæti í sínum hæðarflokki og í heildina var hún í þriðja sæti.
Wiktoria byrjaði að æfa líkamsrækt fyrir um það bil tveimur árum. Það hefur lengi verið draumur hjá henni að keppa í fitnessmóti. Í janúar síðast liðnum ákvað hún að taka þátt í þessari keppni.
Það er að mörgu að huga þegar á að taka þátt í móti sem þessu.
Dómarar meta heildarútlit líkamans í öllum lotum með hliðsjón af samræmi, áferð og lögun vöðvanna, hóflegri líkamsfitu en einnig er tekið tillit til förðunar, hárs og framkomu hvers og eins. Fas og glæsileiki skiptir máli. Margir telja þessa keppnisgrein heppilega fyrir konur sem æfa mikið og vilja fylgja heilbrigðu mataræði og lífsstíl. Öllu máli skiptir þó að hafa góða leiðsögn. Þjálfari Wiktoriu er staðsettur í Reykjavík en hún æfir í Sporthöllinni. Að sögn Wiktoriu skiptir mataræðið hvað mestu máli því ef ekki er borðað rétt verður enginn árangur.
Wiktoria var að vonum ánægð með árangurinn á þessu fyrsta móti sínu og ætlar að halda ótrauð áfram.
Við í FAS óskum henni til hamingju með glæsilegan árangur og hlökkum til að fylgjast með henni í framtíðinni.

 

Vímuefnaneysla ungmenna

Miklar breytingar eiga sér stað á unglingsárunum og má segja að um eitt mesta breytingaskeið sé að ræða á lífsleiðinni.   Auk líkamlegra breytinga verður sýn unglinga á lífið annað ásamt því að væntingar annara til þeirra breytist.

Samkvæmt lögum er óheimilt að selja, veita eða afhenda ungmennum undir 20 ára aldri áfengi. Þessi lög eru sett til þess að vernda heilsu ungs fólks.  Áfengisneyslu geta fylgt ýmis vandamál, félagsleg og persónuleg sem hafa áhrif á einstaklinginn sjálfan og þá sem að honum standa.  Á árunum til tvítugs og jafnvel lengur er mikill líkamlegur þroski í gangi m.a. í heila og taugakerfi en áfengisneysla á þessum árum hefur því mjög slæm áhrif á líf og þroska ungmenna.  Neysla áfengis getur skaðað ákveðnar heilastöðvar fyrir lífstíð og því mikilvægt að fresta neyslu ungmenna á áfengi og öðrum vímugjöfum eins lengi og hægt er.

En hvernig frestum við drykkju og vímuefnaneyslu ungmenna?

Sýnt hefur verið að verndandi þættir felast  t.d. í skipulögðu félagsstarfi og íþróttum. Í skipulögðu félagsstarfi og íþróttum gefst ungmennum tækifæri á að taka virkan þátt og við það eflist sjálfsálitið og sjálfsmyndin.  Þeir unglingar sem hafa sterka sjálfsmynd eru yfirleitt hugrakkir og þora að taka góðar ákvarðanir fyrir sig, þora að segja nei við hlutum sem þau vita að eru ekki góð fyrir þau.   Þrátt fyrir að reglur  gildi um hluti eins og áfengisneyslu þá berum við sjálf að lokum alltaf ábyrgð á ákvörðunum okkar og stöndum og föllum með þeim eins og öðrum ákvörðunum sem við kunnum að taka á lífsleiðinni.

Þeir unglingar sem stunda íþróttir eða líkamsþjálfun reglulega eru líklegri til að upplifa betri líðan en öðrum jafningjum og eru þar að auki ólíklegri til að neyta áfengis og annara vímuefna en jafningjar.  Þjálfarar og leiðbeinendur eru í lykilstöðu til að hafa áhrif á ungmennin með því að leggja áherslu á forvarnir gegn vímuefnum en einnig með að sýna áhuga, gott fordæmi,  vera hvetjandi og sýna skilning. Íþróttafélögin gegna í raun mjög mikilvægu hlutverki í þessu sambandi og ættu að vera leiðandi í allri forvarnarvinnu.

Stuðningur foreldra er mjög mikilvægur og því meiri stuðning sem unglingar fá að heiman því ólíklegri eru þau til að neyta áfengis og vímuefna. Samvera unglinga við foreldra sína og fjölskyldur hefur verndandi áhrif og er mjög jákvæð. Verum ekki hrædd við að draga unglingana okkar með  út í gönguferðir, á kaffihús eða í bíltúr. Spilakvöld eru frábær samvera ásamt góðu spjalli. Gleymum ekki að við foreldrar erum fyrirmyndir og afstaða okkar skiptir máli.

Hreyfing og líkamleg þjálfun er mikilvæg fyrir alla en þátttaka í íþróttum tengist ekki bara líkamlegri heilsu heldur hefur sýnt sig að minnki líkur á þunglyndi, streitu og kvíða ásamt því að hafa áhrif á hegðun eins og minni neyslu á áfengi og fíkniefnum.

Unglingar eyða stórum hluta dagsins í skólanum og skólinn er því góður vettvangur fyrir forvarnir sem eiga við vímuefnaneyslu.  Gott samstarf milli heimila og skóla er mikilvægt til að styðja við vímuefnaforvarnir en einnig er samstarf við aðrar stofnanir samfélagsins nauðsynlegar og ber að nefna lögreglu og heilbrigðiskerfið í því samhengi.

Að þessu sögðu, langar mig að við tökum öll höndum saman og styðjum ungmennin okkar og sýnum þeim áhuga og virðingu. Við getum kannski gert lítið eitt og eitt en saman erum við öflugri. Það þarf nefnilega allt samfélagið að leggjast á eitt og það er trú mín að ef við gerum það munu þau vaxa og dafna sem best á þessu svo kallaða breytingarskeiði sem endar með fullorðinsárum.

Með þessari grein vil ég vekja athygli á vímuefnaneyslu ungmenna, forvörnum og skapa umræðugrundvöll fyrir okkur öll til að finna þessu málefni góðan farveg í allra þágu.

Ragnheiður skólahjúkrunarfræðingur
Grunnskóla Hornafjarðar og Framhaldsskólans í A-Skaftafellssýslu.

Spilakvöld í Nýheimum kl 20:00

Annað kvöld, fimmtudaginn 5. október, kl 20:00 mun Nýheimar þekkingasetur standa fyrir spilakvöld í Nýheimum. Albert Eymundsson ætlar að kenna fólki að spila Hornafjarðarmanna eða manna eins og margir kalla spilið. Það var töluvert spilað á árum áður en þá voru hvorki tölvur né sjónvarp til að stytta fólki stundir. Þegar Höfn fagnaði 100 ára afmæli sínu árið 1997 endurvakti Albert spilið og síðan þá hefur það verið spilað reglulega. Þannig eru haldin árlega t.d. heimsmeistaramót og Íslandsmeistaramót.
Árið 2004 var haldið fyrsta framhaldsskólamótið í Hornafjarðarmanna og auðvitað var það Albert sem kom þar við sögu. Síðan þá hefur Hornafjarðarmanni verið árlegur viðburður í opinni viku sem er á vorönninni. Nú viljum við hvetja nemendur til að nýta tækifærið og mæta í Nýheima til að læra þetta ágæta spil og um leið að undirbúa sig fyrir komandi mót í Hornafjarðarmanna sem verður spilað í mars á næsta ári.