Jöklaferð tvö í fjallamennskunáminu

13.nóv.2019

Lagt var að stað snemma morguns þriðjudaginn 5.nóvember, mjög létt var yfir hópnum en veðurspá í þetta skiptið leit heldur betur út en í fyrri ferðinni. Brunað var beinustu leið í Öræfin og héldum við á Falljökul á þessum fyrsta degi námskeiðisins. Fyrsti dagurinn fór í að rifja upp það helsta frá fyrra námskeiði, svo sem búnaðinn, broddatækni og leiðaval. Því næst var fundinn góður og öruggur staður sem að nemendur æfðu sig í sprungubjörgun. Framkvæmd var svokölluð 3 á móti 1 sprungubjörgun og gekk það mjög vel.

Á degi tvö var svo byrjað inni um morguninn þar sem farið var yfir sprungubjörgun í snjó og horft á kennslumyndbönd tengd því. Síðan var farið yfir hvernig ganga skal í línu á snævihuldum jökli og gerðum við það úti á túni í Svínafelli. Því næst var haldið á Falljökul og þar var aftur farið í sprungubjörgun en nú var farið yfir það sem kallast drop loop sprungubjörgun 6 á móti 1. Það kerfi er yfirleitt kennt af AIMG sem er fagfélag fjallaleiðsögumanna á Íslandi og gekk það mjög vel  hjá nemendum. Sprungubjörgun getur reynt mikið á bæði andlega og líkamlega og er mjög mikilvægt að öðlast skilning á því hvað verið er að gera. Því er lögð mikil áhersla á að læra sprungubjörgun á mismunandi vegu til að fá sem flest verkfæri í verkfærakistuna, nemendur læra að þekkja muninn á því hvað er öruggt og hvað ekki. Dagurinn var frábær og fengum við mjög gott veður á jöklinum. Dagurinn var frekar langur en ákveðið var að nýta sem best góða veðrið, því var gengið niður af jökli þegar farið var að rökkva og því þurfti að ganga með höfuðljós að hluta til.

Dagur 3 var svo tileinkaður íshellaferðum og skoðun á þeim. Því var lagt snemma af stað úr Svínafelli þar sem gist var í svefnpokaaðstöðu, keyrt var að Jökulsárlóni og þaðan inn í Þröng. Mjög gott veður var á svæðinu og heimsóttum við einn vinsælasta íshellinn um þessar mundir á svæðinu sem nefnist Saphire Ice Cave. Í íshellaferðinni fórum við yfir þær hættur, hvað ber að varast og hvað þarf að hafa í huga í íshellaferðum. Við skoðuðum íshellinn og fórum yfir hvernig íshellar myndast. Tókum góðan tíma í hellinum til að taka myndir og einnig til að sjá hvernig dagur í íshellaskoðun fer fram, en þar sáum við mikið af ferðamönnum og mikið af hópstjórum frá mörgum fyrirtækjum. Það var áhugavert fyrir nemendur að sjá hvernig slíkar ferðir fara fram og hvað það er sem að ferðamenn eru að sækjast eftir í slíkum ferðum. Eftir íshellaferðina gengum við um jökulsporðinn og skoðuðum Breiðarmerkurjökul. Jökullinn var þakinn snjó og því fórum við yfir hvernig eigi að bera sig að ef snjór hylur skriðjökla. Við skoðuðum einnig fallegar vatnsrásir á jöklinum og fengum að prófa Zip-line hjá Glacier Adventure og var þetta því sannkallaður ævintýradagur.

Síðasta daginn tókum við daginn svo mjög snemma gerðum sprungubjörgun úti í garði, því við vildum vera á undan veðrinu, en einhverjir nemendur þurftu að keyra til Reykjavíkur að námskeiðinu loknu og vegna versnandi ferðaveðurs og slæms veðurútlits var ákveðið að ljúka deginum snemma svo allir kæmust heim á öruggan hátt.

Námskeiðið gekk mjög vel og héldu þreyttir en ánægðir nemendur inn í helgina eftir skemmtilegt jöklanámskeið. Kennari námskeiðsins var Sólveig V. Sveinbjörnsdóttir.

[modula id=“9799″]

 

Aðrar fréttir

Vetrarferðamennska að Fjallabaki

Vetrarferðamennska að Fjallabaki

Frábærum fimm daga vetrarferðamennskuáfanga með Fjallamennskunámi FAS lauk nýverið þar sem við lögðum leið okkar á Fjallabak með viðkomu í Landmannalaugum. Ferðin var farin á ferðaskíðum en þrátt fyrir snjóleysi fengum við fínasta veður til kennslu. Að kenna þennan...

Til Svíþjóðar í boði Erasmus

Til Svíþjóðar í boði Erasmus

FAS hefur í nokkur ár verið með svokallaða Erasmus+ aðild sem er hugsuð sem einfaldari leið að styrkjamöguleikum á sviði náms og þjálfunar. Fjallamennskunám FAS hefur verið duglegt að nýta þennan möguleika til að nemendur fái tækifæri til að heimsækja önnur lönd og...

Staðan í fjallamennskunámi FAS

Staðan í fjallamennskunámi FAS

Nú er ljóst að námi í fjallamennsku í FAS í núverandi mynd er lokið og ekki verða innritaðir nemendur í námið á næstu haustönn. Sagan í tengslum við námið er orðin nokkuð löng og það hefur verið endurskrifað nokkrum sinnum með það fyrir augum að bæta námið og aðlaga...