Fjallanemar í jöklaferð

04.nóv.2019

Dagana 21. til 23. október var farið í jöklaferð1. Við fengum mjög gott veður framan af og nýttum þann tíma mjög vel. Lagt var af stað frá FAS að snemma morguns og lá leið okkar í Öræfin, en aðstæður til jöklaferða á því svæði eru með besta móti.

Eftir stutt stopp í Freysnesi var farið á Falljökul. Fyrsti dagurinn fór í að læra á búnað sem þarf til jöklaferða og broddatækni, farið var yfir hvernig skal nota viðeigandi búnað í jöklaferðum sem og hvernig eigi að ganga um hann. Þegar á jökulinn var komið var farið yfir það hvernig gengið er á jökli í mismunandi aðstæðum, svo sem á flatlendi, í halla eða öðrum aðstæðum þar sem þarf að beita mismunandi tækni til að geta ferðast af öryggi í mikilfenglegu landslagi jökulsins. Ásamt því var reynt að lesa í landslag jökulsins og farið yfir leiðaval og hvað þurfi að hafa í huga við ferðalög á jökli.

Á degi tvö hófst dagurinn í Svínafelli þar sem farið var yfir helstu hnúta og mismunandi aðferðir við að gera svokölluð ankeri í ísinn. Um hádegi var svo farið aftur á Falljökul þar sem nemendur settu mismunandi ankeri í ís. Það er mikilvægt að allir kunni réttu handbrögðin og því æfðu nemendur sig einn og einn við að setja upp ankeri. Því næst var farið yfir ísklifur og þann búnað sem þarf til að stunda það og að lokum klifrað smá.

Á þriðja degi var svo arfavitlaust veður og eyddum við því deginum inni í algjöru gluggaveðri ef svo má að orði komast en mjög hvasst var í Öræfunum og var því ekki hægt að fara á jökulinn. Þó við værum innandyra var af nægu efni að taka. Farið var yfir helstu hnúta og sprungubjörgun á ís. Þrátt fyrir hvassviðrið gátum við sett upp ankeri í stofunni og æft okkur í öruggum aðstæðum, sem var mjög skemmtilegt. Það var svo ákveðið að fara heim degi fyrr vegna veðurs og aðstæðna til ferðalaga, en veðurgluggi opnaðist til ferðalaga milli 16 – 18. Við drifum okkur því í snatri á Höfn rétt áður en veginum var lokað og má segja að það hafi verið lokað á hælana á okkur.

Kennari námskeiðisins var Sólveig Sveinbjörnsdóttir. Farið verður í jöklaferð 2 í næstu viku og hlökkum við til að deila meira með ykkur, endilega fylgist með okkur á Instagram undir @fjallamennskunamfas.

[modula id=“9795″]

 

Aðrar fréttir

Vetrarferðamennska að Fjallabaki

Vetrarferðamennska að Fjallabaki

Frábærum fimm daga vetrarferðamennskuáfanga með Fjallamennskunámi FAS lauk nýverið þar sem við lögðum leið okkar á Fjallabak með viðkomu í Landmannalaugum. Ferðin var farin á ferðaskíðum en þrátt fyrir snjóleysi fengum við fínasta veður til kennslu. Að kenna þennan...

Til Svíþjóðar í boði Erasmus

Til Svíþjóðar í boði Erasmus

FAS hefur í nokkur ár verið með svokallaða Erasmus+ aðild sem er hugsuð sem einfaldari leið að styrkjamöguleikum á sviði náms og þjálfunar. Fjallamennskunám FAS hefur verið duglegt að nýta þennan möguleika til að nemendur fái tækifæri til að heimsækja önnur lönd og...

Staðan í fjallamennskunámi FAS

Staðan í fjallamennskunámi FAS

Nú er ljóst að námi í fjallamennsku í FAS í núverandi mynd er lokið og ekki verða innritaðir nemendur í námið á næstu haustönn. Sagan í tengslum við námið er orðin nokkuð löng og það hefur verið endurskrifað nokkrum sinnum með það fyrir augum að bæta námið og aðlaga...