Um margra ára skeið hefur svokallaður verkefnaáfangi verið skylda í námsvali FAS. Þá vinna nemendur stórt lokaverkefni sem getur verið bæði rannsóknarvinna og/eða heimildavinna. Í áfanganum kynnast nemendur rannsóknaraðferðum, bæði megindlegum og eigindlegum, og eins hvernig vinna á úr slíkum gögnum. Síðast en ekki síst læra nemendur meðferð heimilda og hvernig setja á fram vinnu á skýran og skipulegan hátt.
Það var stór dagur hjá væntanlegum útskriftarnemendum í FAS í gær því þeir voru með kynningar á lokaverkefnum sínum. Staðnemendur héldu sínar kynningar í fyrirlestrasal Nýheima. Fjarnemendur þurfa að taka sínar kynningar upp og senda til kennara. Það er skemmst frá því að segja að kynningarnar í gær gengu ljómandi vel og greinilegt var að nemendum var létt að þeim loknum. Í gegnum tíðina hafa margir nemendur sagt að þetta sé einn mikilvægasti áfanginn sem þeir taka í FAS þar sem þetta sé góður undirbúningur fyrir frekara nám.