Grunnur í fjallaskíðamennsku

24.mar.2025

Veturinn hefur verið á undanhaldi þetta árið en lét þó sjá sig þá daga sem fjallaskíðanámskeiðið var haldið og nemendur fengu góðan snjó flesta dagana en það námskeið var haldið 7.-10. mars 2025. Þó að snjóþekjan væri ansi þunn í neðri hluta fjalla þá var hægt að skíða alveg frábæran snjó til fjalla. Það þurfti ekki mikið til þess að gleðja nemendur og kennara eftir snjóleysið á snjóflóðanámskeiðinu og það sýnir sig enn og aftur að það er alltaf hægt að vinna með aðstæður og gera það besta úr því sem náttúran býður upp á. 

Áherslurnar á þessu námskeiði eru aðrar en á snjóflóðanámskeiðinu sem er grunnurinn og byggir fjallaskíðanámskeiðið á efninu sem farið er yfir þar. Ferðamennska á fjallaskíðum er sérstakur ferðamáti og annars eðlis en fótgangandi og það sem kennt er í öðrum áföngum. Farið er yfir uppgöngutækni á skíðum, leiðarval og landslagslestur, hvernig má velja góða niðurleið að sjálfsögðu en auðvitað líka mikilvægi undirbúnings; þar sem rýnt var í kort, veður og snjóalög til þess að undirbúa örugga og skemmtilega fjallaskíðaferð.  Nemendur fengu góða kynningu á svæðinu og á fjórum dögum var skíðað vítt og breitt um Tröllaskagann. Hópurinn skíðaði saman niður Múlakollu á fyrsta degi, skíðaði dúnmjúka lausamjöll í innanverðum Svarfaðardal og Presthnjúk. Síðasti dagurinn var stuttur og fór í snjóflóðabjörgunaræfingu í Karlsárdal. 

Að morgni hvers dags var farið yfir veðurspá og snjóalög ásamt áætlun dagsins og fengu nemendur að spreyta sig á því verkefni í sínum hópum sem héldust þeir sömu yfir vikuna. Það er mikilvægt að undirbúa sig vel fyrir fjallaskíðaferðir, hafa góða mynd af snjóalögum og veðurspá dagsins en einnig að þekkja landslagið vel, skoða vandlega kort og leiðir og hlaða þeim niður í tækið sitt. Þannig má taka betri ákvarðanir í feltinu. 

Nemendur sýndu mikla framför á námskeiðinu, einnig þrautseigju og áhuga á námsefninu. Fjallaskíðin veita manni mikið frelsi á fjöllum og ef skíðakunnáttan samhliða snjóflóðaþekkingu, góðum undirbúningi og umhverfisvitund er til staðar þá gerist útivistin varla betri. 

Alls mættu fimmtán nemendur á námskeiðið en kennarar voru þau Svanhvít Helga Jóhannsdóttir, Smári Stefánsson og Erla Guðný Helgadóttir sem skrifar greinina.

Aðrar fréttir

Hárið frumsýnt á laugardag

Hárið frumsýnt á laugardag

Söngleikurinn Hárið verður frumsýndur í Mánagarði næstkomandi laugardag undir leikstjórn Svandísar Dóru Einarsdóttur. Samstarf á milli Leikfélags Hornafjarðar og FAS á sér langa sögu og í gegnum tíðina hafa fjölmargir nemendur tekið þátt í uppfærslum. Þeir nemendur...

Skíðagöngunámskeið – framhald

Skíðagöngunámskeið – framhald

Nýlega var framhaldsnámskeið í skíðagöngu haldið í fallegum fjöllum rétt sunnan við Borgarfjörð eystri. Hópurinn hafði aðsetur í hlýlegum Húsavíkurskála, sem reyndist frábær bækistöð með viðarkyndingu og notalegu andrúmslofti. Það var ævintýri út af fyrir sig að...

Kaffiboð á Nýtorgi

Kaffiboð á Nýtorgi

Eins og margir vita er margs konar starfsemi í Nýheimum. Auk skólans er fjöldi starfsmanna í húsinu sem vinnur við alls konar verkefni og svo er aðstaða til að læra fyrir nemendur á háskólastigi sem eru í fjarnámi. Oft hefur verið talað um mikilvægi þess að "íbúar"...