Mælingar á Fláajökli

28.apr.2016

IMG_4207

Jökuljaðar Fláajökuls hnitsettur.

Nemendur í FAS hafa komið að jöklamælingum í rúma tvo áratugi. Þar hefur oftast berið beitt svokölluðum þríhyrningsmælingum til að mæla jökulsporða sem ganga fram í jökullón. Í nokkurn tíma hefur verið rætt um það í skólanum að gaman væri að prófa nýjar aðferðir sem myndu gefa nákvæmari niðurstöður.
Í gær fóru nemendur í land- og jarðfræði ásamt kennurum sínum og Snævarri Guðmundssyni frá Náttúrustofu Suðausturlands upp að vestanverðum Fláajökli til að mæla jökulinn. Aðgengi að jöklinum þar er fremur gott og oft hægt að komast alveg að jaðrinum. Tilgangur ferðarinnar var tvíþættur. Annars vegar að nýta stafrænan fjarlægðamæli til að finna út vegalengd að jökli þar sem vatn liggur fyrir framan hann. Hins vegar að ganga meðfram jökulröndinni og taka GPS punkta á allmörgum stöðum. Á milli nokkurra GPS punkta var tækið síðan notað til að varða jökuljaðarinn.
Áður en farið var í þessa ferð höfðu nemendur fræðst um meðferð GPS tækja og hvernig tengja megi upplýsingar úr þeim við GIS gagnagrunninn sem er stafrænt landfræðilegt upplýsingakerfi sem m.a. vinnur út frá gögnum frá gervihnöttum. Þá höfðu krakkarnir notað mynd af Fláajökli frá 2010 til að teikna upp jökuljaðarinn eins og hann var þá og tengja við GPS hnit. Næstu daga verða upplýsingarnar sem var safnað í gær notaðar til að teikna nýja mynd af jökuljaðrinum. Þannig að á að fást mun nákvæmara yfirlit yfir breytingarnar á þessum sex árum heldur en með þeim aðferðum sem hingað til hafa verið notaðar. Það verður spennandi að bera myndirnar saman þegar vinnunni er lokið.
Ferðin í gær gekk ljómandi vel. Það var nokkuð kalt en bjart og stillt uppi við jökulinn. Hægt er að skoða myndir úr ferðinni á fésbókarsíðu skólans.

Aðrar fréttir

Umhverfisdagur Nýheima

Umhverfisdagur Nýheima

Það er vel við hæfi á síðasta degi vetrar að taka til hendinni og hreinsa og tína drasl sem hefur fallið til í vetur. Eins og svo oft áður efndu íbúar Nýheima til hreinsunardags þar sem allir sem geta leggja hönd á plóg. Það er búið að tína rusl, sópa, hreinsa á milli...

Fjallanámið áfram í FAS

Fjallanámið áfram í FAS

Það er okkur sannarlega mikið gleðiefni að flytja nýjustu tíðindi af stöðu náms í fjallamennsku í FAS.  Næsta vetur mun námið verða í boði með svipuðu sniði og undanfarin ár. Það ár mun verða notað til að finna náminu farveg til framtíðar. Við höfum verið í erfiðum...

Á leið til Noregs

Á leið til Noregs

Við höfum áður sagt frá nemendaskiptaverkefni sem fjallar um náttúrulegar auðlindir og nýtingu þeirra en það verkefni hófst síðastliðið haust. Þetta er tveggja ára verkefni undir merkjum Nordplus og þátttökulöndin eru Finnland, Noregur og Ísland. Í verkefninu er gert...