Hæfniferð FAS er ígildi lokaprófs en þar fá nemendur tækifæri til að sýna fram á þá hæfni og þekkingu sem þeir hafa öðlast í gegnum skólagönguna. Lagt er upp með í áfanganum að nemendur takist á við fjölbreytt og flókið landslag, hvort sem það er utan hefðbundinna gönguleiða eða upp á hájökli. Leiðbeinendur í þessum áfanga eru í aftursætinu og til ráðgjafar en nemendur stýra ferðinni og skiptast á að leiðsegja hópnum.
Veðurspáin var ekki upp á sitt besta fyrir fyrri hæfniferð en í byrjun ferðar rigndi mikið. Á meðan beðið var eftir veðurglugga til að hefja upphaf ferðar var samið við kajakfyrirtækið Iceguide um að leigja báta og búnað og róa um Heinabergslón en þetta bauð nemendum upp á aðra sýn inn í þá fjölbreyttu möguleika sem ferðaþjónustan býr að á svæðinu.
Næst var förinni heitið milli Skaftafells og Núpsstaðaskógar, yfir Skeiðarárjökul. Það er tilkomumikil ganga sem oft er gengin á þremur eða fjórum dögum. Hópurinn fór hratt yfir og kláraði gönguna á tveimur og hálfum degi. Aðra nóttina gistu þau í Skaftafellsfjöllum í um 700 metra hæð og hina á heiðinni norðan Súlutinda þar sem komið er í land af jöklinum. Hópurinn tók eftir það einn hvíldardag og skipulagði ferð á Þverártindsegg daginn eftir sem lá um Kálfafellsdal. Á hvíldardeginum var æfður böruburður með léttri línuaðstoð en oft á tíðum eru það leiðsögumenn sem eru fyrstir á staðinn þegar slys verða í fjalllendi og því nauðsynlegt að kunna réttu handtökin.
Í seinni hæfniferð var spáin allslæm á sunnanverðu landinu. Því var brugðið á það ráð að skipuleggja göngu um Víknaslóðir þar sem besta veðrinu var spáð. Gengið var á þremur dögum frá Borgarfirði eystri og suður á Seyðisfjörð með gistingu í skálum Breiðuvíkur og Loðmundarfjarðar. Við viljum þakka fyrir frábærar móttökur hjá Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs sem tók höfðinglega á móti nemendum og kennurum og við erum viss um að þarna kemur FAS aftur. Það var gaman að enda árið í veglegum skálum í óbyggðum enda frábær ferðamáti sem gerir fólki kleyft að ganga lengra með léttari poka, svo ekki sé minnst á samveruna sem er hvergi betri en utan símasambands í fögrum dal og góðum skála.
Í lok ferðar var ætlunin að ganga á Snæfell en vegna veðurs var ákveðið að ganga á hinn formfagra Búlandstind í Berufirði. Frábær tindur sem bauð upp á brölt og skemmtilegt leiðarval í brattlendi. Einnig fór hópurinn saman á Óbyggðasetrið á glæsilega sýningu um sögu óbyggða- og fjallaferða í gegnum aldirnar. Þetta var því ekki bara fjalla- og hæfniferð heldur einnig nokkurs konar menningarferð þar sem nemendur lærðu sitthvað nýtt um sögu fjallaferða hér á landi.
Ferðirnar tvær voru ólíkar að flestu leyti en gengu þó báðar stórvel, spiluðu með veðri og stóðu nemendur sig með stakri prýði.
Kennarar í áfanganum voru: Tómas Eldjárn Vilhjálmsson, Elín Lóa Baldursdóttir, Erla Guðný Helgadóttir og Árni Stefán Haldorsen.