Vetrarferð fjallamennskunemenda

21.mar.2023

Fjallamennskunemendur FAS fóru í vetrarferð 24. – 28. febrúar og 9. – 13. mars en hópnum var skipt í tvennt. Örlítil áherslubreyting hefur orðið á áfanganum síðan hann var kenndur síðast en meginmarkmið hans nú er að undirbúa nemendur til að hugsa um sig sjálf í vetraraðstæðum, rötun og kynning á grunn-tækniatriðum svo sem snjóakkerum, ísaxarbremsu, hvernig má komast framhjá hnút hangandi í línu og að ganga í línu til að varna falli í sprungu. Ferðirnar voru skipulagðar út frá fjalllendi nálægt höfuðborginni og fyrri ferðin var haldin þar. Seinni ferðin var færð norður á Tröllaskaga þar sem betri aðstæður voru til að kenna áfangann þennan veturinn.  Ferðirnar voru því nokkuð ólíkar en nemendur beggja ferða fengu að takast á við að halda á sér hita með réttum klæðaburði og góðum gönguhraða, prófa búnaðinn sinn og læra ný tæknileg atriði og línuvinnu.  

Fyrri hópurinn mætti til Reykjavíkur þar sem farið var á Hengil og í Bláfjöll. Veðrið var með hinu versta móti en lægðarbylgjur komu hver á eftir annarri yfir landið. Þrátt fyrir vonskuveður náðu nemendurnir að nýta skilin milli skúra og æfa réttu handtökin í vetrarfjallamennsku. Afnot fékkst af húsnæði FBSR til að læra og æfa tæknilega kunnáttu í línuvinnu. Þar æfðu þau sig m.a. í að binda sig og félaga sína inn í línu og að komast yfir hnút á línunni í þeim ímynduðu aðstæðum að þau hefðu sjálf fallið ofan í sprungu og þyrftu að komast upp úr henni. Tjaldbúðir voru settar upp í Drottningargili Bláfjalla þegar leið undir lok ferðar en þar gafst nemendum færi á kynnast hvernig lífið getur verið í alvöru vosbúð og hversu mikilvægt það getur verið að halda hlutunum þurrum. Heilt yfir gekk áfanginn vel og náðust flest námsmarkmiðin. 

Seinni hópurinn mætti á Dalvík og fékk að nýta sér aðstöðu 600 Klifurs á Hjalteyri þar sem þau æfðu sömu línuvinnu og fyrri hópurinn. Daginn eftir var haldið á Heljardalsheiði upp úr Svarfaðardal þar sem hópurinn tjaldaði við Heljuskála í tvær nætur. Mjög kalt var um þessa helgi á landinu öllu og fór frostið niður í um 20 stig þar sem hópurinn hafði tjaldbúðir. Þessi mikli kuldi var ástæða þess að ákveðið var að tjalda við skálann svo hægt væri að nýta hann sem öryggisnet fyrir nemendur. Eftir þrjá daga á fjöllum hélt hópurinn heim eftir að hafa æft hin ýmsu atriði og fínpússað kerfin sín t.d. til að halda á sér hita á nóttunni og bræða snjó til eldamennsku og drykkjarvatns. Hópurinn stóð sig með eindæmum vel og tókst á við áskorunina sem kuldinn veitti þessa vikuna.  

Leiðbeinendur í vetrarferðunum voru; Ívar F. Finnbogason, Michael Walker, Svanhvít H. Jóhannsdóttir og Tómas E. Vilhjálmsson. Höfundar greinar; Svanhvít H. Jóhannsdóttir og Tómas E. Vilhjálmsson. 

Aðrar fréttir

Hájöklaferð í fjallanáminu

Hájöklaferð í fjallanáminu

Þann 21. apríl lagði grunnnámshópur fjallanámsins af stað í leiðangur upp á Hrútsfjallstinda. Nemendur voru fimmtán talsins auk þriggja kennara  og var veðurspá með besta móti og stóð til að gista upp frá í þrjár nætur. Það þýddi að bakpokar voru þungir en samt sem...

Umhverfisdagur Nýheima

Umhverfisdagur Nýheima

Það er vel við hæfi á síðasta degi vetrar að taka til hendinni og hreinsa og tína drasl sem hefur fallið til í vetur. Eins og svo oft áður efndu íbúar Nýheima til hreinsunardags þar sem allir sem geta leggja hönd á plóg. Það er búið að tína rusl, sópa, hreinsa á milli...

Fjallanámið áfram í FAS

Fjallanámið áfram í FAS

Það er okkur sannarlega mikið gleðiefni að flytja nýjustu tíðindi af stöðu náms í fjallamennsku í FAS.  Næsta vetur mun námið verða í boði með svipuðu sniði og undanfarin ár. Það ár mun verða notað til að finna náminu farveg til framtíðar. Við höfum verið í erfiðum...