Í dag undirrituðu Steinunn Hödd Harðardóttir þjóðgarðsvörður á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs og Lind Völundardóttir skólameistari FAS yfirlýsingu um samstarf. Með viljayfirlýsingunni er ætlunin að efla samstarf og sýnileika á milli stofnananna í samfélaginu og styðja við sí- og endurmenntun landvarða þjóðgarðsins. Samstarfið mun annars vegar felast í auknu svigrúmi fyrir starfsfólk þjóðgarðsins til að taka áfanga í fjallamennskunámi FAS og hins vegar að FAS nýti þekkingu starfsfólks hjá þjóðgarðinum inn í nám í landvörslu í kennslu og fræðslu bæði fyrir nemendur og kennara.
Bæði þjóðgarðurinn og FAS hafa mörg sameiginleg markmið. Samstarfinu er ætlað að greiða aðgang að þeim. Þar má nefna umhverfis- og náttúruvernd í ferðamennsku, fræðslu og uppbyggingu þjóðgarðsins og tengsl landvarða og starfsmanna í ferðaþjónustu.
Við erum mjög ánægð með þessa viljayfirlýsingu sem mun án efa efla báðar stofnanirnar. Vonast er til að hægt verði að bjóða upp á námið í landvörslu strax í haust.