Dagurinn 8. nóvember er helgaður baráttunni gegn einelti í samfélaginu. Af því tilefni var efnt til uppbrots í FAS og sýndur var stuttur TED fyrirlestur um áhrif þess að slúðra. Eftir að hafa horft á myndina talaði Fríður námsráðgjafi aðeins um það hvað slúður sé og hvaða afleiðingar slúður geti haft. En það hefur komið fram í könnunum að margir telja slúður mikinn löst í okkar samfélagi.
Því er mikilvægt að allir taki höndum saman og vandi sig í öllum samskiptum, þar á meðal að hætta að slúðra um náungann. Af því tilefni hefur verið hengt upp stórt plaggat á Nýtorgi. Með undirskrift á plaggatið staðfestir viðkomandi að hann ætli að hætta að slúðra það sem eftir lifir af þessari önn. Við hvetjum alla íbúa Nýheima til að leggja sitt af mörkum og undirskrifa sáttmálann.