Útskrift frá FAS á morgun

Á morgun laugardaginn 23. maí verður útskrift frá FAS. Vegna takmarkana á því hversu margir mega koma saman verður útskrifað í tveimur hópum. Hvert útskriftarefni má hafa með sér að hámarki þrjá gesti og mun þeim verða raðað í sæti. Það verður streymt frá útskriftinni fyrir þá sem vilja fylgjast með og er slóðin https://www.youtube.com/watch?v=8xlbYZYjV3o

Klukkan 13:00 verða nemendur útskrifaðir af framhaldsskólabraut, A stigi vélstjórnar, sjúkraliðabraut og úr fjallamennskunámi.

Klukkan 14:00 verður svo útskrift nýstúdenta.

Breytt fyrirkomulag á útskrift í FAS

Það styttist í það sem margir telja hápunkt skólastarfsins á hverju ári sem er útskrift. Að þessu sinni verður útskrift frá FAS laugardaginn 23. maí.

Vegna COVID-19 eru takmörk á því hversu margir mega koma saman hverju sinni og miðast skipulag útskriftar við það. Þess vegna hefur verið ákveðið að útskrift verði í tveimur hópum og mega þeir einir koma sem hafa fengið um það boð. Hvert útskriftarefni má taka með sér að hámarki þrjá gesti og munu þeir sitja saman við merkt borð á Nýtorgi.

Klukkan 13 verður útskrift hjá nemendum sem hafa stundað nám í vélstjórn og fjallamennsku. Á þeim tíma útskrifast líka sjúkraliðar og þeir sem ljúka framhaldsskólaprófi.

Klukkan 14 er svo komið að útskrift stúdenta. Við biðjum fólk um að sýna þessum óvenjulegu aðstæðum skilning en fyrir þá sem vilja fylgjast með er ætlunin að senda út frá athöfninni og munum við birta slóðina þegar nær dregur.

Gamla Sindrahúsið vekur athygli

Við sögðum frá því í síðustu viku að margir nemendur okkar hefðu komið að því að gæða gamla Sindrahúsið lífi áður en það verður rifið. Það var fyrst og fremst gert til að gefa nemendum tækifæri til að fást við eitthvað skapandi og njóta um leið útiveru á meðan að skólahald var takmarkað vegna COVID-19.

Þetta verkefni hefur víða vakið athygli og í síðustu viku mátti sjá umfjöllun um verkefnið á heimasíðu Ungmennafélags Íslands. Einnig er hægt að sjá nánar um verkefnið á instagramsíðu skólans og síðasta daginn sem unnið var verkefninu var þetta myndband tekið.

Aftur líf á Nýtorgi

Það var ánægjulegt að sjá aftur nemendur og starfsfólk á vappi í FAS í morgun en frá og með 4. maí taka gildi reglur um rýmkun á samkomubanni. Nú er leyfilegt að koma aftur í skólann en þó þarf að uppfylla skilyrði um að fjarlægð á milli einstaklinga sé a.m.k. tveir metrar. Það er misjafnt eftir áföngum í FAS hvenær nemendur koma aftur eða í hvaða tíma en allir eiga að hafa fengið upplýsingar þar að lútandi frá sínum kennurum.
Hún Hafdís okkar var mætt í veitingasöluna í morgun og menn voru ánægðir með að geta fengið sér að borða. Að sjálfsögðu var passað upp á að allir myndu virða tveggja metra fjarlægðamörkin.

Listsköpun á gamla Sindrahúsinu

Við sögðum frá því í síðustu viku að skólinn hefði fengið leyfi til að nota gamla Sindrahúsið fyrir listsköpun. Einhverjum nemendum hafði dottið í hug að það gæti verið áhugavert að reyna að gera eitthvað nýtt og krefjandi á tímum takmörkunar á skólahaldi. Gengið var í það að útfæra hugmyndina þannig að öllum reglum um samneyti og sóttvörnum væri fylgt og var öllum nemendum boðið að koma og taka þátt. Þema verkefnisins er vorið.

Í síðustu og þessari viku hafa allmargir nemendur komið og lagt sitt af mörkum til að gæða þessar síðustu stundir hússins lífi en ætlunin er að rífa húsið eftir næstu mánaðarmót. Nú þegar er hægt að sjá afrakstur af vinnu nemenda á tveimur útveggjum en nemendur á lista- og menningarsviði hafa séð um að skapa listaverk innan veggja. Á morgun er síðasti dagurinn til að vinna að verkefnunum og hvetjum við þá nemendur sem vilja til að koma milli 14 og 16 og taka þátt.

Framgangur verksins hefur verið settur á instagramsíðu skólans. Þar munu verkin lifa þó húsið heyri brátt sögunni til.

Skólinn opnar aftur 4. maí

Nú hillir undir að beytingar verði á skólastarfi og hægt verði að mæta í skólann á ný. Í gær birti Stjórnarráð Íslands auglýsingu um afléttingu takmarkana á skólastarfi frá og með 4. maí næstkomandi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þá verður nemendum í framhaldsskólum heimilt að að mæta í skólann en það verður að gæta þess að ekki verði fleiri en 50  í sama rými og að tveggja metra nándarreglan verði virt.

Í FAS höfum við ákveðið að kennsla færist aftur inn í skólann og það verði tímar í flestum greinum dagana 4. – 11. maí en þá er síðasti kennsludagur annarinnar. Kennarar í hverri grein munu útfæra fyrirkomulagið nánar í næstu viku og koma upplýsingum til nemenda sinna. Þá hefur verið ákveðið að staðnemendur mæti í lokamatsviðtöl í skólanum ef mögulegt er.

Við höfum fundið fyrir því að fyrirkomulag á skólastarfi síðustu vikna hefur reynt á marga. Því datt okkur í hug að gott gæti verið að hvíla námið um stund og drífa sig út og fást við eitthvað allt annað. Eins og margir vita á að rífa gamla Sindrahúsið við hliðina á Ráðhúsinu og núna standa einungis útveggir eftir. Við fengum leyfi til að nota húsið fyrir listsköpun áður en það hverfur endanlega sjónum. Ákveðið hefur verið að þema verkefnisins verði vorið og kennarar hafa útfært hvernig staðið skuli að vinnunni. Allir nemendur munu í dag fá póst þar að lútandi og við hvetjum alla að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni.