Forval fyrir Gettu betur

Gettu betur forval.

FAS hefur mjög oft tekið þátt í spurningakeppninni Gettu betur og margir nemendur hafa skipað lið FAS í gegnum tíðina.

Síðustu daga hefur Málfundafélag FAS hugað að því að finna nemendur til að skipa lið næsta árs. Krakkarnir höfðu samband við Sigurð Óskar Jónsson fyrrverandi nemanda og liðsmann Gettu betur fyrir FAS en hann útskrifaðist árið 2006. Hann tók erindinu vel og samdi nokkrar spurningar fyrir nemendur til að spreyta sig á. Mikill áhugi var fyrir Gettu betur prófinu í FAS og mætti 21 nemandi til að reyna sig við spurningarnar.

Við ættum því að vita fljótlega hverjir skipa Gettu betur lið FAS og verður spennandi að sjá hverjir verða þar.

Nemendaþing í Nýheimum

Fimmtudaginn 24. október stóð Ungmennaráð Hornafjarðar fyrir ungmennaþingi í Nýheimum. Ráðið naut aðstoðar frá nemendaráði FAS. Þinggestir voru að stærstum hluta nemendur í 8. – 10. bekk grunnskólans og nemendur FAS og var kennsla í skólunum felld niður eftir hádegi vegna þingsins.

Sigríður Þórunn sem er formaður ungmennaráðs setti þingið og kynnti dagskrána en megin þunginn að þessu sinni var lagður á málstofur þar sem fór fram fræðsla, hugmyndavinna og hópefli. Þingið tókst einkar vel og var gaman að sjá þessa hópa vinna saman í leik og starfi þó aldursbilið sé orðið töluvert.

Þetta er í þriðja árið í röð sem ungmennaráð stendur fyrir ungmennaþingi. Þetta eru mikilvægar samkomur þar sem unga fólkið hefur tækifæri til að láta í ljós skoðanir sínar og hafa um leið áhrif á ýmis málefni sem skipta máli.

Þinginu lauk með pizzuveislu og á næstunni mun ungmennaráð vinna úr þeim hugmyndum sem komu fram.

[modula id=“9794″]

Ipad námskeið í Ekru

Á dögunum hafði Haukur Þorvaldsson samband við forráðamenn nemendafélagsins með fyrirspurn um hvort einhverjir í FAS hefðu áhuga á því að koma í Ekru og vera með kennslu á Ipad og önnur snjalltæki. Nemendaráði fannst þetta ljómandi góð hugmynd og hafist var handa við að leita að hentugum dagsetningum.

Í gær, mánudag var komið að fyrsta tímanum og mættu tíu eldri borgarar í Ekru. Frá FAS fóru að þessu sinni þær Eydís Arna, Ingunn Ósk og Íris Mist. Þær eru allar í nemendaráði og ráðið ákvað að hafa umsjón með námskeiðinu. Kunnátta þátttakenda er mjög mismunandi. Sumir kunna mikið á meðan aðrir eru að stíga fyrstu skrefin. Stelpurnar ákváðu að ganga á milli borða og aðstoða hvern einn og einn með þau atriði sem átti að ná tökum á.

Þetta var fyrsti tíminn af sex þar sem nemendur úr FAS koma til að leiðbeina þeim sem þurfa á að halda. Stelpunum fannst það bæði skemmtilegt og gefandi að eiga stund með eldri borgurum. Þetta er sjálfboðastarf hjá nemendum FAS og frábært að sjá kynslóðirnar tengjast á þennan hátt. Næsti tími í Ekru verður á miðvikudag 23. október klukkan 16:15 og þeir sem vilja koma á námskeiðið geta haft samband við Hauk.

[modula id=“9793″]

Erasmus+ dagar

Frá Erasmus+ ráðstefnunni 11. október.

Þann 11. október síðastliðinn stóð Rannís fyrir ráðstefnu í Menntaskólanum í Kópavogi þar sem yfirskriftin var jöfn tækifæri í Erasmus+. En í  Erasmus+ er hægt að sækja um styrki til að vinna að alls kyns verkefnum. Öll skólastig geta sótt um styrki til Erasmus+. Að auki styrkir Erasmus+ starfsmenntun og fullorðinsfræðslu annars vegar og æskulýðsmál hins vegar. Að lokinni setningu var ráðstefnugestum skipt í vinnustofur þar sem reynslu af verkefnum var miðlað og rætt um ávinning af því að taka þátt í alþjóðlegum verkefnum.

FAS var boðið að senda þátttakendur á ráðstefnuna en skólinn hefur á undanförnum árum tekið þátt í fjölmörgum verkefnum sem hafa verið styrkt frá Erasmus+. Fulltrúar af FAS tóku þátt í tveimur málstofum. Annars vegar í málstofu fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla þar sem sérstök áhersla var lögð á skóla á landsbyggðinni sem eru langt í burtu frá alþjóðaflugvelli. Þar var bæði fjallað þau vandamál sem verkefnastjórar úti á landi standa frammi fyrir og eins hve mikla þýðingu það getur haft fyrir skóla á þessum stöðum að taka þátt í alþjóðlegum verkefnum.

Hins vegar tók FAS þátt í málstofu um starfsmenntun þar sem áherslan var á starfsþjálfun nemenda í  starfs- og iðngreinum hjá fyrirtækjum og skólum í viðtökulöndunum. Sérstaklega var fjallað um leiðir til að hvetja og styrkja nemendur sem tilheyra minnihlutahópum s.s. innflytjendur, nemendur með námsörðugleika eða fatlanir. ADVENT verkefnið sem er í gangi núna í FAS er einmitt gott dæmi um samstarfsverkefni á sviði starfsmenntunar.

Það er frábært að hafa aðgang Erasmus+ styrkjunum. Það að taka þátt í alþjóðlegum verkefnum skapar ný tækifæri til að auðga skólastarfið og víkkar um leið sjóndeildarhring og reynsluheim allra þátttakenda.

 

 

Í útvarpsviðtali hjá BBC

Ingunn, Íris og Vigdís í viðtali hjá BBC 4.

Í gær komu til okkar í FAS þau Maria Margaronis og Richard Fenton Smith. Þau vinna hjá BBC Radio í London og eru að vinna að dagskrá um breytingar á jöklum og loftslagsbreytingar. Þeim finnst mikilvægt að koma á svæði þar sem miklar breytingar eru á jöklum og langar til að vita hvernig það er að lifa í nánd við jökla. Einnig að heyra um hvort og þá hvernig fólk upplifir breytingar og hvort það hafi áhrif á líf fólks. Þau höfðu heyrt af því að í FAS færu nemendur að mæla jökla og vildu sérstaklega ræða við nemendur um þá reynslu.

Þrír nemendur í jarðfræði voru tilbúnir til að ræða við útvarpsfólkið og deila reynslu sinni af jöklamælingum. Auk þess að ræða um jökla var spjallað vítt og breytt. Til dæmis um líf ungs fólks á landsbyggðinni og þjóðsögur. Þau Maria og Richard voru mjög ánægð með viðmælendur sína í FAS og töluðu sérstaklega um góða enskukunnáttu og það væri greinilegt að krakkarnir væru í góðum tengslum við umhverfi sitt og skynjuðu mikilvægi þess að fara vel með náttúruna.

Maria og Richard munu í dag ræða við nokkra aðila í sveitarfélaginu en fara þegar líður á vikuna aftur heim og undirbúa útvarpsþáttinn sem væntanlega fer í loftið seinni partinn í nóvember eða byrjun desember. Auk þess að senda þáttinn út á BBC 4 verður þátturinn líka aðgengilegur á BBC World Service og verður þar með aðgengilegur utan Bretlands.

Námskeið í þverun straumvatna

Þann 9. október síðastliðinn hófst seinni hluti námskeiðisins gönguferðir. Sá dagur fór í undirbúning fyrir tveggja daga gönguferð sem hófst 10. október. Morguninn fór í kortalestur og kynningu á GPS tækjum. Farið var yfir hvernig slík tæki virka og hvað beri að hafa í huga við notkun þeirra. Eftir hádegi var svo nýtt námsefni kynnt fyrir hópnum í þverun straumvatna. Nemendur fengu fyrirlestur um þverun straumvatna og hvernig sé best að bera sig að í aðstæðum þar sem þvera þarf straumvötn. Um klukkan 14:00 var svo lagt af stað úr skólanum til að finna hentuga á til að æfa þvera. Nemendur fengu búnað að láni hjá Ice Guide og þökkum við þeim mikið vel fyrir það. Allir nemendur voru í þurrgöllum, neoprene skóm og í björgunarvesti.

Farið var í Laxá í Nesjum. Mikið hafði rignt dagana á undan en áin hafði sjatnað nóg til að hægt væri að æfa þverun straumvatna. Farið var yfir hvernig skuli bera sig að við að velja vað og hvað þurfi að hafa í huga við valið. Ýmsar leiðir voru æfðar til að þvera vatnið á sem öruggastan hátt. Þá æfðu nemendur sig bæði sem hópur og einnig einir. Einnig var æft hvernig á að fara í svokallaða flotstöðu ef ske kynni að einhver félli í vatnið og hvernig ætti að koma sér aftur á bakkann á sem öruggastan hátt. Ásamt því fengu nemendur að prófa sig áfram með svokallaðar kastlínur til að geta bjargað öðrum úr ánni ef til þess kæmi. Dagurinn var mjög skemmtilegur og fengu nemendur að vaða og synda allnokkrar ferðir niður Laxána. Það var mikið fjör og mikið gaman þrátt fyrir kalt vatnið, en við vorum heppin með veður og fengum við fallegt veður meðan á æfingunum stóð.

Fimmtudaginn mættu nemendur svo í skólann tilbúnir í göngu. Fyrstu stundir morgunsins voru þó nýttar til að ljúka að fara yfir og gera leiðarkort fyrir fyrirhugaða ferð. Síðan var lagt af stað frá skólanum og keyrðu nokkrir kennarar okkur uppí Lón nánar tiltekið að mynni Össurárdals en það hafði verið ákveðið að ganga í kringum Reyðarárfjall. Gangan hófst um klukkan 12:00 og var gengið inn dalinn í botn Össurárdals. Á leiðinni var æfð notkun GPS, korts og áttavita. Einnig þurftum við að þvera Össurá sem var nokkuð vatnsmikil eftir vatnsverður undanfarinna daga. Innst í dalnum var tjaldað á fallegum stað með útsýni yfir fagra fossa á svæðinu. Ákveðið var að tjalda í fyrra fallinu vegna þess að spáð var mikilli rigningu og roki þegar líða tók á kvöldið. Drengirnir báru einnig með sér eldivið og kveiktu lítið bál áður en rigningin hófst, það voru meira að segja grillaðir sykurpúðar. Um nóttina var svo mjög mikil rigning og gekk á með nokkuð hressilegum kviðum annað slagið. Því var mismikið sofið og vöknuðu sumir í polli, ef þeir gátu þá sofið á annað borð.

Þrátt fyrir ofsaveðrið og hamaganginn voru allir hressir á föstudeginum, en þá áttum við um 6 kílómetra göngu eftir til byggða. Gengið var þá niður Reyðarárdalinn og var lagt uppúr notkun GPS tæksins og áttavitans enn og aftur. Upp úr hádegi fór sólin loks að skína og gat hlýjað okkur eftir nokkuð kalda og blauta nótt og morgun. Komið var til byggða um klukkan 13:00 þar sem að kennarar biðu eftir okkur og skutluðu okkur aftur í FAS.

Námskeiðið var mjög skemmtilegt og lærdómsríkt en þverun straumvatna stóð þar hæst að mati nemenda. Kennari á námskeiðinu var Sólveig Sveinbjörnsdóttir.

[modula id=“9792″]