Heilsuuppbrot í FAS

Fríður Hilda og Ragnheiður á Nýtorgi.

Í dag var komið að fyrsta uppbroti annarinnar og fjallaði það um heilsu og vellíðan. Nokkur atriði voru á dagskrá.
Fyrst kynnti Fríður Hilda starf sitt en hún hóf starf sem námsráðgjafi nú um áramótin.
Því næst kom Ragnheiður skólahjúkrunarfræðingur og fjallaði um hvað hver og einn geti gert til að honum líði sem best og nái sem bestum árangri í leik og starfi. Þar skiptir miklu máli að huga vel að mataræði, hreyfingu og rækta tengsl við fjölskyldu og vini. Mestu máli skiptir þó að gæta þess að sofa nægilega. Ragnheiður fjallaði einnig um hvað sé hægt að gera til að bæta andlega líðan og hvernig þekkja megi einkenni ef leita þarf eftir stuðningi til að bæta heilsuna. Jafnframt hvatti hún alla til að reyna að minnka skjánotkun og setja sjálfum sér bæði markmið og mörk.
Við hér í FAS eru afskaplega ánægð að hafa þær Ragnheiði og Hildi starfandi við skólann og að nemendur geti leitað til þeirra.
Í lokin sýndi Zophonías innslag úr fréttum þar sem var verið að segja frá kvíða og vanlíðan nemenda í MS og ástæðum fyrir þeirri líðan. Í lok uppbrotsins ræddu nemendur saman í hópum hvað þeir geti gert til að bæta líðan.

Taka þátt í listasmiðju í Tallin

Tallin í Eistlandi
Tallin í Eistlandi

Á árunum 2016 – 2018 tók FAS þátt í Erasmus+ verkefni ásamt skólum frá Grikklandi, Ítalíu, Eistlandi og Lettlandi. Það verkefni fjallaði um hvernig eigi að stofna og reka fyrirtæki. Þegar allir þátttakendur hittust á Íslandi var ákveðið að halda áfram að vinna saman en nú að menningartengdri ferðaþjónustu. Ný umsókn var skrifuð og er búið að samþykkja hana.
Nýja verkefnið ber heitið CultHerStud sem við köllum á íslensku menningartengd ferðaþjónusta. Það eru sömu skólar sem taka þátt í verkefninu. Í hverju landi er haldin einnar viku smiðja þar sem nemendur hittast og vinna saman. Í hverja smiðju fara fjórir nemendur frá hverju þátttökulandi.
Fyrsta smiðjan verður haldin í næstu viku í Tallin í Eistlandi. Frá FAS fara fjórir nemendur og tveir kennarar. Það verður spennandi að heyra meira af þessu verkefni og ferðunum.
Smiðja íslenska hópsins verður hér á Höfn í september á þessu ári.


ADVENT á Íslandi

Íshellir í Vatnajökli.

Við höfum áður sagt frá því hér á síðu FAS að skólinn er þátttakandi í þriggja landa Erasmus+ verkefni sem kallað er ADVENT og er skammstöfun fyrir hið eiginlega heiti þess sem á ensku er Adventure toursim in vocational education and training. Verkefnið er menntaverkefni og auk FAS taka þátt Ríki Vatnajökuls, Rannsóknarsetur Hí og skólar, rannsóknarstofnanir og ferðaþjónustuklasar í Skotlandi og Finnlandi.

Nú þegar hafa tvö útivistar- og ævintýraferðamennskunámskeið fyrir aðila í ferðaþjónustu og nemendur á því sviði verið prufukeyrð, það fyrra í Skotlandi og hið seinna í Finnlandi. Nú er komið að þriðja námskeiðinu af níu og verður það haldið í Öræfunum og verður kennslustofan okkar stórkostlegi Vatnajökull og nágrenni hans. Ekki amalegt það!

Námskeiðið fjallar um jöklaferðir og íshella og ber á ensku heitið Ice adventure – Planning and skills. Námskeiðið hefst mánudaginn 21. janúar og stendur í fimm daga. Fyrsti og síðasti dagurinn eru ferðadagar fyrir þátttakendurna sem koma að utan og frá Reykjavík og til baka, en þátttakendur héðan af svæðinu hefja námskeiðið á þriðjudeginum og taka því þátt í þrjá daga. Dagarnir þrír verða notaðir til margvíslegrar kynningar og þjálfunar í jöklamennsku.

Kennarar á námskeiðinu eru Einar Rúnar Sigurðsson, Sigurður Ragnarsson og Eyjólfur Guðmundsson.

Næsta námskeið í ADVENT verkefninu verður haldið í Skotlandi í mars og þá stendur til að prufukeyra námskeið um leiðsögn og túlkun á vettvangi og hvernig veita má gæðaþjónustu til ferðamanna, námskeiðið heitir á ensku Guiding and Interpretation – Quality Service.

Nánar má lesa um ADVENT verkefnið á www.adventureedu.eu

Á leið til Cambridge

Olíufurstarnir í FAS.

Þessir strákar hafa svo sannarlega ástæðu til að vera kampakátir á svipinn því þeir gerðu sér lítið fyrir og unnu keppnina í olíuleitinni sem fram fór í síðustu viku.
Þeir eru því á leiðinni til þess að taka þátt í lokakeppni PetroChallenge sem verður haldin í Cambridge þann 25. janúar næstkomandi. Að sjálfsögðu munum við fylgjast með því hvernig okkar mönnum gengur þar.
Eins og undanfarin ár er það Orkustofnun sem styrkir þátttöku Íslands í olíuleitinni.

Leitað að olíu í FAS

Enn á ný tekur FAS þátt í að leita að olíu en skólinn hefur tekið árlega þátt frá árinu 2003. Leikurinn er spilaður á netinu og snýst um að skoða jarðlög til að leita að olíu. Þessi leikur hefur verið lengi notaður til að fræða fólk um hvað olíuiðnaðurinn snýst. Einnig þurfa liðin að huga að því að ná olíunni upp á sem hagkvæmastan hátt.
Það eru tveir skólar sem taka þátt í leiknum í dag, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum og FAS. Hér í FAS eru tvö lið, eitt strákalið og eitt stelpulið. Það lið sem vinnur keppnina í dag fær að taka þátt í lokakeppninni sem fer fram í Cambridge 25. janúar næstkomandi. Eins og undanfarin ár er það Orkustofnun sem styrkir leikinn.
Við óskum liðum okkar góðs gengis og vonum að allt gangi sem best.

FAS keppir í Gettu betur í kvöld

Gettu betur lið FAS.

Skólastarf vorannar hefst gjarnan á undankeppni í Gettu betur og að sjálfsögðu er FAS þar með. Að þessu sinni taka 28 skólar þátt og verður fyrsta umferð í þessari viku.
Þegar lið voru dregin saman kom í ljós að andstæðingar FAS verða úr Kvennó. Lið FAS er skipað þeim Ingunni Ósk, Júlíusi Aroni og Oddleifi. Það er fyrrum Gettu betur keppandi, Aðalsteinn Gunnarsson sem hefur séð um að þjálfa liðið.
Viðureignin hefst klukkan 20:30 í kvöld og er hægt að hlusta á keppnina á Rás2. Það verður líka hægt að koma í fyrirlestrasal Nýheima og fylgjast með krökkunum keppa. Þeir sem ætla að gera það þurfa að vera komnir í FAS klukkan 20.
Að sjálfsögðu óskum við liði okkar góðs gengis í kvöld og hvetjum sem flesta til að mæta eða þá að stilla á Rás 2.