Leiklist í FAS

Í gær fimmtudaginn 9. janúar var haldinn kynningarfundur vegna uppsetningar á leikverki á vorönn.  Líkt og undanfarin ár vinnur skólinn með Leikfélagi Hornafjarðar að uppsetningunni.  Blái hnötturinn eftir Andra Snæ Magnason er viðfangsefnið og leikstjóri er Þröstur Guðbjartsson.  Í texta um Bláa hnöttinn segir:

Á bláum hnetti lengst úti í geimnum búa ótal börn sem fullorðnast ekki. Þetta eru eiginlega villibörn því enginn skipar þeim fyrir verkum. Börnin sofna þar sem þau verða þreytt og borða þegar þau eru svöng en leika sér þar sem þeim dettur í hug. Eitt kvöldið þegar Brimir og Hulda eru stödd í Svörtufjöru birtist stjarna á himni sem stefnir beint á þau! Stjarnan lendir í fjörunni með mikilli sprengingu en í reyknum mótar fyrir skuggalegri veru sem starir út í myrkrið. Þá hefst hættulegt ævintýri sem leiðir börnin um myrka skóga, djúpa dali og loftin blá. Reynir þá sem aldrei fyrr á vináttu og ráðsnilld barnanna á bláa hnettinum.

Æfingar hefjast mánudaginn 20. janúar og áætluð frumsýning er í lok mars í Mánagarði.  Uppsetningin er hluti af námi á lista- og menningarsviði í FAS og koma allir kennarar sviðsins að henni.  Þátttaka í verkefninu er þó einnig opin fyrir aðra eins og verið hefur.

Gettu Betur – Sigur

– Uppfært : FAS hafði betur gegn Framhaldsskólanum á Húsavík 19-9 og eru kominn áfram í næstu umferð.

Líkt og undanfarin ár tekur Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu þátt í Gettu Betur. Liðið að þessu sinni skipa þau Björgvin Freyr Larsson, Ingunn Ósk Grétarsdóttir og Oddleifur Eiríksson en þjálfari liðsins er Sigurður Óskar Jónsson, fyrrum nemandi í FAS og þátttakandi í Gettu Betur. Síðustu mánuði hafa farið fram stífar æfingar hjá liðinu en varamenn hafa einnig tekið þátt í þeim.

Í kvöld, 6. janúar, mun fyrsta viðureign keppninnar fara fram en Framhaldsskóli Austur-Skaftafellssýslu keppir á móti Framhaldsskólanum á Húsavík klukkan 20:30. Keppninni verður ekki útvarpað en hægt er að nálgast hana á vefnum ef smellt er á meðfylgjandi hlekk. Við sendum liðinu góða strauma með von um gott gengi.

https://www.ruv.is/null

Jólafrí og upphaf vorannar

Heinabergsjökull.

Heinabergsjökull.

Nú er starfi haustannar lokið og allar einkunnir eiga að vera komnar í INNU. Þá eru líka allir komnir í jólafrí. Líklega verða flestir kátir með að geta tekið því aðeins rólegar eftir annir síðustu vikna.

Skólastarf vorannar hefst mánudaginn 6. janúar en þá verður skólinn settur klukkan 10. Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá 7. janúar.

Starfsfólk FAS sendir nemendum sínum sem og landsmönnum öllum bestu óskir um gleðilega jól og vonar að nýtt ár verði öllum gott og farsælt.

FAS býður í jólamat

Það var margt um manninn í hádeginu í dag á Nýtorgi því FAS bauð nemendum, foreldrum og starfsfólki í Nýheimum í jólaveislu. Í fyrra var boðið í jólamat í fyrsta sinn í FAS og það tókst svo vel að það var ákveðið að endurtaka leikinn. Það var hún Hafdís okkar sem sér um veitingasöluna sem tilreiddi hamborgarahrygg með alls kyns meðlæti og á eftir var boðið upp á gómsæta ostaköku. Það eru sífellt fleiri sem borða vegan og að sjálfsögðu hafði Hafdís hugsað fyrir því. Þannig að það fengu allir eitthvað við sitt hæfi.

Yfir borðhaldinu var margt rætt. Þar má nefna skólann og hlutverk hans í samfélaginu, félagslíf nemenda en mörgum var líka tíðrætt um óveður sem er að skella á landinu í dag og á morgun.

Í dag er síðasti kennsludagur í FAS á þessari önn. Á morgun hefjast lokamatsviðtöl og eiga nemendur að hafa tímasetningar um það hvenær þeir eiga að mæta í viðtölin. Það má því segja að lokatörnin hjá nemendum þessa önnina sé hafin því við leggjum á það mikla áherslu að nemendur undirbúi sig vel fyrir viðtölin.

[modula id=“9800″]

Sýning hjá nemendum á lista- og menningarsviði

Unnið að sameiginlegu verki.

Föstudaginn 6. desember verður opnuð sýning í Nýheimum. Það eru nemendur á lista- og menningarsviði FAS sem ætla að sýna afrakstur annarinnar. Sýningin opnar formlega klukkan 12:30 á Nýtorgi þar sem nemendur segja frá vinnu sinni og sýna dæmi um verkefni. Sýningin er opin á milli 13 og 14 á föstudag og nemendur verða á staðnum og svara spurningum.

Verkefni einstakra nemenda í sjónlistum munu hanga uppi á efri hæð hússins og sameiginlegt verkefni í alrými. Nemendur í sviðslistum sýna verkefni sín í stofu 205. Einnig verður rúllandi glærusýning í nemendarými á efri hæð hússins.

Við vonumst til að sjá sem flesta á föstudag en fyrir þá sem ekki komast að þá verður sýningin opin fram yfir áramót.

Kaffisamsæti á aðventu

Fatnaður og skraut minna á að jólin séu í nánd.

Í löngu frímínútunum í morgun var komið að síðasta sameiginlega kaffinu hjá íbúum Nýheima á þessu ári. Að þessu sinni var það hluti starfsfólks sem stóð fyrir veitingunum og það var ýmislegt gómsætt í boði sem rann ljúflega niður. Að auki skörtuðu margir fatnaði sem minnir á að jólin séu í nánd. Af því tilefni var efnt til myndatöku. Þessar samverustundir þar sem boðið upp á góðgjörðir eru orðnar ómissandi þáttur í starfsemi Nýheima og er mæting iðulega góð.
Þessi vika er síðasta heila kennsluvikan í FAS. Kennslu lýkur þriðjudaginn 10. desember og lokamatsviðtöl hefast i kjölfarið. Gert er ráð fyrir að lokamatsviðtöl standi yfir til 19. desember og sama dag ættu allar einkunnir að vera komnar í Innu.