Listsköpun í Vöruhúsinu

Það má sannarlega segja að það hafi verði líflegt í Vöruhúsinu um nýliðna helgi en dagana 24. og 25. október var komið að fyrri hluta námskeiðs á lista- og menningarsviði þar sem fengist var við málun, teiknun, ljósmyndun og myndvinnslu. Þátttakendur í námskeiðinu eru bæði nemendur í FAS sem eru á lista- og menningarsviði en einnig aðrir áhugasamir í samfélaginu. Sautján nemendur sóttu námskeiðið um síðustu helgi.
Nemendur gátu valið á milli tveggja hópa. Annar hópurinn fékkst við ljósmyndun og myndvinnslu en hinn teiknaði og málaði uppstillingu. Báðir hóparnir voru mjög áhugasamir og unnu vel. Það var ekki að sjá að ólíkur aldur og bakgrunnur skipti máli og vinnugleðin var allsráðandi. Seinni hluti námskeiðsins verður helgina 31. október og 1. nóvember og þá er ætlunin að ljúka verkefnunum. Hægt er að skoða myndir frá námskeiðinu á instagramsíðu lista- og menningarsviðs.

Mælingar á Heinabergsjökli

Allt frá árinu 1990 hafa nemendur í FAS farið í ferðir til að mæla jökla og skoða áhrif þeirra á landið. Ýmist hefur verið farið að Fláajökli eða Heinabergsjökli í jöklamælingar og eru þessar ferðir hluti af námi í tilteknum áföngum. Mælingar á Heinabergsjökli eru þannig hluti af verkefnum í inngangsáfanga að náttúruvísindum og ætlast er til að allir staðnemendur fari í ferðina.
Eins og allir vita eru aðstæður allar öðruvísi en venjulega vegna COVID-19 og fyrir nokkru var nemendum í FAS skipt upp í bekki til að lágmarka blöndun á milli hópa en gefa um leið sem flestum tækifæri til að koma í skólann. Nemendur í inngangsáfanga að náttúruvísindum tilheyra þannig fjórum mismunandi bekkjum. Einungis einn bekkur fékk að fara í mælingaferðina að þessu sinni og kom það í hlut þeirra nemenda í fyrsta bekk sem eru í áfanganum.
Í gær var svo komið að því að fara í ferðina. Auk kennara frá FAS var Snævarr Guðmundsson frá Náttúrustofu Suðausturlands með í för en hann er sérfræðingur um jökla. Veður var með eindæmum gott, logn en nokkuð svalt enda komið frost. Ferðin hófst við brúna yfir Heinabergsvötn en sú brú er góður minnisvarði um þær miklu breytingar sem eiga sér stað í nánd við jökla. Þaðan var svo gengið yfir jökulruðninga að lóninu fyrir framan Heinabergsjökul. Á leiðinni var oft staldrað við til að skoða það sem fyrir augu bar og einnig til að veita öðru í umhverfinu athygli.
Við lónið hafa orðið gríðarmiklar breytingar síðustu ár. Jökullinn hefur verið að brotna upp og þynnast sérstaklega norðan megin í lóninu. Undanfarin ár hefur því einungis verið hægt að mæla sunnan megin en þar sést líka greinilega að jökullinn er að þynnast. Mælingarnar núna voru tvenns konar. Annars vegar hefðbundin mæling sem er út frá ákveðinni mælilínu en með ákveðnum útreikningum er hægt að finna út hver vegalengdin er frá ákveðnum punkti á landi í jökusporðinn. Hins vegar var verið að nota fjarlægðarmæli til að mæla vegalengdir frá sama punkti á landi í nokkra staði á jökuljaðrinum. Þessar vegalengdir eru settar inn á GPS mynd og gefa þannig yfirlit af stöðu jökulsins. Eftir mælingarnar hélt hópurinn áfram en nú að bílastæðinu við Heinabergsjökul.
Eftir ferðina þurfa nemendur að vinna að skýrslu þar sem bæði er fjallað um mælingarnar og eins þau jarðfræðilegu fyrirbrigði sem fyrir augu bar. Ferðin í gær gekk í alla staði ljómandi vel og ekki síst vegna þess hve hópurinn var áhugasamur og skemmtilegur.

Selma Ýr á meðal tuttugu efstu í STAK 2020

Íslenska stærðfræðafélagið hefur um langt skeið staðið fyrir stærðfræðikeppni á meðal framhaldsskólanema. Keppninni er skipt í tvö stig, annars vegar fyrir nýnema sem hófu nám í framhaldsskóla í haust og hins vegar fyrir þá sem eru komnir lengra í námi.
Þegar Arndís Lára stærðfræðikennari í FAS kynnti keppnina fyrir hópnum sínum ákvað Selma Ýr Ívarsdóttir að taka þátt. Vegna aðstæðna í samfélaginu var keppnin að þessu sinni á rafrænu formi.
Í gær barst tölvupóstur í FAS frá Íslenska stærðfræðafélaginu þar sem sagt er frá keppninni og þá kemur í ljós að Selma Ýr er á meðal 20 efstu í keppni nýnema. Það vekur athygli að hún er eini þátttakandinn utan höfuðborgarsvæðisins sem er í þeim hópi. Frábært hjá þér Selma að taka þátt og innilega til hamingju með árangurinn.

Nýjasta samstarfsverkefnið í FAS

Núna í haust byrjaði nýtt samstarfsverkefni í FAS undir merkjum Nordplus áætlunarinnar. Þetta verkefni er til þriggja ára og er á milli Brønnøysund videregående skole í Noregi, Vaala Upper Secondary School í Finnlandi og FAS. Skólarnir eiga það sameiginlegt að vera fremur litlir og liggja allir á svipaðri breiddargráðu. Verkefnið ber yfirskriftina Geoheritage, culture and sustainable communities in rural areas in Finland, Iceland and Norway og fjallar um uppruna, menningu og sjálfbær samfélög þátttökulandanna. Verkefnið er einnig tengt völdum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Í hverju landi taka 10 nemendur þátt í sameiginlegri verkefnavinnu en í Noregi eru mun fleiri sem njóta góðs af vinnunni. Lögð er áhersla á náttúruskoðun og breytingar sem eru að verða vegna breytts loftslags. Því var ákveðið að tengja verkefnið inn í jarðvanga í nánd við þátttökuskólana og fá sérfræðinga þar til að segja frá breytingum og sýna þær. Hér á Íslandi tekur einnig Vatnajökulsþjóðgarður þátt í verkefninu en á suðausturhorninu sjáum við ótrúlegar breytingar á t.d. jöklunum.  Í verkefninu er gert ráð fyrir að nemendum gefist kostur á að heimsækja samstarfsaðilana og átti fyrsta heimsóknin að vera til Íslands í lok september. Vegna COVID-19 eru miklar takmarkanir á ferðalögum og í upphafi annar var ákveðið að leita annarra leiða til láta verkefnið ganga. Lausnin felst í því að nýta tæknina og var keyptur búnaður sem gerir það mögulegt að fara út í náttúruna og miðla efni þaðan í streymi í gegnum YouTube.

Dagana 28. og 29. september var farið með íslenska hópinn á fyrirfram valda staði þar sem sérfræðingar frá Kötlu jarðvangi annars vegar og Vatnajökulsþjóðgarði hins vegar sáu um að miðla upplýsingum til okkar nemenda sem voru á staðnum og svo til annarra þátttakenda í gegnum streymi. Þessi tilraun gekk bærilega þó vissulega hafi verið einhverjir hnökrar eins og t.d. að netsamband væri ekki nógu stöðugt til að halda úti streymi eins og raunin varð í Lakagígum. Í þessari ferð var líka markvisst verið að efla staðarvitund nemenda með því að láta þá reglulega gefa gaum að nærumhverfinu og því sem fyrir augu bar. Auk þess að fara í ferð unnu hóparnir saman í gegnum Teams. Þátttakendur kynntu lönd sín og þjóð og síðasta daginn var svo sameiginleg verkefnavinna þar sem tveir nemendur frá hverju landi unnu saman í hóp.

Á næstu önn verður haldið áfram og þá tekur Noregur boltann og áherslan þá önnina verður á heimsmarkmið 12 sem fjallar um ábyrga neyslu og framleiðslu. Nú er bara að vona að okkur gefist tækifæri á að fara til Noregs undir næsta vor. Líkt og í flestum samstarfsverkefnum í FAS er allur afrakstur vinnunnar settur á sameiginlega vefsíðu  https://geoheritage.fas.is/

Bekkjakerfi í FAS

Núna er ljóst að við erum ekki alveg að ná tökum á COVID-19 og þetta ástand mun vara nokkuð lengur. Því hefur verið ákveðið að breyta skipulagi í FAS til að koma á móts við sem flesta en að tryggja um leið smitvarnir. Ákveðið hefur verið að skipta nemendum skólans í sex bekki og mun hver bekkur fá sína kennslustofu og sína lesstofu. Bekkirnir eru eftirfarandi; fjallamennskubekkur, vélstjórnarbekkur, framhaldsskólabekkur, fyrsti bekkur, annar bekkur og þriðji bekkur. Fjallamennskubekkur og vélstjórnarbekkur halda sínum stundaskrám og þar verða tiltölulega litlar breytingar. Fjallamennskubekk hefur verið úthlutað fyrirlestrasalur Nýheima og Nýtorg. Vélstjórnarnemendur verða í stofu 207 og í Vöruhúsinu. Framhaldsskólabekkur þar sem einkum eru nemendur af framhaldsskólabraut verða í stofu 202 og lesstofan þeirra verður á handbókasafni. Nemendum á stúdentsbrautum er skipt niður í fyrsta, annan og þriðja bekk eftir því hversu langt þeir eru komnir í námi. Fyrsti bekkur verður í stofu 204 og einnig á lesstofunni. Annar bekkur verður í stofu 203 og fær lesstofu í stofu 206. Þriðji bekkur fær stofu 201 og lesstofu í fundaherbergi FAS.

Hver bekkur fær sína stundatöflu þar sem miðað er við að í hverjum áfanga verði staðtími einu sinni í viku eða jafnvel oftar. Upplýsingar um hver er í hvaða bekk verða hengdar utan á hverja stofu. Hver bekkur má bara vera á sínum svæðum en kennarar fara á milli bekkja. Gangar og salerni eru sameiginleg svæði en allir verða að gæta sérstaklega vel að sóttvörnum á þeim svæðum. Miðað er við að allir notir grímur í kennslustofum og á lesstofum. Veitingasalan opnar aftur eftir helgi en nú með breyttu fyrirkomulagi. Grautur og hádegismatur verður á efri hæð og hver bekkur matast í sinni stofu eða lesstofu. Ætlast er til að hver taki til eftir sig að máltíð lokinni.

Þetta breytta fyrirkomulag er ekki síst hugsað til þess að hægt sé að halda betur utan um nemendur og hvetja þá áfram á þessum krefjandi tímum. Líklega verða einhverjir hnökrar á þessu fyrirkomulagi í byrjun en það er sameiginlegt verkefni okkar allra að leysa það. Nemendur eiga því að mæta í skólann eftir helgi samkvæmt stundaskrá nema að þeir hafi fengið upplýsingar frá sínum kennara um annað.

 

Jöklaferð hjá fjallamennskunemendum

Grunnnámskeið í jöklaferðamennsku var haldið dagana 2.- 5. október. Að þessu sinni var nemendahópnum skipt í tvennt, en helmingur hópsins fór á jökul meðan hinir æfðu fjallahjólreiðar. Leiðbeinendur á námskeiðinu voru Árni Stefán Haldorsen, Bjartur Týr Ólafsson og Elín Lóa Baldursdóttir. Markmið námskeiðsins var að byggja ofan á línuvinnuna sem hópurinn lærði á klettaklifurnámskeiðinu á dögunum, kynnast virkni og hegðun jökla, að læra rétta notkun mannbrodda og æfa ísklifur. Námskeiðið byrjaði í fyrirlestrasal Nýheima en fór eftir það fram á skriðjöklum Öræfajökuls.

Við hófum leikinn með útdeilingu búnaðar í Nýheimum og fórum yfir ýmis hagnýt atriði fyrir næstu daga, t.d. að stilla mannbrodda á skó. Þá var fyrirlestur um myndun og hegðun jökla og hvernig hún útskýrir sprungumyndun á þeim. Farið var í sprungumynstur á jöklum og hvernig það hefur áhrif á leiðaval. Að þessu loknu var stefnan sett á Fjalljökul. Hann er ekki mikið heimsóttur en er óneitanlega með tilkomumeiri skriðjöklum landsins. Jökullinn er þó mikið sprunginn og getur því verið erfiður yfirferðar. Farið var í grunnatriði göngutækni með mannbrodda og svo fórum við í stutta göngu um neðsta sprungusvæði jökulsins, þar sem nemendur fengu að spreyta sig á að lesa í landslag jökulsins, velja leið og æfa broddatæknina. Að þessu loknu fór hópurinn á Svínafell í gistingu.

Á laugardeginum var ferðinni heitið á Virkisjökul, en til þess að komast á hann var farið yfir fremsta hluta Falljökuls. Markmið dagsins var að vinna áfram með sig og júmm sem farið var í á fyrra námskeiðið, auk þess sem nemendur lærðu um ístryggingar og sitthvað fleira. Jökullinn tók vel á móti okkur og við fengum stórkostlega sýningu þegar stórir ísturnar hröpuðu úr ísfallinu hærra á jöklinum. Í lok dags skoðaði hópurinn flottan íshelli og svo var haldið heim.

Sunnudagurinn var helgaður ísklifri og nú héldum við á Kvíárjökul. Hópurinn setti upp ísklifurakkeri til ofanvaðs og æfði svo ísklifur. Farið var í mismunandi tækni, fótavinnu, jafnvægi og fleira, auk þess sem nemendur héldu áfram að æfa að tryggja klifrara í ofanvað. Þetta reyndist hin besta skemmtun, en ljóst var að margir vildu meiri áskorun. Við enduðum því daginn á því að færa okkur að djúpum svelg þar sem kennarar slökuðu nemendum rúma um 30 metra niður nær lóðréttan ísvegg þar sem eina leiðin út var beint upp. Það þarf varla að spyrja að því að nemendur voru ekki í miklum vandræðum með þessa áskorun.

Síðasta daginn var haldið á Svínafellsjökul. Hann var um langan tíma einn mest heimsótti skriðjökull landsins en eftir uppgötvun sprungu í Svínafelli fyrir ofan hefur hann nánast staðið auður. Hættustigi Almannavarna hefur verið aflétt þar og ráðfærðu kennarar sig að auki við Daniel Ben-Yehoshua, sem er vísindamaður við Háskóla Íslands og hefur rannsakað mögulegt berghlaup undanfarin ár, áður en farið var á jökulinn. Markmið dagsins var að læra um dobblanir, þ.e.a.s. að nota jöklalínu til að gera hífingu. Farið var yfir grunnatriði í þessum fræðum og byggt upp að kerfi sem notað er til sprungubjörgunar.

Námskeiðslok voru með hefðbundnu sniði, búnaður var flokkaður og yfirfarinn, námskeiðið rýnt, spurningum svarað og ráðleggingar fyrir framhaldið gefnar.

Námskeiðið tókst með eindæmum vel og við hlökkum til að sjá hópinn halda áfram að vaxa og dafna. Við þökkum kærlega fyrir okkur. Myndir sem fylgja með eru samsafn frá nemendum og kennurum.

Árni Stefán

[modula id=“10254″]