Nýr nemendahópur í grunnnámi á fjallamennskubraut FAS var boðinn velkominn á dögunum. Hópurinn verður stór í vetur og því voru fyrstu námskeiðin, gönguferðin annars vegar og klettaklifur og línuvinna hins vegar, haldin samtímis og hópnum skipt í tvennt. Kennarar í klettaklifri og línuvinnu voru Árni Stefán Haldorsen, Bjartur Týr Ólafsson, Daniel Saulite, Íris Ragnarsdóttir og Magnús Arturo Batista.
Námskeiðið gekk afar vel enda hópurinn hress og metnaðarfullur og við nutum eindæma veðurblíðu. Markmið námskeiðsins er að kynna hópinn fyrir klettaklifursíþróttinni auk þess að leggja grunninn að línuvinnu. Námskeiðið var vikulangt og því góður tími til æfa bæði klifurtæknina sem og tæknilega hluti.
Háfjallatöffarinn og efnafræðingurinn Arlene Blum var á landinu og stödd í Skaftafelli í vikunni. Hún var með myndasýningu og fyrirlestur á Hótel Skaftafelli og hópurinn mætti þangað. Hún sagði frá ævintýrum sínum; m.a. fyrstu kvennaleiðöngrunum á Denali og Annapurna, göngu yfir Himalaya fjallgarðinn endilangan og störfum hennar sem efnafræðingur og baráttu gegn skaðlegum efnum í neytendavörum. Frábær fyrirlestur og mikil fyrirmynd þar á ferð.
Námskeiðið hófst á kynningu á skólanum og vetrinum framundan, nemendum og kennurum, og helsta búnaði sem notaður er í klettaklifri. Að því loknu hélt hópurinn út á Hafnartanga við Vestrahorn þar sem flestir stigu sín fyrstu skref í grjótglímu. Grjótglíma er undirgrein klettaklifurs þar sem klifrað er í lágum klettum og notast við dýnur til fallvarnar. Í lok dags var keyrt í Skaftafell og þar settar upp tjaldbúðir. Næstu þrjá daga notuðum við á Hnappavöllum, sem er stærsta klifursvæði landsins. Farið var vel í notkun sigtóla, bæði til sigs og tryggingu klifrara, hópurinn lærði innsetningu bergtrygginga, helstu hnúta, uppsetningu akkera, þræðingu akkera, sig, gráðunarkerfi klettaklifurs skoðað og margt fleira. En umfram allt var mikið klifrað. Á fimmta degi var kominn tími á hvíld frá klifrinu. Við skoðuðum eðlisfræði klifurs og gerð klifurlína, fleiri hnúta og klifur upp línu. Daginn enduðum við svo með bíókvöldi þar sem horft var á klifurmyndina Progression. Sjötta daginn var haldið í klifurvegginn í Káraskjóli þar sem nemendur kynntust innanhússklifri fram eftir degi og enduðu svo á því að æfa uppsetningu einstefnuloka og að líkja eftir ferli fjölspannaklifurs. Það var svo æft í raunverulegri aðstæðum á lokadegi námskeiðsins þegar farið var aftur að Vestrahorni og leiðin Námsbraut klifin.
Æðisleg vika og magnaður hópur, það stefnir í frábæran vetur! Takk fyrir okkur.
Árni Stefán
[modula id=“13117″]
Fjölþjóðlega Erasmus+ verkefnið, DETOUR sem FAS er þátttakandi í er nú langt komið. Í verkefninu hefur verið unnið stuðnings- og upplýsingaefni sem nýst getur ferðaþjónustuaðilum og samfélögum sem vilja efla framboð heilsueflandi ferðaþjónustuafurða eða viðburða í sínu nærumhverfi.
Stuðnings- og upplýsingaefnið er aðgengilegt og opið öllum á heimasíðu DETOUR https://www.detourproject.eu/ Nánar má lesa um verkefnið í meðfylgjandi fréttabréfi.
Háskóli Íslands hefur um margra ára skeið veitt nýnemum sem bæði hafa náð framúrskarandi árangri á stúdentsprófi og látið til sín taka á öðrum sviðum styrk þegar þeir hefja nám í skólanum. Úthlutunarathöfnin fyrir nýhafið skólaár fór fram fyrr í vikunni.
Meðal styrkþega að þessu sinni er Ingunn Ósk Grétarsdóttir sem útskrifaðist síðasta vor frá FAS með einstökum árangri. Hún er að hefja nám í lífeindafræði í háskólanum. Við óskum henni sem og öðrum styrkþegum velfarnaðar á nýjum vettvangi.
Hér er tengill á frétt frá Háskóla Íslands um styrkveitinguna. Á myndinni má sjá Ingunni með Jóni Atla Benediktssyni háskólarektor.
Það er heldur betur líflegt í Nýheimum í dag og margt um manninn. Ástæðan er sú að í dag mæta nemendur á fyrra ári í fjallamennsku í fyrsta sinn í skólann. Nemendurnir koma víða að og fóru fyrstu tímarnir í að kynna sig fyrir hópnum. Að loknum kynningum snéru nemendur sér að verkefnum næstu daga.
Hópnum var síðan skipt í tvo minni hópa. Annar hópurinn mun fara í fyrstu göngu námsins þar sem m.a. farið yfir notkun á áttavita og hvernig best sé að bera sig að við að skipuleggja ferðir á fjöllum. Hinn hópurinn ætlar hins vegar að spreyta sig á klettaklifri.
Við bjóðum þennan stóra hóp velkominn í FAS og hlökkum til að fylgjast með fjölbreyttum verkefnum þeirra í vetur.
[modula id=“13076″]
Framhaldsnámskeið í klettaklifri var haldið dagana 24. – 28. ágúst. Í vetur verður í fyrsta skipti boðið upp á framhaldsnám á fjallamennskubraut FAS og byggir það á þeim sterka grunni sem unnið hefur verið að undanfarin ár. Þetta var fyrsta námskeið vetrarins hjá annars árs nemum. Kennarar á námskeiðinu voru Árni Stefán Haldorsen, Daniel Saulite og Íris Ragnarsdóttir.
Námskeiðið gekk afar vel og klifrað var á Vestrahorni, á Hnappavöllum, í Svínafelli og innanhúss í aðstöðu Klifurfélags Öræfa í Freysnesi. Markmið námskeiðsins var að byggja áfram á þeirri grunntækni sem kennd var á fyrra ári og efla nemendur í að verða sjálfbærir klifrarar.
Fyrsti dagurinn var notaður í upprifjun á ferli fjölspannaklifurs. Klifurleiðin „Námsbraut“ í Vestrahorni var klifin í fjórum spönnum, en hún er afar heppileg þar sem hún reynir á alla tæknilega hluta klifurferlisins án þess að vera erfitt klifur. Að lokum var sigið niður úr leiðinni. Á öðrum degi var klifrað á Hnappavöllum og áherslan á leiðslu, þá festir klifrarinn klifurlínuna reglulega við klettinn til að varna falli en er ekki tryggður að ofan. Tæknin var fyrst æfð í ofanvaði (klifrarinn tryggður að ofan) en nemendur leiddu allir klifurleið fyrir lok dags, flestir sína fyrstu leiðslu. Þriðja daginn var rigning og því klifrað inni í Káraskjóli en það er aðstaða klifurfélagsins í Öræfum. Lögð var áhersla á viðeigandi upphitun fyrir klifur, meiðsl og mótvægisæfingar, klifurtækni og líkamsbeitingu í yfirhangi. Þegar nemendur höfðu klifrað nægju sína var farið í nokkrar útgáfur félagabjörgunar í klifri. Fjórða deginum var varið í dótaklifur, þá setur klifrarinn inn sínar eigin bergtryggingar í sprungur í klettinum. Þetta var æft í Lambhaga í Svínafelli, en þar hefur nýlega verið unnið að þróun nýs klifursvæðis. Í Lambhaga er stuðlaberg og klifurstíllinn því mjög ólíkur bæði Hnappavöllum og Vestrahorni, og bergið því gott til að æfa annars konar klifurtækni. Á lokadeginum var haldið aftur á Vestrahorn og farið í klifurleiðina Bifröst. Fyrstu þrjár spannirnar voru klifraðar, samtals um 90m af bröttu klifri.
Frábærir dagar að baki og góð byrjun á vetrinum. Takk fyrir okkur.
Árni Stefán
[modula id=“13065″]
Í dag var komið að árlegri ferð nemenda á Skeiðarársand en frá árinu 2009 hafa nemendur í inngangsáfanga að náttúruvísindum farið í þá ferð. FAS hefur umsjón með fimm gróðurreitum á sandinum sem hver er 25 fermetrar að stærð. Í ferðinni er verið skoða gróður innan reitanna, telja tré og mæla hæð þeirra sem eru orðin 10 cm eða hærri. Einnig þurfa nemendur að horfa eftir ummerkjum um ágang skordýra eða beit.
Ferðin í dag gekk ljómandi vel. Vinnan á sandinum gekk vel. Næstu daga verður svo unnið úr upplýsingum sem var safnað og þær bornar saman við niðurstöður fyrri ára.