Í dag var komið að jólaskreytingauppbroti í FAS. Þá var felld niður kennsla í einn tíma og allir tóku þátt í því að skreyta efri hæðina í Nýheimum. Það er því mikið um lítrík ljós í húsnæði skólans sem eiga sinn þátt í því að lýsa aðeins upp þann tíma ársins þar sem dagsbirtan dvín frá degi til dags fram að vetrarsólstöðum.
Þeir sem hafa lagt leið sína í Nýheima í dag hafa eflaust tekið eftir bökunarilmi í loftinu. Hún Dísa okkar í kaffiteríunni hefur ekki látið sitt eftir liggja og er búin að baka nokkrar smákökusortir. Þegar lokið var við að skreyta var öllum boðið í rjúkandi heitt súkkulaði og nýbakaðar smákökur. Það er varla hægt að hafa það betra.
Við höfum áður sagt frá því að núna vinnur FAS að því að innleiða græn skref ríkisstofnana. Í síðustu viku fékkst það staðfest að skrefum 1 og 2 hefur verið náð í FAS. Af því tilefni var boðið upp á gómsæta gulrótarköku á kennarastofunni í dag.
Núna er verið að vinna í skrefum 3 og 4 en þar er verið að ganga lengra í að vera umhverfisvænn. Öll miða skrefin að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og minnka vistspor skólans. Skólinn hefur nú þegar sett sér loftslagsstefnu og verður hún fljótlega birt á heimasíðu skólans.
Alls eru skrefin 5 og það er stefnt að því að þau verði öll uppfyllt fyrir áramót.
Dagurinn 8. nóvember er helgaður baráttunni gegn einelti í samfélaginu. Af því tilefni var efnt til uppbrots í FAS og sýndur var stuttur TED fyrirlestur um áhrif þess að slúðra. Eftir að hafa horft á myndina talaði Fríður námsráðgjafi aðeins um það hvað slúður sé og hvaða afleiðingar slúður geti haft. En það hefur komið fram í könnunum að margir telja slúður mikinn löst í okkar samfélagi.
Því er mikilvægt að allir taki höndum saman og vandi sig í öllum samskiptum, þar á meðal að hætta að slúðra um náungann. Af því tilefni hefur verið hengt upp stórt plaggat á Nýtorgi. Með undirskrift á plaggatið staðfestir viðkomandi að hann ætli að hætta að slúðra það sem eftir lifir af þessari önn. Við hvetjum alla íbúa Nýheima til að leggja sitt af mörkum og undirskrifa sáttmálann.
Nemendum var skipt í nokkra hópa á vísindadögum í ferðinni á Stöðvarfjörð í síðustu viku. Á meðan nokkrir hópar lögðu áherslu á mannvist á svæðinu voru aðrir að skoða atriði tengd listum.
Nú hafa nemendur búið til tvö myndbönd þar sem sjá má brot af því sem fyrir augu bar og þátttakendur í ferðinni upplifðu.
Það fór varla fram hjá nokkrum manni að um síðustu helgi var hrekkjavaka en hún nýtur sífellt vaxandi vinsælda hér á landi.
Af því tilefni efndi NemFAS til kvikmyndasýningar á mánudagskvöld í Sindrabæ þar sem hryllingsmyndin „The Visit“ var sýnd. Það var góð mæting og alsælir nemendur mauluðu á poppkorni og gosi en nemendafélagið nýtti tækifærið og var með sælgætissölu.
Vonandi hefur nemendafélagið tök á að efna til fleiri sýninga í vetur.
Það er löngu orðin hefð í FAS að hafa vísindadaga síðast í október. Annað hvert ár hefur verið farið með staðnemendur í tveggja daga ferð til að kynna sér önnur bæjarfélög og hvað er í gangi þar.
Dagana 27. og 28. október var farið til Stöðvarfjarðar. Þar voru þrír staðir skoðaðir. Fyrst var stoppað var á Kambanesi þar sem vitinn var skoðaður sem og náttúra og mannvist.
Á Stöð innst í Stöðvarfirði eru miklar fornleifarannsóknir og var það næsti viðkomustaður. Þar tóku á móti hópnum Erla Jóna Steingrímsdóttir og Björn Valur Guðmundsson kennari. Þau sögðu frá uppgreftinum og rannsóknum sem hafa átt sér stað og þeim niðurstöðum sem liggja fyrir í dag. Þarna er stærsta langhús sem hefur fundist á Íslandi hingað til og það er talið hafa verið reist 50 – 70 árum fyrir landnám og bendir til þess að þarna hafi menn komið og haft tímabundna búsetu.
Þorpið á Stöðvarfirði var heimsótt og tóku nemendur viðtöl við fólk á staðnum. Einnig var Sköpunarmiðstöðin heimsótt en hún er til húsa í gamla frystihúsinu. Þar hófst uppbygging á listasmiðju 2011 og er hún í miklum blóma í dag. Hópurinn gisti í íþróttahúsinu og hafði þar líka aðstöðu til hópavinnu.
Á leiðinni heim var aftur stoppað á Kambanesi þar sem hóparnir kynntu sína vinnu í ferðinni. Ferðin gekk í alla staði einstaklega vel. Nemendur voru í alla staði til mikillar fyrirmyndar og komu reynslunni ríkari heim síðdegis á fimmtudag. Við þökkum Stöðfirðingum fyrir góðar móttökur.
Þessi vefur notar vafrakökur (cookies) til að tryggja sem besta upplifun þegar hann er skoðaður. Þessi borði hverfur þegar þú samþykkir notkun. Þú getur breytt stillingum á kökum hvenær sem er.