Þorramatur á bóndadegi

Í dag er bóndadagur en það er fyrsti dagurinn í Þorra sem er fjórði mánuður vetrar í gamla norræna tímatalinu. Bóndadagur er alltaf í 13. viku vetrar og ber ætíð upp á föstudag og eins og nafnið ber með sér er dagurinn helgaður körlum landsins á öllum aldri. Í gegnum tíðina hafa skapast ýmis konar hefðir tengdar bóndadegi og ein þeirra er  að borða þjóðlegan íslenskan mat sem var algengur á borðum landsmanna í gegnum aldirnar.

Af þessu tilefni bauð FAS nemendum sínum og starfsfólki í þorramat í hádeginu og þar mátti svo sannarlega sjá ýmislegt sem æ sjaldnar sést á borðum margra landsmanna en er engu að síður ljómandi góður matur. Matnum voru gerð góð skil og allir gengu saddir og sælir frá borði.

Uppsetning á Silfurtúnglinu

FAS ætlar í samstarfi við Leikfélag Hornafjarðar að setja upp leikverkið Silfurtúnglið eftir Halldór Laxness á þessari önn. Mánudaginn 17. janúar boðar leikfélagið til kynningarfundar í Hlöðunni sem er á Fiskhól 5. Þar ætlar leikstjórinn Stefán Sturla að fara yfir uppsetninguna.

Við hvetjum alla sem hafa áhuga á leiklist til að mæta. Fundurinn hefst klukkan 20 og við minnum á að það er grímuskylda á fundinum og hvetjum alla til að gæta sóttvarna.

FAS keppir í Gettu betur á fimmtudag

Enn og aftur er spurningkeppnin Gettu betur farin af stað og að sjálfsögðu tekur FAS þátt. Í ár taka 29 skólar þátt í keppninni. Þegar lið voru dregin saman kom í ljós að mótherji FAS í fyrstu umferð er MH.

Lið FAS skipa þau Anna Lára Grétarsdóttir, Selma Ýr Ívarsdóttir og Sævar Rafn Gunnlaugsson. Til vara eru Almar Páll Lárusson, Aníta Aðalsteinsdóttir og Stígur Aðalsteinsson. Það er fyrrum keppandi í Gettu betur fyrir FAS sem þjálfar liðið en við erum auðvitað að tala um Sigurð Óskar Jónsson.

Viðureign FAS og MH verður fimmtudaginn 13. janúar. Hægt er að fylgjast með viðureigninni í beinu hljóðstreymi frá RÚV á þessari slóð og hefst viðureignin um 19:40. Að þessu sinni eru engir áhorfendur leyfðir og það er auðvitað vegna COVID.

Við óskum okkar fólki góðs gengis og hvetjum alla til að hlusta á viðureignina.

 

Skólastarf vorannar hafið

Skólastarf vorannar í FAS hófst formlega í morgun þegar skólinn var settur. Í máli skólameistara kom fram að reynt verði eftir fremsta megni að hafa skólastarf sem eðlilegast þó að mikið sé um smit af völdum kórónuveirunnar núna. Jafnframt minnti hann á mikilvægi þess að hver og einn gæti sem best að sóttvörnum til að minnka líkur á smiti. En komi upp smit þurfi að bregðast við því.
Eftir skólasetningu voru umsjónarfundir þar sem farið var yfir helstu áherslur annarinnar.

Kennsla hefst svo á morgun, 5. janúar, samkvæmt stundaskrá. Nemendur geta séð bæði stundatöflu og bókalista í Innu. Ef það eru einhverjir sem eru að velta fyrir sér breytingu á áfangaskráningu er best að drífa í því hið fyrsta því lok áfangaskráningar eru fimmtudaginn 6. janúar.

Við skulum ganga jákvæð og glöð mót hækkandi sól og vonum að dagar veiruskammarinnar verði senn taldir.

 

Jólafrí og upphaf vorannar

Skólastarfi haustannarinnar í FAS er nú formlega lokið og allar einkunnir eiga að vera komnar í INNU.

Skólastarf vorannar hefst þriðjudaginn 4. janúar en þá verður skólinn settur klukkan 10. Umsjónarfundur verður sama dag klukkan 10:30 og er mikilvægt að nemendur mæti þar. Kennsla hefst svo miðvikudaginn 5. janúar samkvæmt stundaskrá.

Starfsfólk FAS sendir nemendum sem og landsmönnum öllum bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á komandi ári.

Fimmta skrefið komið í FAS

Mánudaginn 13. desember var komið að lokaúttekt á Grænum skrefum í FAS. Það er skemmst frá því að segja að úttektin gekk vel og FAS hefur nú lokið öllum skrefunum fimm.

Einn liður í Grænum skrefum er hjólavottun þar sem fólk er hvatt til að nýta umhverfisvænni samgöngumáta. Það er Hjólavottun sem er félag hjólreiðamanna sem stendur fyrir vottuninni og hvetur með því stofnanir og vinnustaði til að bæta aðbúnað fyrir starfsfólk svo það velji frekar umhverfisvænni og heilbrigðari ferðamáta í sínu daglega lífi. Nú hafa Nýheimar og sveitarfélagið tekið höndum saman til að bæta aðstöðu fyrir hjólreiðafólk. Það hefur verið ákveðið að setja upp hjólaskýli við Nýheima sem nýtist bæði íbúum Nýheima og starfsfólki í ráðhúsinu. Stefnt er að því að setja skýlið upp á næsta ári. Hjá Hjólavottuninni er hægt að fá; brons-, silfur-, gull- eða platínuvottun eftir því hvað stofnunin uppfyllir mörg skilyrði. FAS hefur nú þegar fengið silfurvottun og stefnir á gullvottun með nýju hjólaskýli og hækkandi sól. Að sjálfsögðu stefnir FAS að platínuvottun í náinni framtíð.

Þá má í lokin nefna að skólinn hefur gert samgöngusamning við þá sem koma gangandi eða hjólandi til vinnu. Þeir sem gerðu slíkan samning við skólann á haustönninni fengu þau styrk fyrir þetta skólaár. Vonandi verður framhald á samgöngusamningum því hann er sannarlega hvatning, bæði til að hreyfa sig meira og um leið að minnka kolefnissporið.