Í byrjun annar sögðum við frá því að FAS væri í samstarfi við Leikfélag Hornafjarðar vegna uppsetningar á fjölskylduleikritinu Galdrakarlinum í Oz eftir L. Frank Baum. Fjölmargir aðstoða leikfélagið við uppsetninguna en auk nemenda í FAS eru nokkrir nemendur úr grunnskólanum sem fara með hlutverk. Í heildina koma nokkrir tugir að uppsetningunni.
Undanfarnar vikur hafa verið stífar æfingar og næsta föstudag, 24. mars verður leikritið frumsýnt í Mánagarði. Sýningin á föstudag hefst hefst klukkan 19 og það er orðið uppselt á hana. Önnur sýning verður laugardaginn 25. mars og hefst hún klukkan 17. Þar er enn hægt á fá miða. Það eru tvær sýningar fyrirhugaðar sunnudaginn 26. mars, sú fyrri er klukkan 13 og sú seinni klukkan 17. Hægt er að panta miða í síma 691 67 50 eða 892 93 54 á milli 17 og 20.
Við hvetjum alla til að drífa sig í leikhús og sjá skemmtilega uppfærslu. Meðfylgjandi myndir voru teknar á æfingum síðustu daga.
Barbara Olga Hild vinnur að PhD verkefni sínu sem ber heitið “Arctic Guide Education and Safety”. Í verkefninu leiðir hún saman þrjá skóla sem kenna leiðsögn á norðurslóðum. Fjallamennskunám FAS er íslenski þátttakandinn í verkefninu ásamt menntaskólanum Campus Kujalleq á Suður-Grænlandi og Norges Arktiske Universitet í Tromsö og á Svalbarða. Dagana 15. – 17. febrúar hittum við kennararnir í fjallamennskunáminu í FAS, Barböru og hina þátttakendurna frá Noregi og Grænlandi ásamt Gunnari Jóhannessyni prófessor við Ferðamálafræðideild HÍ, á fundi í Reykjavík.
Verkefnið er virkilega spennandi og á vel við starfið okkar í fjallamennskudeild FAS. Strax á fyrsta fundi mátti sjá marga sameiginlega snertifleti með skólunum á Grænlandi og á Svalbarða. Við heimsóttum ferðaþjónustufyrirtæki og fengum kynningu frá þeim hvernig staðið er að öryggis- og menntunarmálum. Eins var haldin vinnustofa með hagsmunaaðilum úr ferðaþjónustunni þar sem fóru fram líflegar umræður.
Næsta skref verkefnisins er fundur á Svalbarða í lok maí. Þangað höldum við fjögur frá FAS en ásamt fundasetu tökum við þátt í 5 daga gönguskíðaleiðangri á Spitsbergen jöklinum. Leiðangurinn er lokaferð útskriftarnema í Arctic Nature Guide náminu en nemendurnir bjóða allir 1-2 vinum eða fjölskyldumeðlimum í leiðangurinn en nemendurnir eru leiðsögumenn ferðarinnar. Við kennararnir í fjallamennskunáminu fáum því að vera “viðskiptavinir” í ferðinni. Það verður virkilega spennandi og lærdómsríkt að koma til Svalbarða og sjá hvernig kennslan er útfærð þar. Í framhaldinu verður síðasti fundur verkefnisins haldinn á Grænlandi.
Við vonum að verkefnið leiði að sér einhvers konar samstarf skólanna þriggja enda eigum við margt sameiginlegt með þeim. Verkefnið fór vel af stað og við hlökkum til næstu skrefa.
Íris Ragnarsdóttir Pedersen
Í síðustu viku sögðum við frá stúlknabandinu Fókus sem spilaði m.a. á Nýtorgi þegar menningarverðlaun sveitarfélagsins voru afhent og eins á Blúshátíð um síðustu helgi.
Nú er komið í ljós að hljómsveitin tekur þátt í Músiktilraunum og mun spila laugardaginn 25. mars í Hörpu. Hljómsveitin hefur æft stíft undanfarið og flytur bæði frumsamin lög og ábreiður. Núna eru frumsömdu lögin þeirra komin á netið og hægt er að hlusta á þau hér.
Undankvöldin í Músiktilraunum að þessu sinni eru fjögur þar sem um það bil 40 hljómsveitir sækjast eftir því að komast í úrslit. Það verða 10 – 12 hljómsveitir sem komast í úrslit og úrslitakvöldið verður þann 1. apríl.
Okkur finnst frábært að hljómsveitin taki þátt í Músiktilraunum og það verður sannarlega gaman að fylgjast með. Þeir sem eru á höfðuborgarsvæðinu geta farið í Hörpu til að hlusta á bandið. Gert er ráð fyrir að hljómsveitin spili um 19:30. Hægt er að kaupa miða á tix.is. Við óskum okkar konum góðs gengis.
Í dag undirrituðu Steinunn Hödd Harðardóttir þjóðgarðsvörður á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs og Lind Völundardóttir skólameistari FAS yfirlýsingu um samstarf. Með viljayfirlýsingunni er ætlunin að efla samstarf og sýnileika á milli stofnananna í samfélaginu og styðja við sí- og endurmenntun landvarða þjóðgarðsins. Samstarfið mun annars vegar felast í auknu svigrúmi fyrir starfsfólk þjóðgarðsins til að taka áfanga í fjallamennskunámi FAS og hins vegar að FAS nýti þekkingu starfsfólks hjá þjóðgarðinum inn í nám í landvörslu í kennslu og fræðslu bæði fyrir nemendur og kennara.
Bæði þjóðgarðurinn og FAS hafa mörg sameiginleg markmið. Samstarfinu er ætlað að greiða aðgang að þeim. Þar má nefna umhverfis- og náttúruvernd í ferðamennsku, fræðslu og uppbyggingu þjóðgarðsins og tengsl landvarða og starfsmanna í ferðaþjónustu.
Við erum mjög ánægð með þessa viljayfirlýsingu sem mun án efa efla báðar stofnanirnar. Vonast er til að hægt verði að bjóða upp á námið í landvörslu strax í haust.
Nú í lok febrúar og byrjun mars voru haldin tvö námskeið í grunni að fjallaskíðamennsku. Sem fyrr voru námskeiðin gerð út frá Dalvík og að hluta á því frábæra kaffihúsi Bakkabræðra. Lögð var áhersla á skipulag fjallaskíðaferða, leiðarval og landslagslestur, rötun, uppgöngutækni og auðvitað skíðamennsku utan leiða. Nemendur höfðu flestir nýlokið snóflóðanámskeiði sem er nauðsynlegur grunnur til þess að byggja ofan á.
Farið var um víðan völl og fengu nemendur smjörþefinn af því frábæra fjallaskíðalandslagi sem Tröllaskagi og Eyjafjörður hafa upp á að bjóða. Meðal viðfangsefna á námskeiðinu voru klassísk svæði og tindar eins og Karlsárfjall, Kaldbakur, Múlakolla, Hlíðarfjall, Bæjarfjall á Dalvík og fleiri.
Hóparnir tveir fengu vægast sagt ólík skilyrði. Fyrri hópurinn mætti í vorfæri og hita og þurfti víða að leita uppi skafla neðst í fjöllum sem þótti furðulegt ástand í lok febrúar. Skíðafærið var krefjandi en veðrið var með okkur í liði og hópurinn náði fjórum löngum dögum á fjöllum. Stuttu síðar mætti seinni hópurinn norður í fimbulkulda, éljagang og dásamlega mjúkt færi. Það var kærkomið að fá snjóinn aftur enda var skíðamönnum ekki farið að lítast á blikuna í lok febrúar þegar ástandið var sambærilegt maílokum. Veðurskilyrði voru krefjandi en það skemmdi þó ekki fyrir þegar hópurinn neyddist til þess að skíða ferska lausamjöll í lyftunum í Hlíðarfjalli vegna veðurs.
Alltaf er hægt að læra á fjöllum og nemendur fengu tækifæri til þess að nýta kunnáttu sína og snjóflóðaþekkingu til þess að æfa leiðarval, hættumat og ákvarðanatöku í snævi þöktu fjalllendi.
Nú vonum við kennararnir að við höfum náð að smita fleiri FASara af fjallaskíðadellunni enda ekkert skemmtilegra en að renna sér niður eftir góða fjallgöngu!
Kennarar á námskeiðunum voru Erla Guðný Helgadóttir og Daniel Saulite
Í hádeginu í dag mátti heyra flotta músík berast frá Nýheimum. Það var hljómsveitin Fókus sem flutti nokkur lög og voru flest þeirra frumsamin. Hljómsveitina Fókus skipa þær Amylee da Silva Trindade, Alexandra Hernandez, Anna Lára Grétarsdóttir, Arnbjörg Ýr Sigurðardóttir (Abbalónía) og Pia Wrede. Abbalónía kemur frá Selfossi og kynnist hornfirsku snótunum í gegnum Sinfóníuhljómsveit Suðurlands en þær Alexandra og Amylee hafa spilað þar. Pia er skiptinemi frá Þýskalandi og er í FAS þessa önn.
Þær hafa spilað saman síðan í desember 2022 og í þessari viku sendu þær inn umsókn til að fá að taka þátt í Músíktilraunum. En Músiktilraunir er vettvangur fyrir ungt fólk til að koma frumsaminni tónlist á framfæri og fer keppnin að jafnaði fram í seinni hluta mars ár hvert.
Í dag verða menningarverðlaun sveitarfélagsins afhent og Fókus spilar þar. Það verður gaman að fylgjast með stelpunum næstu daga og vikur.