Til hamingju Fókus
Vá – það má segja að þið hafið aldeilis átt erindi í höfuðstaðinn!!
Frábært hjá ykkur og innilega til hamingju með öll verðlaunin. Nú erum við öll í FAS að rifna af monti.
Vá – það má segja að þið hafið aldeilis átt erindi í höfuðstaðinn!!
Frábært hjá ykkur og innilega til hamingju með öll verðlaunin. Nú erum við öll í FAS að rifna af monti.
Á morgun, 1. apríl verður Söngkeppni framhaldsskólanna haldin í Hinu Húsinu og verður streymt beint frá keppninni á Stöð2 Vísi. En eins og við sögðum frá fyrr í vikunni er hún Isabella Tigist að keppa fyrir FAS. Símakosning vegur mikið um úrslit og hefst hún á sama tíma og keppnin sjálf, kl 19:00 og lýkur stuttu eftir síðasta atriði. Símanúmer keppenda FAS er 900-9122 og við hvetjum alla til að fylgjast með keppninni og að sjálfsögðu að styðja okkar keppanda með því að kjósa hana.
Á morgun eru líka úrslit í Músíktilraunum en á síðasta þriðjudag varð ljóst að dómnefnd hafði valið Fókus okkar frá FAS til að taka þátt í úrslitunum. Sú keppni verður í Norðurljósasalnum í Hörpu og hefst klukkan 17:00. Hægt er að horfa á beina útsendingu frá keppninni á RÚV 2. Á úrslitakvöldi er það eingöngu dómnefnd sem velur vinningshafa, en salur og áheyrendur kjósa í símakosningu um Hljómsveit Fólksins.
Við vitum núna að Fókus mun stíga á svið um 18:30 og númerið fyrir símakosninguna er 900-9805. Það kostar 139 kr að hringja
Við óskum okkar fólki góðs gengis á morgun og öllum gleðilegra páska en páskafrí hófst í dag eftir kennslu.
Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir í fjallamennskunáminu okkar í FAS. Námið hefur verið endurskipulagt til að mæta sem best þörfum nemenda. Námið samsett úr verklegum vettvangsáföngum og bóklegu fjarnámi.
Eins og áður er boðið upp á grunnnám í fjallamennsku annars vegar og framhaldsnám hins vegar. Nemendur í grunnnámi hafa val um það hvort þeir taka námið á tveimur önnum eða fjórum. Þeir sem ljúka því námi fá tiltekin réttindi innan fagfélags íslenskra fjallaleiðsögumanna AIMG, og kallast námsleiðin leiðsögumaður með áherslu á jöklaleiðsögn.
Framhaldsnámið er kennt á tveimur önnum og þurfa nemendur að hafa lokið grunnnáminu hjá FAS til að geta sótt þar um. Námsleiðin þar kallast leiðsögumaður með áherslu á fjallgönguleiðsögn og er sérhæft nám í fjallamennsku.
Nú hefur verið tekið upp svokallað einingagjald í fjallamennskunáminu. Fullt nám í eina önn kostar 75.000 krónur og hálft nám 35.000 og á það við bæði um grunnnám og framhaldsnám. Allar nánari upplýsingar um námið er að finna á fjallanam.is og það er líka sótt um á þeirri síðu. Umsóknarfrestur er til 21. apríl.
Fyrir nokkru sögðum við frá því að stúlknabandið Fókus ætlaði að taka þátt í Músiktilraunum en þar hefur fjöldi hljómsveita komið fram fjögur síðustu kvöld í undankeppninni. Hvert kvöld hefur salurinn valið eina hljómsveit áfram og dómnefnd aðra. Það var þó vitað að síðasta kvöldið myndi dómnefnd hugsanlega bæta fleiri hljómsveitum við.
Og í gær varð ljóst hvaða hljómsveitir halda áfram í úrslitin. Þegar dómnefnd bætti við atriðum í úrslitakeppnina var Fókus þar á meðal. Frábært og til hamingju stelpur. Hljómsveitin þarf því að bruna aftur í höfuðborgina og mun taka þátt í úrslitunum sem haldin verða n.k. laugardag, 1. apríl í Hörpu kl.17:00. Hægt er að kaupa miða á tix.is.
Söngkeppni framhaldsskólanna fer einnig fram næsta laugardag og þar á FAS fulltrúa. Það verður því nóg að gera að fylgjast með okkar fólki næsta laugardag. Við óskum öllum góðs gengis og áfram FAS!!
Söngkeppni framhaldsskólanna verður haldin laugardaginn 1. apríl í Hinu húsinu í Reykjavík. Allir framhaldsskólar landsins geta sent einn keppenda fyrir sína hönd. FAS hefur oft tekið þátt í söngkeppninni og svo er einnig nú. Það er hún Isabella Tigist sem verður okkar fulltrúi að þessu sinni. Hún ætlar að flytja lagið „All the pretty girls“ sem hljómsveitin Kaleo samdi fyrir nokkrum árum. Að þessu sinni eiga 28 skólar fulltrúa í keppninni.
Keppnin á laugardaginn hefst klukkan 19 og um leið hefst símakosning. Við hvetjum alla til að fylgjast með keppninni en henni verður streymt á Stöð2/Vísi. Við vitum ekki enn hvaða símanúmer Isabella Tigist fær en við munum að sjálfsögðu uppfæra fréttina þegar þær upplýsingar liggja fyrir. Isabella Tigist er að vonum spennt að taka þátt og auðvitað óskum við henni góðs gengis.
Fjallamennskunemendur FAS fóru í vetrarferð 24. – 28. febrúar og 9. – 13. mars en hópnum var skipt í tvennt. Örlítil áherslubreyting hefur orðið á áfanganum síðan hann var kenndur síðast en meginmarkmið hans nú er að undirbúa nemendur til að hugsa um sig sjálf í vetraraðstæðum, rötun og kynning á grunn-tækniatriðum svo sem snjóakkerum, ísaxarbremsu, hvernig má komast framhjá hnút hangandi í línu og að ganga í línu til að varna falli í sprungu. Ferðirnar voru skipulagðar út frá fjalllendi nálægt höfuðborginni og fyrri ferðin var haldin þar. Seinni ferðin var færð norður á Tröllaskaga þar sem betri aðstæður voru til að kenna áfangann þennan veturinn. Ferðirnar voru því nokkuð ólíkar en nemendur beggja ferða fengu að takast á við að halda á sér hita með réttum klæðaburði og góðum gönguhraða, prófa búnaðinn sinn og læra ný tæknileg atriði og línuvinnu.
Fyrri hópurinn mætti til Reykjavíkur þar sem farið var á Hengil og í Bláfjöll. Veðrið var með hinu versta móti en lægðarbylgjur komu hver á eftir annarri yfir landið. Þrátt fyrir vonskuveður náðu nemendurnir að nýta skilin milli skúra og æfa réttu handtökin í vetrarfjallamennsku. Afnot fékkst af húsnæði FBSR til að læra og æfa tæknilega kunnáttu í línuvinnu. Þar æfðu þau sig m.a. í að binda sig og félaga sína inn í línu og að komast yfir hnút á línunni í þeim ímynduðu aðstæðum að þau hefðu sjálf fallið ofan í sprungu og þyrftu að komast upp úr henni. Tjaldbúðir voru settar upp í Drottningargili Bláfjalla þegar leið undir lok ferðar en þar gafst nemendum færi á kynnast hvernig lífið getur verið í alvöru vosbúð og hversu mikilvægt það getur verið að halda hlutunum þurrum. Heilt yfir gekk áfanginn vel og náðust flest námsmarkmiðin.
Seinni hópurinn mætti á Dalvík og fékk að nýta sér aðstöðu 600 Klifurs á Hjalteyri þar sem þau æfðu sömu línuvinnu og fyrri hópurinn. Daginn eftir var haldið á Heljardalsheiði upp úr Svarfaðardal þar sem hópurinn tjaldaði við Heljuskála í tvær nætur. Mjög kalt var um þessa helgi á landinu öllu og fór frostið niður í um 20 stig þar sem hópurinn hafði tjaldbúðir. Þessi mikli kuldi var ástæða þess að ákveðið var að tjalda við skálann svo hægt væri að nýta hann sem öryggisnet fyrir nemendur. Eftir þrjá daga á fjöllum hélt hópurinn heim eftir að hafa æft hin ýmsu atriði og fínpússað kerfin sín t.d. til að halda á sér hita á nóttunni og bræða snjó til eldamennsku og drykkjarvatns. Hópurinn stóð sig með eindæmum vel og tókst á við áskorunina sem kuldinn veitti þessa vikuna.
Leiðbeinendur í vetrarferðunum voru; Ívar F. Finnbogason, Michael Walker, Svanhvít H. Jóhannsdóttir og Tómas E. Vilhjálmsson. Höfundar greinar; Svanhvít H. Jóhannsdóttir og Tómas E. Vilhjálmsson.