Sjókajaknámskeið FAS

Í apríl fóru fram tvö kajaknámskeið í fjallamennskunáminu. Þar fá nemendur örstutta hvíld frá fjöllunum og upplifa útivist sem er mjög frábrugðin klifri, jöklaferðum og skíðamennsku. Kajaknámskeiðið er frábær viðbót inn í flóru fjallamennskunámsins en þar opnast fyrir nemendum nýjar dyr innan útivistargeirans á Íslandi.  Kennarar námskeiðsins voru Magnús Sigurjónsson, Sigfús Sigfússon, Michael Walker og Erla Guðný Helgadóttir.

Í þessum áfanga byrjuðum við inni í skólastofu fyrir hádegi þar sem farið var yfir sjávarfallafræði, lesið í sjókort, leiðaval á sjó, alls kyns bjarganir og þann helsta búnað sem kayakleiðsögumenn þurfa að hafa með í för. Einnig var farið yfir kajakferðir og leiðsögn á jökullónum, þær hættur sem leynast þar og öryggisatriði.

Annar dagurinn fór í skipulag leiðangurs á kajak en þar þarf að huga að ýmsum þáttum sem nemendur voru margir að kynnast í fyrsta skipti. Hafstraumar og sjávarföll eru hugtök og fræði sem þarf að læra á til þess að skipuleggja góðan leiðangur á kajak. Nemendur fengu þó að sjálfsögðu einnig að spreyta sig á tækni og var haldið út á sjó. Þar fengu nemendur tækifæri til þess að kynnast hafstraumum, læra ýmsa róðratækni, æfa félagabjarganir, leiðsögutækni og leiðaval svo eitthvað sé nefnt.

Á fjórða og síðasta degi námskeiðsins æfðu nemendur leiðaval, að leiða hóp og einnig fékkst þar tækifæri til þess að æfa enn betur þá tækni sem kynnt var dagana áður. Þau fengu einnig að prófa svokallaða sit on top báta og æfðu félagabjörgun á þeim. Hópur tvö fékk tækifæri til þess að prófa kajakveltuna í sundlauginni á Höfn en það var ekki möguleiki fyrir fyrri hópinn.

Veðrið hjá báðum hópum var með ýmsu móti en að mestu gott þó að stundum hafi blásið hressilega. Kennarahópurinn var hæstánægður með frammistöðu nemenda og vonast til þess að þau geti nýtt sér öll þau tæki og tól sem þau öðluðust á námskeiðinu í náinni framtíð. Nú ættu nemendur að vera tilbúnir í næsta kajakævintýri!

[modula id=“12717″]

Rafræn ráðstefna í FAS

Lokaráðstefna ADVENT var haldin sem netráðstefna 6. nóvember 2020. Ráðstefnan fór fram í gegnum Teams og var hún tekin upp með það að markmiði að birta upptökuna á heimasíðu verkefnisins.

Þátttakendur á ráðstefnunni voru frá samstarfslöndunum, Finnlandi, Skotlandi og Íslandi. Þegar fjöldi þátttakenda var mestur voru 28 tölvur tengdar og í sumum tilfellum voru fleiri en einn á bak við hverja tengingu.

Áhugaverð erindi voru flutt á ráðstefnunni og verkefnið og námskeiðin sem þróuð voru á verkefnatímanum voru kynnt. Umræður fóru fram í lok ráðstefnunnar og kom þar fram almenn ánægja með afrakstur verkefnisins og þau tengsl sem hafa myndast á milli skóla, rannsóknarstofnanna og ferðaþjónustufyrirtækja, jafnt innanlands sem og á milli landa.

Ýmsir tæknilegir örðugleikar settu mark sitt á ráðstefnuna og vantar t.d. nokkrar mínútur fremst og aftast á upptökuna. Beðist er velvirðingar á því en upptakan er nú aðgengileg á vefsíðu ADVENT; http://adventureedu.eu/is/news/41

ADVENT verkefninu lýkur í lok desember en erlenda samstarfið í FAS heldur áfram, kannski ekki af þeim krafti sem við hefðum helst viljað og er ástæðan COVID-19.

Í gangi eru samt fjögur önnur erlend verkefni; Promount – Aukin fagmennska í fjallamennskunámi sem er náms- og þjálfunarverkefni, DETOUR – Destinations: Wellbeing Tourism Oppertunities for Regions sem er verkefni tengt uppbyggingu í ferðaþjónustu, Menningartengda nemendaskiptaverkefnið Cultural Heretage in the Context of Students Carriers og nemendaskiptaverkefnið Geoheritage, culture and sustainable communities in rural areas in Finland, Iceland and Norway þar sem unnið í nærumhverfi þátttökulandanna.

FAS vinnur að því að efla erlend samskipti enn frekar og er skólinn nú með umsókn hjá Erasmus+ varðandi leiðir til einfaldara aðgengis að náms- og þjálfunarverkefnum fyrir bæði nemendur og starfsfólk skólans.

[modula id=“10895″]

 

Skilaboð frá stoðteyminu

Komið þið sælir kæru nemendur,

Á meðan þetta ástand varir mun margt vera öðruvísi og ljóst að meira mæðir á öllum. Á meðan kennarar og nemendur finna taktinn í hvernig kennslan fer fram þá er nauðsynlegt að draga djúpt andann og muna að þessu ástandi mun linna. Foreldrar og forráðamenn skipta miklu máli í þessu öllu saman, gott að hvetja nemendur áfram og reiða fram hjálparhönd ef þess þarf og aðstæður leyfa.

Við hér í stoðteymi FAS erum öll að vilja gerð að veita þá aðstoð sem við getum veitt og hvetjum ykkur til að hafa samband. Við munum vera til staðar í gegnum netspjall (Teams) og tölvupósta auk þess sem hægt er að spjalla saman í síma. Einnig hvetjum við ykkur til að fylgjast vel með á Instagram en þar munum við deila með ykkur hjálplegum ráðum.

Fagkennarar geta alltaf veitt betri upplýsingar sem snúa beint að náminu og ég minni á að allir nemendur eiga einnig umsjónarkennara sem gott er að geta snúið sér til.

Númer eitt, tvö og þrjú er að leggja ekki árar í bát heldur standa saman og muna að við komumst yfir þetta.

Bestu kveðjur,

Fríður fridur@fas.is

Aðalheiður adalheidurth@fas.is

Nýnemaviðtölum frestað vegna COVID-19

Vegna takmörkunar  á skólastarfi í FAS verður nýnemaviðtölum frestað í óákveðinn tíma. Við hvetjum ykkur þó til að ljúka við skráningu í framhaldsskóla þrátt fyrir að viðtöl fari ekki fram.

Frestur til forinnritunar rennur út 13. apríl næstkomandi. Sjá hér nánar um skráningu í framhaldskóla: https://mms.is/um-innritun. Hægt er að skoða allar námsbrautir á heimasíðum skólanna, t.d á fas.is.

Viðtöl munu fara fram eins fljótt og auðið er. Þá er hægt að yfirfara skráningu og breyta ef þess þarf. Ef einhverjar spurningar vakna hikið þá ekki við að hafa samband.

Bestu kveðjur,

Fríður Hilda Hafsteinsdóttir, starfs- og námsráðgjafi (fridur@fas.is) og Hildur Þórsdóttir, áfangastjóri (hildur@fas.is)