Opnir dagar í FAS í næstu viku

Í næstu viku verða þrír fyrstu virku dagar vikunnar helgaðir opnum dögum. Þá verða skólabækurnar settar til hliðar og nemendur fást við sitthvað annað þar sem frumkvæði og sköpun verður í fyrirrúmi. Opnir dagar eru hluti af námsframboði skólans og allir verða að taka a.m.k. tvisvar þátt í þeim á sinni skólagöngu.

Fyrr í þessari viku var haldin kynning á því hvaða hópar verða í boði á opnum dögum og þar er margt spennandi í boði. Það eru þó takmarkanir á því hversu margir geta verið í hverjum hópi. Fjölmennastur er árshátíðarhópurinn en árshátíð FAS verður haldin fimmtudaginn 5. mars í Sindrabæ.

Þeim sem enn eiga eftir að skrá sig er bent á skráningarblöð inni á lesstofu. Það þarf þó að gerast í dag, fimmtudag 27. febrúar. Þeir sem ekki velja hópa verður skipað niður í hópa eftir því sem þurfa þykir.

Styttist í árshátíð FAS

Áfram flýgur tíminn og farið að styttast í opna daga í FAS. Þeir verða 2. – 4. mars næstkomandi en á opnum dögum er ekki hefðbundin kennsla en nemendur vinna í hópum að ýmsum verkefnum.

Hápunktur opinna daga er árshátíð FAS en strax í upphafi annar fór nemendaráð að undirbúa þennan stórviðburð ársins. Árshátíðin verður að þessu sinni í Sindrabæ fimmtudaginn 5. mars. Fyrir lítinn skóla eins og FAS fylgir því töluverður kostnaður að halda árshátíð og til þess að mæta þeim kostnaði þurfa nemendur að safna pening.

Á morgun, föstudaginn 21. febrúar munu nemendur FAS vera með kökubasar í Nettó. Þar verður ýmiskonar góðgæti á boðstólum og hefst salan klukkan 15:30. Við hvetjum alla til að styrkja nemendafélag FAS og fá sér gott í gogginn fyrir helgina og styrkja um leið gott málefni unga fólksins okkar.

Ástráður með kynfræðslu

Í dag komu til okkar góðir gestir og af því tilefni var efnt til uppbrots. Það voru nemendur frá Ástráði en það er nafnið á kynfræðslufélagi læknanema en læknanemar hafa um margra ára bil farið í framhaldsskóla og elstu bekki grunnskóla með fræðslu. Það voru nemendur FAS og nemendur úr 10. bekk grunnskólans sem voru boðaðir á uppbrotið í dag.

Læknanemarnir eru hingað komnir til að fræða nemendur um allt það sem viðkemur kynheilbrigði og kynlífi. Nemendum gafst líka kostur á því að bera fram spurningar. Það þarf ekki að tíunda hversu mikilvægt er að nemendur fái sem besta fræðslu því margir eru á þessum árum að stíga sín fyrstu skref í kynlífi.

Við þökkum gestunum kærlega fyrir komuna í dag.

NemFAS skorar hátt í mannréttindabaráttu

Árlega stendur Amnesty International fyrir herferð þar sem sérstaklega er verið að skoða mál ungmenna sem oft sæta svívirði­legum mann­rétt­inda­brotum, allt frá lögreglu­of­beldi til dauðarefs­ingar. Þetta er jafnframt stærsti viðburður ársins hjá samtökunum. Herferðin kallaðist Þitt nafn bjargar lífi og fór fram í lok síðasta árs.
Amnesty skiptir herferðinni upp í nokkra flokka og eru framhaldsskólar landsins í einum flokknum.
Að sjálfsögðu tók FAS þátt í átakinu og eflaust muna margir eftir fulltrúum frá nemendafélaginu sem stóðu vaktina á jólahátíð í Nýheimum í lok nóvember. Þar seldu nemendur veitingar og söfnuðu um leið undirskriftum.
Í síðustu viku fékk svo NemFAS póst með upplýsingum úr átakinu. Þar kemur fram að í herferðinni árið 2019 hafi safnast 86.886 undirskriftir undir bréf til stjórnvalda víða um heim sem brjóta mannréttindi. Það var Kvennaskólinn í Reykjavík sem bar sigur úr býtum annað árið í röð í framhaldsskólakeppninni og hlýtur þar með titilinn Mannréttindaframhaldsskóli ársins en skólinn safnaði alls 1936 undirskriftum til stuðnings þolendum mannréttindabrota. Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu safnaði hins vegar flestum undirskriftum miðað við nemendafjölda eða 673 undirskriftum og hlýtur því titilinn Mannréttindaframhaldsskóli ársins í þeim flokki.
Fulltrúar frá Amnesty eru væntanlegir til okkar í FAS á næstunni og ætla að færa nemendum farrandbikar og viðurkenningarskjal og gleðjast saman yfir árangrinum.
Vel gert nemendur! Til hamingju.

 

Skólahald fellur niður

Vegna rauðrar viðvörunar og tilmæla frá viðbragðsaðilum mun skólahald í FAS falla niður á morgun 14. febrúar.

Samningar í afreksíþróttum

Undirritun saminga um afreksíþróttir.

Undirritun saminga um afreksíþróttir.

Í haust bættist í námsframboð FAS þegar áfanginn Afreksíþróttir bættist við. Margir nemenda okkar stunda reglulega íþróttir og eru jafnvel að æfa með liðum innan Sindra. Oft fer saman íþróttaiðkunin og áhugamál viðkomandi og með tilkomu áfangans geta nemendur fengið einingar sem nýtast í náminu í FAS.
Núna eru 11 nemendur skráðir í áfangann og í síðustu viku undirrituðu níu þeirra samning við FAS. Í samningnum er kveðið á um að hver nemandi skuldbindi sig til að; framfylgja skólareglum, sinna námi sínu af kostgæfni, mæta á æfingar og vera fyrirmynd annarra hvað varðar heilsusamlegt líferni. Síðast en ekki síst þurfa þeir að skrá reglulega upplýsingar um æfingar, innihald þeirra og tímasetningar.
Þjálfari Sindra fylgist með þjálfun hvers nemanda og staðfestir að skráningar séu réttar. Íþróttakennari í FAS heldur utan um námið og ber ábyrgð á samstarfinu.
Þessi samingur er mikilvægur áfangi fyrir bæði nemendur og skólann. Hann ætti að hjálpa nemendum að skipuleggja sig bæði hvað varðar nám í skólanum og eins viðkomandi íþróttagrein. Eins og flestir vita er regluleg ástundun og gott skipulag lykillinn að ná árangri.