Jöklaferð fjallamennskunámsins

Áfanginn jöklaferðir var kenndur í tveimur hópum í lok september og byrjun október. Markmið áfangans er að kynna nemendur fyrir skriðjöklum og kveikja áhuga þeirra á ferðalögum á þeim. Nemendur lærðu að byggja akkeri í ís, síga og júmma og búa til hífingu. Að þessu sinni heimsóttum við Svínafellsjökul, Virkisjökul, Falljökul og Kvíárjökul. Veðrið var með eindæmum gott að frátöldum síðasta degi fyrra námskeiðs þar sem óveður geisaði á öllu landinu og hættum við því degi fyrr.

Við erum hæst ánægð með frammistöðu nemendahópsins og vonum að þau haldi áfram að auka þekkingu sína á skriðjöklum og ferðalögum á þeim.

Árni Stefán, Elín Lóa og Íris Ragnarsdóttir

Rafhorn gefur billjardkjuða

Á síðasta ári safnaði NemFAS fyrir nýju billjardborði sem er staðsett í miðrými skólans á efri hæð þar sem nemendur hafa aðstöðu. Þetta borð ásamt fótboltaspili er mikið notað sem er frábært.

Vegna mikillar notkunar voru billjardkjuðarnir orðnir lúnir og til lítils gagns. Einn nemandi úr nemendaráði FAS hafði samband við Rafhorn og bað um styrk til kaupa á nýjum kjuðum. Erindinu var vel tekið og í vikunni komu nýir kjuðar í hús nemendum til mikillar gleði.

Við þökkum Rafhorni kærlega fyrir stuðninginn.

Íþróttavika Evrópu

Vikan sem rann sitt skeið var tileinkuð íþróttum bæði á Íslandi og í Evrópu. Það var fjölbreytt dagskrá í FAS í vikunni af þessu tilefni og voru bæði nemendur og kennarar sem tóku þátt.

Vikan hófst með að skólinn ákvað að bjóða nemendum og starfsfólki FAS upp á frían hafragraut í morgunpásunni og var því vel tekið. Í hádegishléum var keppt í fótboltaspili og hafa bæði nemendur og kennarar átt lið. Á miðvikudagskvöldið var „snjóboltastríð“ í íþróttahúsinu þar sem bæði nemendur og kennarar sýndu snilli sína.

Á fimmtudagsmorgun var Viðar Halldórsson félagsfræðingur með fyrirlestur um hvernig félagsleg samskipti hafa áhrif á líðan og árangur. Í kjölfarið á fyrirlestri Viðars var blásið til badmintonsmóts í íþróttahúsinu sem gekk ljómandi vel.

Íþróttavikunni lauk síðan eftir kennslu á föstudag þar sem keppt var til úrslita í fótboltaspilinu. Þar urðu sigurvegarar þær Amylee og Selma Ýr og fengu að launum viðurkenningarskjal og kökubita frá Agnesi.

Þetta var skemmtileg vika og gefandi vika.

 

Á leið til Noregs

Á morgun leggur af stað hópur nemenda áleiðis til Noregs en það eru þátttakendur í verkefninu Geoheritage, culture and sustainable communities in rural areas in Finland, Iceland and Norway sem er styrkt af Nordplus Junior. Þetta er þriðja og síðasta árið í verkefninu og þar er verið að vinna með valin heimsmarkmið.
Frá skólabyrjun hefur hópurinn verið að undirbúa ferðina og mun þar bæði kynna land og þjóð og eins taka þátt í verkefnavinnu tengda heimsmarkmiði 14 sem fjallar um líf í vatni. Hópurinn flýgur til Oslóar á sunnudagsmorgun og hittir þar hóp frá samstarfsskólanum í Finnlandi. Þaðan bíður okkar langt ferðalag til Brønnøysund en þangað ætti hópurinn að vera kominn á sunnudagskvöld. Næsta vika verður síðan nýtt til ýmis konar vinnu.
Hægt verður að fylgjast með ferðum hópsins á https://geoheritage.fas.is/

Fjallamennskunemar í gönguferð

Annar áfangi þessa skólavetrar hjá Fjallamennskunámi FAS hófst 1. september þegar nemendur komu í áfangann Gönguferð á Höfn. Í áfanganum er megináhersla lögð á að kenna og æfa rötun og leiðaval og allt það helsta sem tengist göngu með allt á bakinu og tjaldbúðalífi.

Fyrsti dagurinn fór í kennslu á kort og áttavita og undirbúning fyrir gönguna. Á öðrum degi áfangans hélt hópurinn svo af stað í fimm daga göngu. Hópurinn, tuttugu og þrír nemendur og fimm kennarar, lögðu af stað upp Hofsdal í Álftafirði, gengu inn á Lónsöræfi og enduðu á Illakambi. Gist var í fjórar nætur í tjöldum. Veðurskilyrði voru mjög góð en það rigndi tvö kvöld af fjórum en enginn vindur var.

Hópurinn gekk upp í svartaþoku þegar komið var upp úr Jökulgilinu, nærri Hofsjökli. Það gerði rötunaræfingar með korti, símaforritum og áttavita mun raunverulegri og nauðsynlegar. Þá var kærkomið útsýnið í átt að Jökulsá og Kömbum þegar rofaði til. Gangan yfir Morsá og í Víðidal var sólrík og þaðan hafði hópurinn útsýni inn á austanverðan Vatnajökul. Kíkt var ofan í Tröllakróka á leið í Múlaskála og bæði Axarfellsjökull og Snæfell blöstu við. Í ferðinni skiptust nemendur á að leiða hópinn og velja hentuga gönguleið á degi hverjum.

Áfanginn endaði svo þann 7. september á frágangi búnaðar og stuttri æfingu í þverun straumvatns í Laxá í Nesjum.

 

Möguleikar á námi eða starfi erlendis

Í dag var komið að fyrsta uppbroti vetrarins. Það var kynning frá Rannís um alla þá möguleika sem ungt fólk hefur í dag til að dvelja erlendis um tíma í námi eða starfi. Þar er svo sannarlega margt í boði. Það má t.d. nefna skiptinám & starfsnám á vegum Erasmus+, nám á eigin vegum, sjálfboðaliðastörf eða samfélagsverkefni.

Vefsíðan farabara.is var kynnt en þar er hægt að finna gagnlegar upplýsingar um lönd sem hægt er að sækja styrki til. Þá var líka sagt frá því hvernig hægt sé að búa til rafræna ferilskrá á europass.is á 30 mismunandi tungumálum.

Þá fengum við kynningu á öllum þeim möguleikum sem eru í boði varðandi sjálfboðaliðastarf. Þar er svo sannarlega margt í boði. Á vefsíðunni European Youth Portal er hægt að finna margs konar upplýsingar er varða sjálfboðaliðastörf. Instagram reikningurinn Eurodesk Iceland inniheldur líka mikið af gagnlegum upplýsingum fyrir þá sem vilja fara erlendis í nám eða starf.

Við þökkum þeim Óla Erni og Ara frá Rannís  kærlega fyrir skemmtilega og gagnlega kynningu og hvetjum okkar fólk til að kynna sér alla þá möguleika sem í boði eru.