Skólahald fellur niður í FAS

Samkvæmt ákvörðun yfirvalda þá fellur skólahald í FAS niður næstu fjórar vikur. Í samræmi við þetta hafa eftirfarandi ákvarðanir verið teknar varðandi skólahald í FAS:

  • Miðað við skóladagatal FAS þá fellur skólahald niður frá 16. mars til 3. apríl.
  • Mjög mikilvægt að skoða FAS póstinn daglega.
  • Nám og kennsla mun halda áfram á fjarkennsluformi.
  • Allir nemendur eru nú skilgreindir sem fjarnemendur og fá U í Innu.
  • Kennsla fer fram samkvæmt stundaskrá, fyrsti tími í öllum áföngum verður kenndur í gegnum Office Teams. Hægt er að tengjast í gegnum tölvur og snjalltæki.
  • Leiðbeiningar um notkun Teams
  • Þeir nemendur sem mæta á Teams fundi fá merkta mætingu í Innu.
  • Kennari í hverjum áfanga upplýsir nemendur um fyrirkomulag að öðru leyti.
  • Nemendur geta nálgast bækurnar sínar og önnur námsgögn í skólann.
  • Mikilvægt að skoða FAS vefinn reglulega.
  • Veitingasala Nýheima verður lokuð.

Mikilvægt er að nemendur séu virkir og beri ábyrgð á námi sínu. Ef það kemur til vandræða þá skal leita eftir aðstoð. Sendið póst á viðkomandi kennara, umsjónarkennara eða námsráðgjafa.
Foreldrar eru hvattir til að styðja og hvetja nemendur til þrautseigju á þessum óvissutímum.

 

Starfsfólk FAS

Skólahald fellur niður

Vegna rauðrar viðvörunar og tilmæla frá viðbragðsaðilum mun skólahald í FAS falla niður á morgun 14. febrúar.

Leiklist í FAS

Í gær fimmtudaginn 9. janúar var haldinn kynningarfundur vegna uppsetningar á leikverki á vorönn.  Líkt og undanfarin ár vinnur skólinn með Leikfélagi Hornafjarðar að uppsetningunni.  Blái hnötturinn eftir Andra Snæ Magnason er viðfangsefnið og leikstjóri er Þröstur Guðbjartsson.  Í texta um Bláa hnöttinn segir:

Á bláum hnetti lengst úti í geimnum búa ótal börn sem fullorðnast ekki. Þetta eru eiginlega villibörn því enginn skipar þeim fyrir verkum. Börnin sofna þar sem þau verða þreytt og borða þegar þau eru svöng en leika sér þar sem þeim dettur í hug. Eitt kvöldið þegar Brimir og Hulda eru stödd í Svörtufjöru birtist stjarna á himni sem stefnir beint á þau! Stjarnan lendir í fjörunni með mikilli sprengingu en í reyknum mótar fyrir skuggalegri veru sem starir út í myrkrið. Þá hefst hættulegt ævintýri sem leiðir börnin um myrka skóga, djúpa dali og loftin blá. Reynir þá sem aldrei fyrr á vináttu og ráðsnilld barnanna á bláa hnettinum.

Æfingar hefjast mánudaginn 20. janúar og áætluð frumsýning er í lok mars í Mánagarði.  Uppsetningin er hluti af námi á lista- og menningarsviði í FAS og koma allir kennarar sviðsins að henni.  Þátttaka í verkefninu er þó einnig opin fyrir aðra eins og verið hefur.

Gettu Betur – Sigur

– Uppfært : FAS hafði betur gegn Framhaldsskólanum á Húsavík 19-9 og eru kominn áfram í næstu umferð.

Líkt og undanfarin ár tekur Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu þátt í Gettu Betur. Liðið að þessu sinni skipa þau Björgvin Freyr Larsson, Ingunn Ósk Grétarsdóttir og Oddleifur Eiríksson en þjálfari liðsins er Sigurður Óskar Jónsson, fyrrum nemandi í FAS og þátttakandi í Gettu Betur. Síðustu mánuði hafa farið fram stífar æfingar hjá liðinu en varamenn hafa einnig tekið þátt í þeim.

Í kvöld, 6. janúar, mun fyrsta viðureign keppninnar fara fram en Framhaldsskóli Austur-Skaftafellssýslu keppir á móti Framhaldsskólanum á Húsavík klukkan 20:30. Keppninni verður ekki útvarpað en hægt er að nálgast hana á vefnum ef smellt er á meðfylgjandi hlekk. Við sendum liðinu góða strauma með von um gott gengi.

https://www.ruv.is/null

Fleiri styrkir til FAS

FAS hefur lagt mikla áherslu á erlent samstarf á liðnum árum og er ekkert lát á því. Þetta samstarf hefur m.a. verið styrkt af Menntaáætlun Evrópusambandsins, Erasmus+ og Nordplus svo eitthvað sé nefnt. Tvö verkefni eru í gangi þessi misserin; annað tengist listasviði skólans og hitt menntun í ferðaþjónustu og útivist.

Það er gaman að greina frá því að FAS hefur nýlega hlotið tvo nýja styrki frá Erasmus+ fyrir verkefni sem bæði tengjast menntun á sviði ferðaþjónustu og fjallamennsku. Annað verkefnið kallast Aukin fagmennska í fjallamennskunámi. Þetta er nemenda- og kennaraskiptaverkefni sem felst í því að tveir nemendur og kennarar sem tengjast fjallamennskusviði skólans fá styrk til að fara erlendis í tveggja vikna náms- og kynnisdvöl. Skóli í Skotlandi, The school of adventure studies hefur orðið fyrir valinu sem samstarfsskóli en hann er hluti af háskólanum The University of the Highlands and Islands. Stefnt er að því að fara í þessa námsferð í mars 2020. Þetta finnst okkur frábært því dvölin ytra verður bæði viðbót og dýpkun á því sem nemendur hafa þegar lært í fjallamennskunáminu í FAS.

Hitt verkefnið er samstarfsverkefni sex landa; Portúgals, Bretlands, Slóveníu, Írlands, Danmerkur og Íslands. Verkefnið heitir á ensku Destinations: Wellbeing Tourism Opportunities for Regions, skammstafað DETOUR. Þetta er ekki nemendaskiptaverkefni en snýst um að kanna og hanna leiðir til að efla heilsutengda ferðaþjónustu í tengslum við áfangastaði, menntastofnanir og ferðaþjónustufyrirtæki í nærumhverfi þátttökustofnananna. Þetta er tveggja ára verkefni sem hefst í desember. Það verður gaman að fylgjst með framvindu þessara verkefna.