Skólahald fellur niður í FAS

Samkvæmt ákvörðun yfirvalda þá fellur skólahald í FAS niður næstu fjórar vikur. Í samræmi við þetta hafa eftirfarandi ákvarðanir verið teknar varðandi skólahald í FAS:

  • Miðað við skóladagatal FAS þá fellur skólahald niður frá 16. mars til 3. apríl.
  • Mjög mikilvægt að skoða FAS póstinn daglega.
  • Nám og kennsla mun halda áfram á fjarkennsluformi.
  • Allir nemendur eru nú skilgreindir sem fjarnemendur og fá U í Innu.
  • Kennsla fer fram samkvæmt stundaskrá, fyrsti tími í öllum áföngum verður kenndur í gegnum Office Teams. Hægt er að tengjast í gegnum tölvur og snjalltæki.
  • Leiðbeiningar um notkun Teams
  • Þeir nemendur sem mæta á Teams fundi fá merkta mætingu í Innu.
  • Kennari í hverjum áfanga upplýsir nemendur um fyrirkomulag að öðru leyti.
  • Nemendur geta nálgast bækurnar sínar og önnur námsgögn í skólann.
  • Mikilvægt að skoða FAS vefinn reglulega.
  • Veitingasala Nýheima verður lokuð.

Mikilvægt er að nemendur séu virkir og beri ábyrgð á námi sínu. Ef það kemur til vandræða þá skal leita eftir aðstoð. Sendið póst á viðkomandi kennara, umsjónarkennara eða námsráðgjafa.
Foreldrar eru hvattir til að styðja og hvetja nemendur til þrautseigju á þessum óvissutímum.

 

Starfsfólk FAS

Meira um viðbrögð vegna veirunnar COVID-19

Í morgun var haldinn fundur með nemendum og starfsfólki FAS. Þar var öllum bent á tengilinn á heimasíðu FAS þar sem er að finna allar nýjustu upplýsingar sem varða veiruna. Við leggjum mikla áherslu á að allir skoði þá síðu reglulega sem og fréttasíðu skólans þar sem ávallt verður að finna nýjustu upplýsingar um áhrif veirunnar á skólastarfið.

Komi til þess að skólanum verði lokað mun skólastarf halda áfram í langflestum áföngum í gegnum fjarkennslu. Tveir starfsmenn ákváðu t.d. að fara varlega og kenndu að heiman í dag. Þó kennari sé ekki á staðnum er hægt að halda uppi kennslu í gegnum fjarfundabúnað. Nemendur sátu í skólastofunni og fylgdust með á skjá og gátu bæði hlustað á útskýringar og spurt spurninga.

 

Viðbrögð í FAS við COVID-19

Það hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni að óvenjulegt ástand er í þjóðfélaginu vegna COVID-19 veirunnar. Þess vegna hefur verið settur tengill á síðu FAS  á síðu landlæknis þar sem öllum upplýsingum sem máli skipta er komið á framfæri. Við hvetjum alla til að skoða þá síðu reglulega til að vera sem best upplýstir.

Upplýsingar og ákvarðanir sem lúta að FAS sérstaklega verða birtar hér á fréttasíðu FAS. Nú hefur verið tekin ákvörðun um að hætta við ferð nemenda og kennara í fjallamennsku til Skotlands. Einnig að sjálfsafgreiðslu í veitingasölunni hefur verið hætt og er nú skammtað á diska. Þetta er gert til að draga úr hættu á smiti. Í skoðun er hvort sýningar verði á Bláa hnettinum í lok þessa mánaðar eins og fyrirhugað var. Varðandi þrif í húsinu þá eru snertifletir þrifnir sérstaklega á hverjum degi og borð og stólar oftar en áður.

Á þessum tímum er mikilvægt að allir fari að leiðbeiningum landlæknis varðandi handþvott, hegðun og þrif. Á þann hátt getum við dregið úr líkum á smiti.

Á morgun, fimmtudag 12. mars klukkan 9:50 verður fundur á Nýtorgi með nemendum og starfsfólki um viðbrögð FAS við COVID-19 og ætlumst við til að allir mæti þar.