Landmótun jökla við Heinaberg

09.nóv.2023

Það hefur lengi verið lögð áhersla á ýmis konar náttúruskoðun í FAS. Eitt af því sem hefur verið gert lengi er að fylgjast með og mæla framskrið eða hop jökla og hefur ýmist verið farið að Fláajökli eða Heinabergsjökli. Í allmörg ár var fjarlægð mæld frá ákveðnum punktum á landi að jökuljaðrinum og kröfðust þær ferðir vandaðra vinnubragða við mælingar og svo þurfti að notast við aðferðir stærðfræðinnar til að reikna út fjarlægðir. Það voru tveir mælipunktar á jökulruðningunum fyrir framan Heinabergsjökul sem var stuðst við.

Við höfum öll tekið eftir miklum og örum breytingum á náttúrunni undanfarin ár sem má að stórum hluta rekja til loftslagsbreytinga. Árið 2017 höfðu orðið svo miklar breytingar á Heinabergslóni að ekki var lengur hægt að styðjast við nyrðri mælipunktinn. Þar sem áður lá jökull mátti sjá jaka fljótandi í lóninu. En áfram héldu mælingarnar við syðri mælipunktinn en þar hafði jökulinn virst fremur stöðugur.

Það var svo árið 2020 sem Náttúrustofa Suðausturlands styrk frá Loftslagssjóði til þess að fljúga yfir jökla landsins og taka myndir af þeim, í því skyni að nýta til ýmissa rannsókna. Það var Snævarr Guðmundsson sem þekkir hvað best til jöklanna hér um slóðir sem fékk það hlutverk að taka myndirnar. Þá kom í ljós að syðri hluti Heinabergsjökull var ekki lengur virkur hluti skriðjökulsins heldur í raun risavaxinn ísjaki sem bíður örlaga sinna. Við höfum samt fylgst nokkuð með stöðu þessa mikla ísjaka síðustu ár.

Þessar miklu breytingar á umhverfinu hafa kallað á breytingar á ferðinni með nemendur FAS. Nú tölum við ekki lengur um jöklamælingaferð heldur skoðunarferð þar sem sjónum er sérstaklega beint að landmótun jökla og hvernig megi „lesa“ í landið og sjá ummerki um hvar jökulinn hefur verið. Og þar er af nógu að taka.

Ferðin í dag hófst við brúna yfir Heinabergsvötn. Það eru alltaf nokkrir í hópnum sem hafa ekki farið á þetta svæði og vita því ekki af þessari brú eða að þarna hafi þjóðvegurinn legið eitt sinn. Frá brúnni er síðan gengið inn að lóninu fyrir framan Heinabergsjökul. Á leiðinni er staldrað alloft við og lesið í landið. Í ferðinni í dag vorum við t.d. að skoða árfarvegi, jökulruðninga, jökulkembu, landmótun jökla uppi í fjöllum, gróðurframvindu, veðrun og mismunandi grjót og hversu vel eða illa það veðrast. Frá lóninu lá síðan leiðin fram hjá gömlu mælingarpunktunum og á bílaplanið fyrir framan Heinabergslónið þar sem rútan beið eftir okkur. Ferðin í dag gekk ljómandi vel og gera má ráð fyrir að allir hafi komið heim reynslunni ríkari.

Aðrar fréttir

Nám í landvörslu við FAS

Nám í landvörslu við FAS

Í síðustu viku sögðum við frá því að það hefði náðst samkomulag um að halda áfram námi í fjallamennsku út skólaárið og fögnum við þeim áfanga. Á næstu vorönn verður í boði í fjallanáminu valáfangi sem heitir „Landvarsla“. FAS fékk fyrir stuttu staðfest leyfi...

Fréttir af fjallamennskunámi FAS

Fréttir af fjallamennskunámi FAS

Síðustu vikur og mánuði hefur mikið verið í gangi varðandi fjallamennskunámið í FAS. Í upphafi skólaárs var staðan sú að námið var tryggt fram að áramótum en framhaldið óljóst. Mikil vinna hefur átt sér stað undanfarið sem margir hafa komið að, ekki síst fulltrúar...

Lesið í landið

Lesið í landið

Það hefur lengi verið lögð áhersla á ýmis konar náttúruskoðun í FAS. Í marga áratugi var sérstaklega fylgst með skriðjöklum og reynt að mæla hvort þeir væru að ganga fram eða hopa. Flestar ferðirnar með nemendur voru að Heinabergsjökli. Þá var mæld fjarlægð frá...