Það er heldur betur fjör í Nýheimum í dag því nú stendur yfir Starfastefnumót. Það eru ríflega 40 fyrirtæki og stofnanir sem kynna starfsemi sína sem svo sannarlega endurspegla atvinnulífið í landinu. Að sjálfsögðu tekur FAS þátt og eru nemendur okkar áberandi við ýmis störf í dag. Frá því á mánudag hafa staðið yfir svokallaðir Vísindadagar í skólanum og var ákveðið að tengja þá Starfastefnumótinu að þessu sinni.
Það er mikilvægt að kynna fyrir samfélaginu hversu mörg störf eru innt af hendi á okkar svæði. Þá er líka mikilvægt fyrir unga fólkið okkar að sjá við hvað væri hægt að starfa í framtíðinni og vera með búsetu á svæðinu.
Kynningarbásarnir á Starfastefnumótinu verða opnir til 16:30 í dag og við hvetjum alla til að kíkja við í Nýheimum í dag.