Vel heppnaður nýnemadagur

Tíminn um og eftir hádegi í gær var helgaður nýnemum sem eru nú að kynnast nýjum skóla. Það var nemendaráð sem hafði veg og vanda að skipulagi dagsins.
Dagskráin hófst með því að boðið var upp á grillaða hamborgara á Nýtorgi og voru þeim gerð góð skil. Að málsverði loknum var öllum staðnemendum skólans skipt í hópa. Hver hópur átti að vinna saman og leysa ýmsar þrautir. Reyna átti að leysa eins margar þrautir og hægt var á einum klukkutíma. Það þurfti að taka mynd af hverri þraut til að geta sannað að hún hafi verið leyst. Fyrir hverja þraut fengust svo stig en mismörg eftir erfiðleikastigi.
Það var ekki annað að sjá en nemendur skemmtu sér ágætlega og stigin hrúguðust saman hjá hópunum. Þegar nemendaráð hefur farið yfir hvaða þrautir voru leystar og hversu mörg stig áunnust er það ljóst að það var hópur 2 sem bar sigur úr býtum með 184 stig. Sá hópur á von á smá glaðningi fljótlega.