Óflokkað

Styttist í Austfirsku Ólympíuleikana

Það er mikið um að vera hjá nemendaráði FAS þessa dagana. Næsta föstudag eigum við von á góðum gestum frá Menntaskólanum á Egilsstöðum og Verkmenntaskóla Austurlands. Um er að ræða bæði nemendur og kennara.

Gert er ráð fyrir að gestirnir komi um hádegisbil og byrji á því að snæða hádegisverð í boði FAS. Eftir matinn verður síðan haldið í íþróttahúsið þar sem nemendur munu reyna með sér í ýmsum keppnum og þrautum. Þessi keppni kallast Austfirsku Ólympíuleikarnir. Leikarnir voru á árum áður árviss atburður sem skólarnir skiptust á að halda enda var þetta góð leið til að halda uppi samskiptum á milli skólanna. Einhverra hluta vegna lögðust leikarnir af fyrir mörgum árum en voru endurvaktir á síðasta skólaári og þá var ákveðið að næst ætti að hittast á Höfn.

Undanfarnar vikur hefur nemendaráð eytt miklum tíma í að undirbúa og skipuleggja leikana. Þar er að mörgu að hyggja. Það þarf að ákveða keppnisgreinar, skipuleggja fyrirkomulag og huga að mat fyrir gestina. Um kvöldið verður síðan ball fyrir nemendur í Sindrabæ. Þar munu margir góðir skemmtikraftar stíga á stokk, t.d. NUSSUN, Húgó, Darri og DJ Eisi.

Við hvetjum alla nemendur til að láta ekki þennan einstaka viðburð fram hjá sér fara.

Á meðan nemendur keppa ætla kennarar að hittast og ræða saman um skólaþróun.

Á myndinni er hluti nemendaráðs, þær Fanney, Elín Ósk, Guðlaug og Þorgerður. Þær voru á fullu að skipuleggja en gáfu sér þó smástund fyrir myndatöku.