Óflokkað

Nýjungar í FAS

Í kjölfar umræðu um stöðu íslenskunnar í skólakerfinu ætlar FAS að snúa vörn í sókn. Á næstu vorönn er fyrirhugað að tilraunakenna áfanga þar sem verk Þórbergs Þórðarson verða í forgrunni. En eins og flestir vita á hann rætur að rekja til Hala í Suðursveit.

Áfanginn verður kenndur í fjarnámi með tveimur stuttum staðlotum. Tvö mikilvæg bókmenntaverk Þórbergs verða brotin til mergjar. Lögð verður áhersla á nákvæman lestur, textagreiningu, innlifun og skapandi verkefnavinnu. Verkefni verða unnin í tengslum við lesturinn, t.a.m. í formi hlaðvarps, lestrardagbókar og umræðna á spjallþráðum. Gert er ráð fyrir helgarlotu að Hala og að nemendur vinni þar hópverkefni. Þá er gert ráð fyrir göngu um Reykjavík þar sem m.a. verða umræður á kaffihúsi um líf og verk skáldsins. Vinnuheiti áfangans er „Skaftfellingur skoðar heiminn“.

Þessi áfangi er ætlaður öllum framhaldsskólanemendum en ætlast er til að þeir hafi lokið íslenskuáföngum á öðru þrepi. Ekki er ólíklegt að einhverjir áhugsamir slæðist í hópinn. Þeir sem vilja vita meira geta haft samband við Guðjón Ragnar Jónasson, skólameistara FAS, gudjon@fas.is.