Notaleg jólasamvera á Nýtorgi
Í dag áttu nemendur og starfsfólk í Nýheimum notalega stund saman í hádeginu. Það var löngu ákveðið að í dag ætti að vera boðið upp á hangikjöt og hefðbundið meðlæti sem því fylgir. Mörgum finnst ómissandi að maula á laufabrauði með hangikjöti. Á mánudag gátu þeir nemendur sem vildu tekið þátt í því að skera út laufabrauð og skreyta piparkökur og var hvoru tveggja í boði núna. Að auki hafði Sigrún bakað gómsæta marengstertu sem voru gerð góð skil.
Á morgun er síðasti kennsludagur annarinnar í FAS. Á föstudag tekur svo við það sem við köllum lokamat en þá hittast nemandi og kennari í stuttu spjalli þar sem verður farið yfir hvað nemendur hafa tileinkað sér á önninni. Lokamati lýkur 18. desember og þá ættu allar einkunnir að vera komnar í Innu. Kennarar gera svo upp önnina á fundi 19. desember.
Við viljum að nemendur okkar komi vel undirbúnir í lokamat og hvetjum þá til að undirbúa sig vel. Að sjálfsögðu óskum þeim góðs gengis þessa síðustu daga annarinnar.
Hér má sjá nokkrar myndir frá laufabrauðsgerðinni, piparkökuskreytingunum og jólamatnum.