Fréttir

NemFAS skorar hátt í mannréttindabaráttu

Árlega stendur Amnesty International fyrir herferð þar sem sérstaklega er verið að skoða mál ungmenna sem oft sæta svívirði­legum mann­rétt­inda­brotum, allt frá lögreglu­of­beldi til dauðarefs­ingar. Þetta er jafnframt stærsti viðburður ársins hjá samtökunum. Herferðin kallaðist Þitt nafn bjargar lífi og fór fram í lok síðasta árs.
Amnesty skiptir herferðinni upp í nokkra flokka og eru framhaldsskólar landsins í einum flokknum.
Að sjálfsögðu tók FAS þátt í átakinu og eflaust muna margir eftir fulltrúum frá nemendafélaginu sem stóðu vaktina á jólahátíð í Nýheimum í lok nóvember. Þar seldu nemendur veitingar og söfnuðu um leið undirskriftum.
Í síðustu viku fékk svo NemFAS póst með upplýsingum úr átakinu. Þar kemur fram að í herferðinni árið 2019 hafi safnast 86.886 undirskriftir undir bréf til stjórnvalda víða um heim sem brjóta mannréttindi. Það var Kvennaskólinn í Reykjavík sem bar sigur úr býtum annað árið í röð í framhaldsskólakeppninni og hlýtur þar með titilinn Mannréttindaframhaldsskóli ársins en skólinn safnaði alls 1936 undirskriftum til stuðnings þolendum mannréttindabrota. Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu safnaði hins vegar flestum undirskriftum miðað við nemendafjölda eða 673 undirskriftum og hlýtur því titilinn Mannréttindaframhaldsskóli ársins í þeim flokki.
Fulltrúar frá Amnesty eru væntanlegir til okkar í FAS á næstunni og ætla að færa nemendum farrandbikar og viðurkenningarskjal og gleðjast saman yfir árangrinum.
Vel gert nemendur! Til hamingju.