Mennta- og barnamálaráðherra heimsækir FAS
Í dag komu til okkar góðir gestir frá mennta- og barnamálaráðuneytinu. Þetta var Guðmundur Ingi Kristinsson mennta- og barnamálaráðherra sem kom ásamt þremur starfsmönnum frá ráðuneytinu. Þessa dagana er verið að vinna að hugmyndum í ráðuneytinu um breytingar á framhaldsskólakerfinu þar sem nokkrar svæðisskrifstofur yrðu settar á fót í landinu. Með slíkum skrifstofum yrðu boðleiðir styttri og þeim einkum ætlað að sinna hluta stjórnsýslu og bæta þjónustu við skólana. Gert er ráð fyrir að fjöldi framhaldsskóla í landinu yrði sá sami og skólarnir myndu halda sínum sérkennum og faglegu sjálfstæði. Ráðherra vill vinna þessar breytingar í samráði við skólana og hefur af því tilefni heimsótt alla framhaldsskóla í landinu auk nokkurra annarra hagsmunaaðila. Í dag var komið að því að heimsækja síðasta framhaldsskólann sem er FAS.
Gestirnir komu í Nýheima laust fyrir hádegi. Þeir kynntu sér starfsemi Nýheima, skoðuðu skólann og ræddu við nemendur. Eftir hádegisverðinn var haldinn fundur með starfsfólki skólans þar sem breytingarnar voru kynntar og ræddar.
Við þökkum þeim kærlega fyrir komuna og það verður spennandi að fylgjast með þróun mála á væntanlegu frumvarpi um breytingar á framhaldsskólakerfinu. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá heimsókninni í dag.