Óflokkað

Landmótun jökla við Heinabergsjökul

Í FAS hefur lengi verið áhersla á að tengja námið við umhverfið og er þá farið með nemendur í ýmis konar ferðir. Lengst hefur verið fylgst með breytingum á jöklum og hefur verið fylgst með bæði Fláajökli og Heinabergsjökli í því skyni. Oftast hefur verið farið að Heinabergsjökli og lengi vel var fjarlægðin mæld frá ákveðnum stöðum í jökulruðningunum fyrir framan Heinabergsjökul að jökulröndinni. Þessir ákveðnu staðir eru tvær járnstangir sem voru settar niður af Jöklarannsóknafélagi Íslands fyrir mörgum áratugum og áttu mælingar að miðast út frá þeim.  Fyrir framan Heinabergsjökul eru tvær slíkar stangir enn í dag og í allmörg ár var fjarlægð mæld frá ákveðnum punktum á landi að jökuljaðrinum. Þær ferðir kröfðust vandaðra vinnubragða við mælingar og svo þurfti að notast við aðferðir stærðfræðinnar til að reikna út fjarlægðir. Þessar stangir nýtast ekki lengur til mælinga en bera þó ákveðinni sögu vitni.

Undanfarin ár hafa orðið miklar og örar breytingar á náttúrunni sem má að stórum hluta rekja til loftslagsbreytinga. Árið 2017 höfðu orðið svo miklar breytingar á Heinabergslóni að ekki var lengur hægt að styðjast við nyrðri mælipunktinn. Þar sem áður lá jökull mátti sjá jaka fljótandi í lóninu. En áfram héldu mælingarnar við syðri mælipunktinn en þar hafði jökullinn virst fremur stöðugur.

Árið 2020 fékk Náttúrustofa Suðausturlands styrk frá Loftslagssjóði til þess að fljúga yfir jökla landsins og taka myndir af þeim, í því skyni að nýta til ýmissa rannsókna. Það var Snævarr Guðmundsson sem þekkir hvað best til jöklanna hér um slóðir sem fékk það hlutverk að taka myndirnar. Þá kom í ljós að syðri hluti Heinabergsjökull var ekki lengur virkur hluti skriðjökulsins heldur í raun risavaxinn ísjaki. 

Þessar miklu breytingar á umhverfinu hafa kallað á breytingar á ferðinni með nemendur FAS. Nú tölum við ekki lengur um jöklamælingaferð heldur skoðunarferð þar sem sjónum er sérstaklega beint að landmótun jökla og hvernig megi „lesa“ í landið og sjá ummerki um hvar jökullinn hefur verið. Og þar er sannarlega af mörgu að taka. Við skoðum margt sem tengist landmótun jökla en það er líka margt annað að skoða, t.d. hvernig landið mótast af völdum veðrunar, hvaða bergtegundir eru á svæðinu og eins veltum við fyrir okkur gróðurframvindu á svæðinu og rifjum upp í leiðinni hugtök úr ferðinni okkar á Skeiðarársand í upphafi annar.

Ferðin í dag hófst við brúna yfir Heinabergsvötn. Auk nemenda í áfanganum INGA1NR05 voru nokkrir nemendur og kennarar af starfsbraut. Það eru alltaf nokkrir í hópnum sem hafa ekki komið á þetta svæði og vita því ekki af þessari brú eða að þarna hafi þjóðvegurinn legið eitt sinn. Frá brúnni er síðan gengið inn að lóninu fyrir framan Heinabergsjökul. Á leiðinni er staldrað alloft við og lesið í landið. Í ferðinni í dag vorum við t.d. að skoða árfarvegi, jökulruðninga, jökulkembu, grettistök, landmótun jökla uppi í fjöllum, gróðurframvindu, veðrun og mismunandi grjót og hvernig það veðrast misvel. Frá lóninu lá síðan leiðin fram hjá gömlu mælingarpunktunum og á bílaplanið fyrir framan Heinabergslónið þar sem rútan beið eftir okkur. Snævarr Guðmundsson hjá Náttúrustofu Suðausturlands var með okkur í ferðinni í dag og miðlaði af fróðleik sínum.

Skriðjökullinn sjálfur vakti sérstaka athygli okkar í dag. Sporður hans hefur lengi verið á floti og á síðustu árum hefur skriðjökullinn verið að brotna upp.  Í sumar brotaði af honum sem nemur tveimur kílómetrum og alls hafa á undanförnum árum um 5 kílómetrar brotnað af jökulsporðinum. Fyrir vikið stendur hinn eiginlegi Heinabergsjökull um 5 kílómetrum innar en hann gerði fyrir 10 árum síðan. Gervitunglamyndir sýna að fremstu 5 kílómterar á jökultungunni eru í raun risastórir ísjakar sem bíða örlaga sinna.

Ferðin í dag gekk ljómandi vel enda veður fádæma gott. Líklegt er að allir hafi komið heim reynslunni ríkari. Næstu daga munu svo staðnemendur í áfanganum INGA1NR05 vinna skýrslu um ferðina.

Hér má sjá nokkrar myndir úr ferðinni.