Íslenska umfram allt
Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á námsframboð vorannarinnar. Hér í FAS verður boðið upp á tvær spennandi nýjungar.
Íslenska sem annað mál er áfangi sem miðar að því að efla tungumálahæfni þeirra sem ekki hafa íslensku sem fyrsta mál. Þessi áfangi verður kenndur í fjarnámi en þeir sem vilja geta komið í FAS einu sinni í viku til að æfa málið. Nemendur geta þó búið hvar sem er vilji þeir taka þátt. Kennarar eru þær Sigríður Kristinsdóttir aðjúnkt við HÍ í íslensku sem öðru máli og Lína Dóra Hannesdóttir kennari við FAS. Við bjóðum væntanlegum nemendum einnig að senda inn námsögn til að skoða þeirra námsstöðu með það fyrir augum að opna leiðina að frekara námi. Þurfi einhverjir aðstoð við að skrá sig er hægt að senda póst á áfangastjóra kristjane@fas.is eða skólameistara gudjon@fas.is – hér eru nánari upplýsingar um áfangann og einnig hlekkur þar sem er hægt að sækja um nám.
Skaftfellingur skoðar heiminn er áfangi sem verður kenndur í fjarnámi með tveimur stuttum staðlotum. Tvö mikilvæg bókmenntaverk Þórbergs liggja til grundvallar. Lögð verður áhersla á nákvæman lestur, textagreiningu, innlifun og skapandi verkefnavinnu. Gert er ráð fyrir helgarlotu að Hala og að nemendur vinni þar hópverkefni. Einnig er gert ráð fyrir göngu um Reykjavík þar sem m.a. verða umræður á kaffihúsi um líf og verk skáldsins. Gestafyrirlesari og sérlegur ráðgjafi okkar er Soffía Auður Birgisdóttir sem er manna fróðust um Þórberg. Hér eru nánari upplýsingar um áfangann og þar er einnig hægt að sækja um nám.
Við hvetjum alla áhugasama til að skoða þessar spennandi nýjungar og hlökkum til að sjá sem flesta í FAS.