Óflokkað

Hádegisfundir í boði HeimaHafnar

Á síðasta ári sögðum við nokkrum sinnum frá HeimaHöfn sem er samstarfsverkefni Nýheima þekkingarseturs og Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Þetta er þriggja ára verkefni þar sem er unnið með ungu fólki, fulltrúum úr atvinnulífinu, skólum og öðrum hagsmunaaðilum á svæðinu. Ætlunin er að miðla upplýsingum um fjölbreytt tækifæri til menntunar og atvinnu á svæðinu. Einnig að efla félagslega virkni ungmenna og samfélagsþátttöku. Síðast en ekki síst að hitta á þau ungmenni sem hafa farið annað til að afla sér frekari menntunar, viðhalda tengslunum þó þau séu komin annað og minna þau á að það séu alltaf tækifæri í heimahögunum. Allt miðar þetta að því að efla samfélagið og byggðina í sveitarfélaginu okkar.

Í þessari viku hittu þær Eyrún Fríða sem er verkefnastjóri HeimaHafnar og Hugrún Harpa forstöðumaður Nýheima nemendur FAS á tveimur hádegisfundum. Á fyrri fundinn mættu stelpur í FAS og strákar á þann seinni. Til að nýta tímann sem best var hádegishléið notað og HeimaHöfn bauð upp á pizzu á meðan rætt var um tækifæri ungs fólks til félagslegrar þátttöku í sveitarfélaginu. Það er skemmst frá því að segja að umræður voru ágætar og pizzunum voru gerð góð skil. Niðurstöðurnar verða nýttar til frekari þróunar HeimaHafnar, viðburðahalds og mótun frekari aðgerða til að efla samfélagsþátttöku ungs fólks í sveitarfélaginu.