Óflokkað

Frístund í Nýheimum næsta laugardag

Laugardaginn 13. september næstkomandi verður haldinn viðburður í Nýheimum sem ber nafnið Frístund og er þetta í annað sinn sem blásið er til þessa viðburðar. Þar munu ýmis félagasamtök og klúbbar kynna starfsemi sína en þau eru fjölmörg í sveitarfélaginu og mjög mörg störf eru unnin í sjálfboðavinnu. Viðburðinum ætlað að vekja athygli á því góða starfi með lifandi og persónulegri kynningu. Þá gefst félagasamtökum og klúbbum tækifæri til að kynna starf sitt og auka þekkingu íbúa á tækifærum til þátttöku.

Markmið Frístundar er að draga fram margbreytileika sjálfboðaliðasamtaka og þeirrar afþreyingar sem er í boði í sveitarfélaginu, skapa vettvang fyrir kynningar, umræðu um þátttöku en jafnframt að stuðla að aukinni þátttöku, virkni og vellíðan íbúa.

Áhersla Frístundar í ár er að ná til ungmenna og einnig þess hóps sem hefur íslensku sem annað tungumál.

Við hvetjum sem flesta til að líta við í Nýheimum á milli 13 og 16 á laugardaginn og kynna sér hvað er í boði. Og það væri ekki ekki verra að finna sér klúbb eða félagasamtök til að starfa með. Það er bæði gaman og gefandi að taka þátt.

Hér fyrir neðan má sjá hvað er í boði í Nýheimum á laugardaginn.