Óflokkað

Félagslífið að rúlla af stað

Í byrjun vinnustundar í dag komu forsvarsmenn nemendafélagsins og kynntu hvað er framundan. Og þar er af nógu að taka. Klúbbastarfið hefur fest sig í sessi fyrir löngu og þeir sem taka þátt í félagslífinu þurfa að skrá sig í klúbb. Þar móta þátttakendur í hverjum klúbbi starfið og þurfa líka að standa fyrir a.m.k. einum viðburði á önninni. Lögð var fyrir skoðanakönnun á meðal nemenda um hvaða klúbba þeir vilja helst sjá á önninni. Þá er Söngkeppni framhaldsskólanna framundan og áhugasamir hvattir til að skrá sig. Þá er best að ræða við forsetana til að fá meiri upplýsingar.

Eins og við sögðum frá í síðustu viku komst lið FAS áfram í Gettu betur. Í næstu viku er komið að annarri umferð keppninnar. FAS mætir þar FVA sem er Fjölbrautaskóli Vesturlands. Viðureignin fer fram mánudaginn 19. janúar og eins og í síðustu viku verður lið FAS staðsett í Nýheimum. Því geta áhorfendur komið og fylgst með. Keppnin hefst klukkan 20:50 og þeir sem ætla að fylgjast með á staðnum þurfa að vera komin a.m.k. 10 fyrir útsendingu. Við sendum okkar fólki bestu óskir um gott gengi og hvetjum alla til að fylgjast með, annað hvort á staðnum eða í útvarpi.