Óflokkað

FAS keppir í Gettu betur á ný

Árið 1986 fór af stað spurningakeppnin Gettu betur en þar eigast nemendur framhaldsskólanna við. Keppnin hefur farið fram árlega síðan þá og hefur verið einn vinsælasti dagskrárliður Ríkisútvarpsins frá upphafi. Eftir að FAS kom til sögunnar skráði skólinn sig í keppnina og hefur oft staðið sig vel og komst meira að segja einu sinni í átta liða úrslit í sjónvarpi. Síðast tók FAS þátt í keppninni árið 2022 en eftir Covid hefur skólinn ekki átt lið – þangað til núna.

FAS keppir í kvöld við FÍV sem er Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum. Upphaflega hafði verið gert ráð fyrir að liðið frá FAS færi í hljóðverið á Egilsstöðum til að taka þátt en vegna slæms veðurútlits síðar í dag og á morgun hefur verið horfið frá því. RÚV ætlar að senda búnað með seinna fluginu í dag svo hægt verði að senda viðureignina út héðan. Lið FAS mun verða staðsett í fyrirlestrasal Nýheima og þangað geta einnig þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með keppninni komið. Gert er ráð fyrir að keppnin byrji klukkan 20:10 og gestir þurfa að vera komnir í síðasta lagi klukkan 20 í salinn.

Lið FAS skipa að þessu sinni þau Áskell Vigfússon, Birta Ósk Sigbjörnsdóttir og Elín Ósk Óskarsdóttir. Að sögn hafa þau ekki undirbúið sig mjög mikið en eru engu að síður spennt fyrir kvöldinu. Að sjálfsögðu óskum við þeim góðs gengis og hvetjum þá sem ekki komast í Nýheima til að hlusta á útsendinguna í spilara RÚV. 

Áfram FAS!!