Barna- og ungmennaþing í Nýheimum í dag
Það er mikið um að vera í Nýheimum í dag en hér er haldið barna- og ungmennaþing á milli 10 og 12. Sveitarfélagið Hornafjörður hefur hlotið útnefninguna Barnvænt sveitarfélag og það þýðir að það leggur áherslu á að vinna í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og tryggja öllum börnum í sveitarfélaginu réttindi í samræmi við hann. Þátttakendur á þinginu í Nýheimum eru nemendur 6. – 10. bekkjar úr grunnskólanum og nemendur FAS. Bæjarstjóri Sigurjón Andrésson setti þingið.
Markmiðið með barna- og ungmennaþingi er að ná fram skoðunum barna og unglinga á ýmsu sem snýr að réttindum barna, aðstöðu, möguleikum, vernd og fleiru hjá börnum og unglingum. Á þinginu er hlustað á skoðanir barna og hvað þau hafa fram að færa.
Það er Ungmennaráð Hornafjarðar sem hefur lagt grunninn að þeim málefnum sem eru rædd. Málefnunum er síðan skipt niður í málstofur eftir þemum og það eru alls 15 málstofur á þinginu í dag. Í hverri málstofu er málstofustjóri sem stjórnar umræðu og kemur hann úr hópi nemenda. Ritarar sem koma úr hópi starfsmanna sjá um að skrá allt niður. Auk þeirra eru u.þ.b. 10 nemendur í hverri málstofu sem nú fá tækifæri til að tjá sig og koma skoðunum sínum á framfæri.
Þingið í dag gekk ljómandi vel og unga fólkið hefur sannarlega mikið fram að færa. Dagur mannréttinda barna er haldinn 20. nóvember ár hvert. Þá er ætlunin að kynna niðurstöðurnar af þinginu í dag. Sveitarfélagið mun svo nota upplýsingarnar til að bæta samfélagið í þágu barna. Hér má sjá nokkrar myndir frá þinginu í dag.