Aukið námsframboð á nýju ári
Gleðilegt nýtt ár frá okkur í FAS.
Á morgun, þriðjudag hefst skólastarf vorannarinnar formlega hjá staðnemendum klukkan 8:30 en þá eiga þeir að mæta til umsjónarkennara sinna. Eftir fundinn verður kennt samkvæmt hraðtöflu þar sem verður farið yfir kennsluáætlanir og skipulag áfanganna. Kennsla hef svo samkvæmt stundaskrá miðvikudaginn 7. janúar. Fjarnemendur eiga að fá boð um fjarfund þar sem verður farið yfir námið og fyrirkomulagið.
Á þessari önn er blásið til sóknar hvað varðar námsframboð skólans. Það á við bæði um staðnám og fjarnám. Langflesta áfanga í námsframboði skólans er bæði hægt að taka í staðnámi og fjarnámi.
Meðal nýjunga á þessari önn er grunnteikning sem er mikilvægur áfangi fyrir tækni- og hönnunargreinar. Þessi áfangi verður bæði kenndur í staðnámi og fjarnámi og er fyrsta skref í því að efla og endurvekja starfsnám við FAS. Við viljum sérstaklega hvetja þá sem hafa áhuga á iðn- og tækninámi að kynna sér málið því að þessi áfangi er góð leið til að hefja nám, jafnvel með vinnu. Ekki er gerð nein krafa um undirbúning. Hér má lesa nánar um áfangann. Kennari verður Ragnheiður Hrafnkelsdóttir og ef það eru einhverjar spurningar er hægt að senda póst á raggakela@fas.is
Þá höfum við þegar sagt frá tveimur nýjum áföngum í íslensku. Annars vegar er það ÍSAN1AA sem er áfangi sem miðar að því að efla tungumálahæfni þeirra sem ekki hafa íslensku sem fyrsta mál. Það er mjög góð skráning í þann áfanga. Hins vegar er boðið upp á áfanga þar sem sem verk Þórbergs Þórðarsonar verða í forgrunni. Hægt er að skoða námsframboð skólans hér. Það eru meiri upplýsingar um fjarnám á heimasíðu skólans og þar er einnig hægt að sækja um nám. Hægt er að sækja um fjarnám til 15. janúar en best að skrá sig sem fyrst.