Samstarf við Þýskaland
Erlent samstarf hefur lengi verið mikilvægur hluti af námsframboði í FAS og margir nemendur eiga minningar um þátttöku í slíkum verkefnum. Enn og aftur er erlent samstarfsverkefni í gangi því á þessu skólaári er FAS í samstarfi við skóla í Beverungen í Þýskalandi. Það eru sjö nemendur í verkefninu í FAS en 13 í Gymnasium Beverungen. Gagnkvæmar heimsóknir hafa fallið á sitthvora önnina en að þessu sinni verða báðar heimsóknirnar á vorönninni.
Gestirnir frá Þýskalandi eru væntanlegir til Hafnar 9. mars og dvelja hér til 14. mars. Hér munu þeir taka þátt í opinni viku í FAS sem endar með árshátíð þann 12. mars. Að auki munu gestirnir fara í heimsóknir og skoðunarferðir og fá þannig tækifæri til að kynnast sem mestu á stuttum tíma. Þessa dagana eru þátttakandur í FAS á fullu að útbúa dagskrá fyrir hópinn og það verður nóg um að vera.
Hópurinn frá FAS flýgur til Frankfurt um miðjan maí og fer þaðan með lest til Beverungen og verður í tæpa viku. Þangað koma líka nemendur frá ítölskum samstarfsskóla og saman munu nemendur frá skólunum þremur vinna að verkefnum og fara í skoðunarferðir til nærliggjandi bæja og borga. Hópurinn kemur til baka 21. maí, eða rétt fyrir útskrift sem verður 23. maí en í íslenska hópnum eru tvö útskriftarefni.
Á myndinni má sjá íslensku þátttakendurna.