Óflokkað

Fyrsta fuglatalning vetrarins

Reglulegar fuglatalningar hafa verið í mörg ár verið eitt af vöktunarverkefnum FAS og eru tengd inn á áfanga í umhverfis- og auðlindafræði. Þá er farið þrisvar sinnum á önninni út í Ósland og fuglar taldir á ákveðnu svæði. Þetta verkefni er unnið í samstarfi við Fuglaathugunarstöð Suðausturlands og upplýsingar úr talningum eru sendar í lok annar til Náttúrufræðistofnunar Íslands. Notast er bæði við handsjónauka og fjarsjá við talningarnar.

Margt ber á góma í ferðunum út í Ósland. Við tökum veðrið og veltum líka fyrir okkur aðstæðum til að telja, hvort það sé innfall eða útfall o.s.frv. Þá læra nemendur hvernig skipta megi talningasvæðinu upp í reiti til að auðvelda talningu. Síðast en ekki síst veitum við umhverfinu athygli og horfum eftir rusli og mengunarvöldum.

Á þessari önn eru rúmlega tuttugu nemendur skráðir í umhverfis- og auðlindafræði í FAS. Þeir eru að stærstum hluta fjarnemendur sem eru dreifðir um landið og búa jafnvel erlendis. Þeir geta að sjálfsögðu tekið þátt í fuglatalningum og velja sér þá svæði til að skoða. Í gær fóru einungis tveir staðnemendur í talninguna en gaman að sjá hvað þær voru tilbúnar að sjá og fræðast.

Talningin í gær gekk ljómandi vel. Það voru taldir rúmlega 1000 fuglar og greindust þeir í 13 tegundir. Mest var af æðarfugli og einnig voru nokkrar tegundir máva. Af því að það voru norðlægar áttir fórum við niður í fjöru til að fá skjól við talningarnar. Á leiðinni niður bakkann sáum við töluvert magn af rusli sem líklega hefur hrakist undan vindi. Mest af ruslinu var einhvers konar plast sem flestir vita að á alls ekki heima í umhverfinu.

Hér má sjá nokkrar myndir úr ferðinni í gær.