Vel heppnaðir Ólympíuleikar
Það var heldur betur mikið um að vera í FAS á föstudag þegar Austfirsku Ólympíuleikarnir voru haldnir. Gestirnir frá ME og VA mættu í hús á tólfta tímanum. Það hafði verið ákveðið að bjóða gestunum og okkar fólki í FAS upp á grillaða hamborgara með tilheyrandi. Að málsverði loknum var svo efnt til spurningakeppni í Kahoot. Sigurvegarinn fékk að launum miða á ballið.
Ólympíuleikarnir hófust svo í íþróttahúsinu klukkan 13. Keppt var í bandý, stinger, fótbolta og boðhlaupi og einnig var haldin tískusýning þar sem þátttakendur fengu ákveðna hluti til að útbúa sig fyrir sýninguna. Allir fengu sömu hlutina. Þegar kom að því að dæma sigurvegarann voru skólameistarar skólanna þriggja kallaðir til. Leikarnir gengu ljómandi vel og þegar búið að var að reikna út stigin kom í ljós að VA hafði borið sigur úr býtum og eru Ólympíumeistarar Austurlands. Á meðan leikarnir stóðu yfir hittust kennarar frá VA og FAS þar sem þeir ræddu m.a. skólaþróun.
Eftir leikana gafst krökkunum tækifæri á að fara í sund og skola af sér fyrir ball sem var haldið í Sindrabæ um kvöldið. Þar sáu NUSSUN og félagar um að halda upp stuðinu. Það voru ríflega 100 krakkar sem mættu á ballið í Sindrabæ og stemningin var frábær. Það var gaman að sjá nokkra krakka sem ekki eru í skólanum en á framhaldsskólaaldri mæta. Eftir ballið héldu síðan gestirnir heim.
Þetta var svo sannarlega góður og vel heppnaður dagur sem við erum ánægð með. Það lögðust allir á eitt með að láta hlutina ganga en við viljum sérstaklega þakka Jóhanni Bergi sem stóð vaktina í íþróttahúsinu og ekki síður Línu Dóru sem heldur utan um félagslífið með nemendum. Mestar þakkir fær þó nemendaráð sem stóð sig með stakri prýði.
Hér má sjá nokkrar myndir frá föstudeginum.