ForestWell menntaverkefninu lokið
								Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu, FAS hefur lengi verið virkur þátttakandi í fjölbreyttri Evrópusamvinnu bæði í formi nemendaskipta- og námsefnisgerðarverkefna. Öll hafa þessi verkefni verið unnin í anda Evrópusamstarfs þar sem áhersla er á að bæta aðgengi að námsefni, auka víðsýni og þekkingu þátttakenda á aðstæðum og menningu samstarfsaðilanna og heimalöndum þeirra. Og mörg þeirra hafa verið styrkt af Erasmus+, menntaáætlun Evrópusambandsins.
Til skamms tíma hefur FAS litið svo á að tenging skólans út í samfélagið og við atvinnulífið sé mikilvægur þáttur skólastarfsins og hefur skólinn á liðnum árum verið virkur þátttakandi í evrópskri námsefnisgerð sem styður við símenntun aðila á vinnumarkaði í álfunni. ForestWell er eitt af þeim Erasmus+ mennta- og námsefnisgerðarverkefnum sem FAS hefur tekið þátt í og lauk gerð þessa námsefnis nú á haustdögum.
Í ForestWell verkefninu var unnið að gerð námsefnis í samstarfi menntastofnanna og fyrirtækja á sviði markaðsmála og stafrænna lausna frá Danmörku, Finnlandi, Írlandi, Íslandi og Slóveníu sem stýrði verkefninu. Markmið ForestWell verkefnisins var að vinna rafræna náms- og þjálfunarpakka fyrir ferðaþjónustu-, upplifunar- og heilsueflingarfyrirtæki auk menntastofnana. Megininntak námsefnisins sem unnið hefur verið að er að bjóða fram leiðir til að nýta velferðaráhrif skógar- og kjarrlendis til atvinnusköpunar og heilsueflingar annars vegar, og stuðla að velferð skóga og gróinna svæða hins vegar. Í verkefninu var einnig unnið að uppbyggingu tengslanets aðila sem tengjast skógrækt, almennri náttúruvernd, heilsueflingu og menntun. Námsefni ForestWell er sett fram á rafrænan hátt á heimasíðu verkefnisins og er það þar í opnu rafrænu námsumhverfi (MOOC – Massive Open Online Course) og á formi gagnaukins veruleika (AR Augmented Reality).
Nú þegar ForestWell verkefninu er formlega lokið vill undirrituð, fyrir hönd FAS og samstarfsaðila okkar, þakka öllum þeim sem komu að verkefninu á einhvern máta kærlega fyrir samstarfið og stuðninginn.
Með ósk um að námsefnispakki ForestWell nýtist við uppbyggingu nýrra sjálfbærra atvinnutækifæra og almennrar heilsueflingar.
Hulda Laxdal Hauksdóttir, verkefnastjóri í FAS